24.4.2008 | 15:35
Dáinn, horfinn harmafregn - samtímamenn að hverfa af sjónarsviðinu
Ég opna ekki svo Morgunblaðið á morgnanna að ég þekki ekki einhvern sem auglýst er að sé látinn eða hans eða hennar minnst í blaðinu.
Eftir því sem aldurinn færist yfir þá hverfa samtímamenn af sjónarsviðinu hver af öðrum. Þegar ég var tvítug þá var manneskja á milli þrítugs og fimmtugs á besta aldri; fólkið sem hélt um taumana í stjórnmálum og öllu félagslíf og stjórnaði landinu.
Þetta fólk hefur verið að hverfa hvert af öðru af sjónasviðinu undangengin ár. Nú síðustu árin er komið að eigin kynslóð; jafnaldrar og mínir, gamlir kunningjar og vinir eru farnir að týna tölunni. Nánast vikulega les ég um einhvern sem ég þekkti vel í eina tíð en hef kannski ekki haft samband við um lengri tíma enda þroskast frá hvort öðru vegna vinnu og áhugamála. Eigi að síður er manni hlýtt til þeirra sem maður hefur arkað með um götur lífsins þó um skamman tíma hafi verið að ræða .
Samfara fjölgar útförum þrátt fyrir að ég hafi ekki lagt það í vana minn að fylgja nema þeim allra nánustu og kærum vinum.
Nú í sömu vikunni fóru tvær manneskjur sem ég þekkti mjög vel en á ólíkan máta; hvert úr sinni áttinni. Önnur var mér mjög tengd; greindist með krabbamein í lok árs. Síðan hefur allt verið gert sem hægt var en án árangurs. Ég hef ekki enn áttað mig á að hún sé farinn þrátt fyrir að frá upphafi væri ljóst að mín elskulega Unnur myndi fyrr en síðar þurfa að gefast upp. Ég sakna ég hennar sárt. Hin manneskjan er skólabróðir Magnúsar úr viðskiptafræðinni, árinu yngri en hann ef ég man rétt. Ég kynntist honum, í gegnum íþróttirnar í gamla daga og hef þekkt hann í yfir fjörutíu ár.
Örn Guðmundsson hét hann og féll frá án þess að hafa kennt sér nokkurs meins áður; féll niður án nokkurs fyrirboða og var allur tveimur dögum síðar. Í hálsi hans hafði stíflast æð sem lokaði fyrir blóðstreymi upp í heila. Hann hefði trúlega aldrei náð sér þótt hann hefði lifað af. Það hefði ekki verið í anda Össa Guðmunds að eiga allt undir örðum og geta ekki spilað fótbolta einsog hann gerði fram á síðasta dag. Útför hans fer fram á morgun og ég efa ekki að hún verði fjölmenn eins marga vini og félaga Össi átti.
Mér finnst þetta ógnvænlegt; minnir mig á að það fer að koma að mér sjálfri og mínum kærustu: hef alltaf haft það á tilfinningunni að ég verði ekki langlíf.
Minningagreinarnar í Mogga eru nokkurs konar "stadus symbol". Sá sem skrifað er um af sem flestum; einkum þeim virtu og frægu í samfélaginu standa upp úr í augum hins almenna lesenda; þessi, hlýtur að hafa eitthvað til brunns að bera enda skrifa um hann landsþekktir menn..
Ég hef því haft vaðið fyrir neðan mig til að fá smá uppreisn æru eftir dauðann og gert samning við tvo vina minna í rithöfundarstétt að þeir skrifi um mig og ég um þá; eða þannig. Það ætti að lyfta manni aðeins upp úr meðalmennskunni - eftir að maður er dauður enda ekki seinna vænna.
Flokkur: Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 17:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.