Löggufóbía borgar sig

Á lífsleiðinni hef ég orðið þess vör að einstaka samferðarmanna minna eru haldnir löggufóbíu. Mega ekki sjá löggubíl án þess að fara á taugum. Ég hef túlkað það svo þegar ég finn þessa hræðslu hjá fólki að það hafi einhvertíma haft eitthvað á samviskunni eins og að aka undir áhrifum eða glannalega. Í því sitji óttinn af gömlum vana.

Sjálf fann ég aldrei þessa tilfinningu; lét lögguna ekki trufla mig og hélt áfram mína leið. Þar til nú síðasta árið eftir að ég flutti austur og umferðarpostularnir komu því í gegn að sektir yrðu hækkaðar og viðmiðunarmörkin lækkuð. Þrátt fyrir það hef ég á tæpa fjörutíu ára ökuferli alla jafna ekið á löglegum hraða - og geri enn. Það hefur þó einstaka sinnum komið fyrir að ég hafi verið tekin yfir mörkum á götum sem bjóða upp á ekið sé greitt en einhverra hluta vegna er hámarkshraði aðeins 40 - 50 kílómetrar á klukkustund. Ég veit því nú að menn þurfa ekki að hafa neitt á samviskunni þó löggufóbía hrjái þá.

Auðvitað tek ég því eins og hverju öðru hundsbiti og borga mína sekt. Á föstudagskvöldið var ég á leið heim frá Selfossi. Magnús beið með kvöldmatinn og um það bil sem ég kom útúr síðasta hringtorginu þaðan á beinu brautina hringdi hann og spurði hvað mér liði. Ég setti í fimmta og steig á bensíngjöfina. Uml eið sé ég löggubílinn sem setur upp bláu blikkljósin. "Fjárinn nú hafa þeir séð mig tala í símann," segi ég við sjálfa mig og blóta Magnúsi í hljóði.

Ábúðarmikinn löggumanninn sé ég í baksýnisspeglinum og spyr um leið og ég stíg út hvað ég hafi gert af mér. Jú, ég var vel yfir hraðamörkum sem aðeins eru 50 kílómetrar á klukkustund  fyrstu 200 metrana eftir að ekið er út ú hringnum; mældist á liðlega sextíu.

Það voru tuttugu metrar í Laugarvatnsafleggjarann þar sem hraðamörkin breytast í 70. En lögga Ólafs Helga plantar sér gjarnan þarna og nælir í dágóða summu í kassann.

Sjaldan verð ég eins pirruð og þegar ég þarf að punga út peningum fyrir ekki neitt. Ég er löghlýðin í umferðinni og í nær daglegum ferðum mínum á milli Hveragerðis og Reykjavíkur gæti ég þess sérstaklega að fara aldrei yfir 95. kílómetra hraða. Ég fer aldrei fram úr bíl nema þar sem tvöföld akbraut er og fer eftir umferðarlögum eins vel og ég kann þau. Á Suðurlandveginum eru jafnan tveir löggubílar og þeir gera sig oftar en ekki seka um að liggja þar sem þeir sjást ekki. Ég veit af reynslu að eins gott er að passa sig og geri það. Það breytir ekki því að ég myndi ekki aka hraðar enda tæplega hundrað kílómetra hraði ósköp þægilegur og afslappandi á þessari leið.

Sjálfsagt er að sekta fyrir of hraðan akstur en það veit sá sem allt veit að einbeittur brotavilji var ekki fyrir hendi hjá mér í þetta sinn. Sektina greiði ég því fyrst og fremst fyrir hugsunarleysi.

En sýsli er snöggur þegar innheimta þarf sektirnar. Með póstinum í morgun barst 15 þúsund króna gíróseðill. Ég vildi að hann væri eins fljótur til verka þegar önnur verk sem honum ber að sinna eru annars vegar, eins og að afgreiða skýrslur til tryggingafélaganna. Það tekur embættið minnst viku að koma slíkri skýrslu frá sér nokkrar húsalengjur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband