Maður getur ekki einu sinni dáið - bankinn á mann með húð og hári!

Fyrir tíu árum tók einn ættingja minna þriggja milljón króna lán í Landsbanka Íslands. Á þessum tíu árum er hann búinn að greiða um það bil fjórar milljónir til baka. Lánið stendur hins vegar í: 3.524.994.- en fimmtán ár eru enn eftir af greiðslutímanum.

Afborgun af nafnverði er tæpar sjö þúsund krónur á mánuði en mánaðarlega greiðir hann um 33.000 og hefur gert undanfarin tíu ár enda um lán með annuitets afborgun að ræða. Yfir 25. þúsund er því beinn kostnaður sem bankinn hirðir. Dæmið lítur svona út:

Afborgun af nafnverði kr.             6.956.-

Afborgun verðbóta                      3.595.- 

Vextir                                         13.615.-      

Verðbætur V/ vaxta                      7.748.-

Tilkynninga - og greiðslugjald          595.-

Samtals:                                    32.873.- 

 

Upphafleg fjárhæð                2.900.000-

Uppreiknuð                           4.550.329.-

Eftirstöðvar nafnv.                2.253.493.-

Áfallnar                                 1.278.457.-

____________________________________ 

Eftirstöðvar                         3.524.994.- 

 

Vextir á þessu láni þóttu mjög hagstæðir eða 7,25%: þrátt fyrir tiltölulega lága vexti miðað við það sem hér gerist, þá á greiðandinn eftir að greiða yfir fimm milljónir af láninu en það kostar sem sagt tæpar níu milljónir að fá að láni 2.900.000.

Dóttursonur okkar hjóna verður átta ára í sumar. Þegar hann fæddist opnuðum við bankareikning á hans nafni og þangað inn hefur lungað af þeim peningum sem honum hafa áskotnast þessi átta ár farið. Yfirlit frá bankanum kemur árlega og þar má sjá hvað bankinn greiðir drengnum fyrir lánið. Og það eru ekki háar fjárhæðir. Er að furða þó bankarnir græði!

Ég veit vel að það verður að vera vaxtamunur á milli inn og útlána; ég veit líka að segja má að fyrir þessar 2.9 milljónir hefði verið hægt að kaupa eitthvað sem kannski hefði margfaldast í verði. Það er ekki spurningin heldur sannar dæmin hér að ofan að bankarnir okra óhugnanlega á landsmönnum: og við látum það viðgangast að vera tekin ósmur.... í rass... af bönkunum án þess að æmta né skræmta.

Þeir halda manni í helgreipum sínum og þeir sem hugsanlega vildu að hreyfa sig á milli landa standa pikkfastir. Bankinn á bílana á heimilinu, húsnæðið og í sumum tilfellum ( þökk sé kreditkortunum ) innanstokksmuni, klæðnað og mat sem menn láta ofan í sig.  

Hvernig eiga menn að komast burtu frá gengistengdum lánum. Bilverðið er langt undir því sem hvílir á flestum nýrri bílum landsmanna. Því eru þeir sem hafa látið bankana hafa sig að fífli og keypt í kapp við mann og annan á eyðslufylleríi undangengina ára í átthugafjötrum og geta ekkert gert nema haldið áfram að vinna og borga.

Í fyllist svo miklum óhug við þær staðreyndir sem blasa við manni þessa dagana. Maður getur ekki einu sinni dáið frá þessu öllu því það bitnar aðeins á þeim sem næst manni standa. Bankinn gefur engum neitt; hann nær í sitt í gegnum Intrum og kröfuvaktina sem eltir menn heimsálfa á milli.

En lærdómurinn sem menn geta dregið af eyðslufyllerí undangengina ára, er vonandi þess eðlis að fólk sjái að það er hægt að lifa án hlutana sem nú eru að kaffæra hvern mann á eigin heimilum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er bara blóðugra en tárum taki. Svo er annað, að ef fólk lendir í greiðsluerfiðleikum með tvo mánuði er lánið sett til lögfræðings og það er engin miskunn þar.

Lísa Margrét Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 18:20

2 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Þetta er ótrúlegt. Maður fyllist svo mikilli örvæntingu við að sjá svona.

Steingerður Steinarsdóttir, 27.3.2008 kl. 14:30

3 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Mér finnst ástandið ömurlegt. Bílinn minn hefur hækkað um rúmar 500 þús. Ekki séns að selja hann. Verð að sætta mig við bílinn næstu 5-8 árin nema gengi krónunnar hækki sem næst því sem hún var hæst.

Það er borin von. Hve illa sem mér líkar við þessa Toyotu sem ég raunar hef ekki miklar mætur á, þá á ég engan annan kost en borga áfram. Þegar ég keypti bílinn var mánaðarleg afborgun liðlega 30 þúsund. Ekkert mál en síðan hefur sigið á ógæfuhliðina og aprílgreiðslan er um 39. þús.

En það sem verra er, þá hvílir á bílnum langtum hærra lán en ég greiddi fyrir hann nýjan úr kassanum fyrir rúmu hálfu ári. Fyrir utan afföll af nýjum bílum og svo nú gengislækkun myndi ég sitja upp í með nokkur hundruð þúsund í mínus.

Og svo er tómt vesen að eiga hús með öllum þeim kostnaði sem fylgir að halda við og greiða skatta og gjöld auk trygginga af einu einbýlishúsi.

Þegar ég verð stór ( efast samt um að ég verði það nokkru sinni, heldur dauð og grafin löngu áður) hundarnir mínir farnir frá mér af náttúrulegum og lífhræðilegum sökum þá ætla ég að flytja í Búsetaíbúð eða Búmanna eða bara leiguíbúð sem ég má alltaf vera í. Borga eina upphæð á mánuði sem er langtum lægri og hafa engar áhyggjur af þakskeggi, hellunum fyrir utan, girðingunni, garðinum eða hvort málið er þetta sumarið eða hitt. Um allt viðhald og aðra umsýslu sjá þessi félög og maður þarf ekki að koma nærri því.

Og ég ætla að búa í Norðurmýri eða sem næst miðbænum en helst ekki alveg í kjarna 101. Þá veit maður með löngum fyrirvara hvað maður á að borga; gerir það og þegir.

Forvitna blaðakonan, 28.3.2008 kl. 09:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband