...og svo tuða ég ekki oftar um þessa kerru Magnús!

Ég minntist á í síðustu færslu árlega "Blómstarandi daga" sem jafnan eru haldnir með miklum bravör hér í Hveragerði aðra eða þriðju viku í ágúst.

Í ár var mikið um að vera og bænum sem stækkað hefur ört á þessum tveimur árum sem ég hef búið hér, var skipt í þrennt og skreyttu menn garða sína og hús í litum sem við áttu. Austurbærinn var blár  Norðurbærinn rauður og Suðurbærinn þar sem ég bý var úthlutað bleikum lit. Annars er ég ekki með áttirnar alveg á hreinu, Austurbærinn er í austur frá mér, svo þess vegna gæti ég allt eins verið í Vesturbænum

Hvað sem áttunum líður þá var gaman að fylgjast með stemningunni í bænum fyrir þessa helgi; maður fann fyrir samhug bæjarbúa sem allir lögðust á eitt að fegra og skreyta en hér eru garðar við hvert hús enda skilyrði fyrir gróður í Hveragerðir einstakur eins og menn vita.

Það sem ég fann helst að bænum þegar ég flutti fyrir tveimur árum var hirðuleysi sumra bæjarbúa sem létu hús sín drabbast niður og annarra sem hirtu ekki garða sína eða og girðingar. Það pirraði mig því mér finnst skömm af slíkum slóðaskap. Á höfuðborgarsvæðinu stingur verulega í augu ef einn garður við götu er ekki hirtur; almennt eru húseigendur stórborginni og bæjunum í kring duglegir að sinna eignum sínum eða öllu heldur smáborgarinn í þeim svo sterkur að þeir skera sig ekki úr. Það vill enginn fá á sig stimpilinn; "fyllibyttur" eða "óreiðufólk."  

Gjörbylting hefur verið á þessum stutta tíma og ég hef mína skýringu á hvað valdi hugarfarsbreytingu íbúa. Og það kemur pólitík ekkert við án þess að ég vilji gera lítið úr vilja bæjaryfirvalda til að sýna gott fordæmi því það hafa þau sannarlega gert.

Ég er þess fullviss að áhrifa gætir frá nýjum Hvergerðingum en margir þeirra sem hingað hafa flutt er við ágæt efni, eða vel menntað, nema hvoru tveggja sé.. Fólk sem kosið hefur að búa hér og ala upp börn sín í litlu samfélagi í stað þess að þvengjast höfuðborgarsvæðið enda á milli með börn í íþróttir tónlist eða hvað annað í umferðarstressi og pirringi.

Þetta er fólk sem áfram vinnur í á höfuðborgarsvæðinu en ekur á milli til og frá vinnu. Fólk sem kaus að veðsetja ekki líf sitt og limi fyrir lífstíð bönkunum, heldur seldi sína blokkaríbúð í góðærinu og keypti sér einbýli fyrir sama verð hér.

Fjölgunin sem átt hefur sér stað hér hefur gert það að verkum að Hveragerði er ekki eins eintóna bær eins og hann var. Með nýju fólki flýtur með tekjuhátt og vel menntað fólk með annan þankagang.

Með þessari fullyrðingu ætla ég alls ekki að gera lítið úr neinum; vissulega eru þeir sem hér hafa búið fyrir ekki neitt ómenntað pakk. Allflestir duglegt, ábyrgt og hirðusamt fólk. En það er ekki hægt að mótmæla því að Hveragerði og Selfoss hafa verið á svokölluðu láglaunasvæði.

Ég hef ekki hugmynd um hvort útsvarstekjur pr. íbúa hafa hækkað hér og því er þessi vissa mín ekki bundin neinum rökum; aðeins tilfinningu. Hún segir mér að þeir aðkomnu hafi haft áhrif á þá sem fyrir voru og það til góðs. Manneskjan er nefnilega með þeim ósköpum gerð að staðna ef ekki blása um hana ferskir vindar og festast í því umhverfi sem hún býr í. Verða þar með ónæm fyrir nánustu grennd.

Og það er ekkert óeðlilegt við það. Öll getum við horft yfir skóginn og án þess að sjá hann fyrir trjám. Við drögum dám af hvort öðru og ef Jónas á horninu fer að trassa að slá og klippa, finnst Gunnu handan við hann, ekkert liggja á að fara út og rífa upp arfa. Og smátt og smátt... já það þarf ekki að útlista nánar hvað gerist.

Að sama skapi bregðast menn við, á hinn veginn; Suð í sláttuvél í næsta garði fær mann til hvarfla huganum að eigin vél í bílskúrnum

Ég hef hitt marga nýflutta í gönguferðum mínum um bæinn með hundana mína. Hundaeigendur eru nefnilega þeirrar gerðar að ganga ekki þegjandi framhjá þegar þeir hittast, heldur taka tal saman. Samtal sem hefst á tali um dýrin leiðist út í eitthvað allt annað. Maður er manns gaman og það er einn af kostum þess að eiga hund að njóta oft skemmtilegra samræðna og verða um leið málkunnur fólki sem maður hefði annars aldrei kynnst.

Með fjölgun íbúa í Hveragerði undanfarin 2-4 ár hefur komið fólk með ferska gust og og lokið upp augum þeirra sem þurftu þess með. Og áhrifin eru öllum sem vilja sjá breytingarnar sjáanlegar.

Þetta rita ég á meðan fyrir utan mitt hús stendur kerra með drasli úr bílskúrnum og runnarnir fyrir framan hús eru óklipptir og að því ógleymdu að gamla skrifborðið mitt sem borið var út fyrir þremur vikum komst ekki lengra en út í garð. En í mínum huga eru ferðir á haugana eða endurvinnsluna karlmannsverk, á mínu heimili Magnúsarverk. Og svo tuða ég ekki oftar um þessa kerru Magnús!

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Ja mikið lán er yfir okkur Hvergerðingum - ég segi ekki meir.

Kjánalegt annars hvað það kemur illa út þegar hrokkagikkir reyna að fela hrokann - það bara er dæmt til að mistakast. Ég get sagt þér það svona þér til upplýsingar að hingað til hafa Hvergerðingar ekki þurft leiðsögn eða hvatningu hvorki frá Reykvíkingum eða öðrum til þess að rækta garðinn sinn. Hins vegar eru ekki lengur Hvergerðingar í nema þriðja hverju húsi hér í bæ þannig að það er kannski umhugsunarvert hverjir það eru sem ekki taka til heima hjá sér.

Þar sem þú ert greinilega ekki kunnug hér í bæ get ég líka sagt þér það að um sama leiti og fasteignaverð rauk upp í Reykjavík fluttist hingað fólk af því svæði og settist að í ódýrasta húsnæði bæjarins í hópum. Það vill svo merkilega til að á sama tíma fer að gæta verulegrar hnignunar svo ekki sé meira sagt í almennri garða- og húsaumhirðu í ásýnd bæjarins.

Ég á nú frekar svona erfitt með að kalla þessa hreppaflutninga ferskan gust!

Soffía Valdimarsdóttir, 22.9.2008 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband