Nóg að gera við að gera ekki neitt

 Nú er ég farin að blogga um dýr mér og vonandi  lesendum dv.is til ánægju. Fyrsta færsla birtist hér . Eins og dyggir lesendur þessa bloggs vita, þá hef ég verið frá vinnu um skeið. Nú sér brátt fyrir endann á því loksins er heilsan að batna.

Hvað ég hyggst taka mér fyrir hendur er ekki ljóst en ekki ólíklegt að það tengist skriftum á einhvern hátt. Er með í skoðun að minnsta kosti tvö tilboð sem ég hef fengið en ég hef reyndar ekki neitt leitað fyrir mér um vinnu. Ekki ólíklegt að eitthvað komi út úr því.

En eins víst og tvisvar tveir eru fjórir þá verð ég að vinna utan heimilis að einhverju leyti því ég þoli illa einveru við vinnu. Eins og margir sem reynt hafa að vinna heima þá á ég til að fresta öllu sem ég get til morguns og spenna mig síðan upp á síðustu stundu fyrir skil. Það kemur alltaf niður á gæðunum auk þess sem það er mér nauðsynlegt að vera innan um fólk og hafa á mér ákveðinn aga til að þrífast sem best. En víst er að flesta daga hef ég haft nóg að gera við að gera ekki neitt.

Ég hef líka velt því fyrir mér að söðla alveg um og fara að gera eitthvað allt annað og óskylt blaðamennsku. En hvað þá? Hef ekki dottið niður á neitt í huganum sem mig langar að gera. Hef verið í upplýsinga-og kynningamálum og leiddist það. Kannski vegna þess að ég hafði ekki nóg að gera enda hef ég aldrei skrifað eins mikinn tölvupóst til vina og kunningja eins þau tvö ár.

Dætur mínar tvær voru í Bandaríkjunum annað árið og ég prentaði allt út og setti í möppu. Stór A- 4 mappa sem gaman er að glugga í núna og rifja upp hvað fjölskyldan hafði fyrir stafni þá dagana.

Annars hefur þessi tími sem ég hef verið frá vinnu ekki verið alslæmur... og þó. Ég fæ hroll niður eftir baki í þessum skrifuðu orðum þegar ég hugsa til verstu tímabilanna. Hefur kennt mér hve mikilvægt er að búa við góða heilsu en það er sannarlega ekki sjálfgefið eins og maður heldur þegar allt er í lagi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Edda Jóhannsdóttir

Gott að heyra að þú ert á uppleið, elsku vinkona. Þú náttúrlega ert bara ein af þeim sem getur allt sem þú ætlar þér. Þarf einmitt að heyra í þér í síma fljótlega, hringdu þegar þú mátt vera að í 8247504. Baráttukveðjur frá Eddu.

Edda Jóhannsdóttir, 7.10.2007 kl. 19:59

2 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Takk mín kæra Edda; hef einmitt verið hugsað til þin óvenju oft síðustu daga og ætlað mér að slá á þráðinn. Ég er bara svo önnum kafin að ég hef ekki fundið smugu. Ótrúlegt en svona er mikið að gera hjá mér við að gera ekki neitt.

Heyrumst á morgun eftir hádegi ef þú ert laus þá. Ég er að fara í stúss í fyrramálið en verð komin klukkan 2-3 heim.

Forvitna blaðakonan, 8.10.2007 kl. 01:32

3 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Óska þér góðs bata og góðs gengis í atvinnuleitinni.

Steingerður Steinarsdóttir, 8.10.2007 kl. 10:33

4 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Til hamingju með bætta heilsu og dýrablogg. Það er gaman að geta lesið skrifin þín aftur og vonandi verður þetta að einhverju meira og betra. The only way is up!

Svala Jónsdóttir, 9.10.2007 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband