Kraftbirtingarhljómur guðdómsins - Hannes Hólmsteinn og skáldið frá Þröm

 

Það er ekki oft sem skoðanir okkar Hannesar Hólmsteins fara saman en breytir ekki því að ég ber virðingu fyrir hans skoðunum sem í engu þurfa að vera eitthvað rangari eða verri en mínar. Hef meira að segja oft mjög gaman af honum og geri mér fullljóst að ef manna eins og Hannesar Hólmsteins nyti ekki við væri lífið og tilveran grá.

Því get ég ekki annað en lýst yfir stuðningi við hann og hans sjónarmið við skrif á bók hans um Halldór Laxnes. Skáldið hef ég dýrkað allar götur frá því ég las fyrst Sölku Völku fyrir fermingu. Komst að því  smátt og smátt þegar ég las bækurnar hverja á eftir annarri að ég hafði í mínu tungutaki margar af skemmtilegustu orðuræðum persóna hans.

Þær komu frá föður mínum sem kunni Laxness bókstaflega utanbókar og fór með langar orðræður persóna úr bókum hans eins og væru hans eigin. Hann hefur af þeim sökum verið ritþjófur mikill því úr hans munni námum við systkinin og vissum ekki annað en um ósköp venjulega íslensku væri að ræða.

Mín uppáhalds bók hefur alltaf verið Heimsljós og ég held að ég hafi aldrei hrifist eins mikið af neinni bók eins og henni. Lengi vel hreyfði ég mig ekki út fyrir höfuðborgina nema hafa Ljósvíkinginn með í för til að glugga í hana fyrir háttinn. Bókin var af þeim sökum orðin nokkuð þvæld upplesin. Ragnheiður systir mín gaf mér því nýja útgáfu áritaða af skáldinu sjálfu sem þá var orðin fjörgamall og ég held helst að hann hafi ritað ekki löngu fyrir andlátið. Það var Duna sem gerði systur minni þann greiða.

Bókina þykir mér mjög vænt um; ekki endilega vegna áritunarinnar heldur vegna væntumþykju  sem ég þykist skynja að baki gjafarinnar.

Þegar Háskólaútgáfan gaf út fyrir nokkrum árum bók byggða á dagbókum skáldsins frá Þröm í samanburði við Heimsljós Laxness var ég snögg að ná mér í hana og lesa upp til agna.

Í bókinni sem höfundurinn, Sigurður Gylfi  Magnússon gefur titilinn: Kraftbirtingarhljómur guðdómsins er birt sýnishorn úr persónulegum gögnum Magnúsar Magnússonar - dagbók hans, sjálfsævisögu og bréfum. Magnús var eins og menn vita fyrirmynd Ólafs Kárasonar Ljósvíkings. Mest kom mér á óvart að Kraftbirtingarhljómur gudómsins; þau mögnuðu orð sem lýsa hugarástandi Ljósvíksins eru ekki frá Halldóri Laxness komin, heldur hefur Magnús þau sjálfur um upplifun sína og er að finna í dagbók hans. 

Í gegnum árin hafði ég ýmislegt heyrt um vinnubrögð skáldsins og þeir sem ekki höfðu á honum miklar mætur spöruðu ekki lýsingarorðin þegar þeir með fyrirlitningu sögðu að hann væri ekki neitt skáld. Bækur hans byggðust aðeins á óljósum og ljósum heimildum sem aðrir ættu. Hann hefði ferðast hafði um landið og fengið dagbækur og ýmis gögn frá fólki um horfna ættingja þeirra eða vini. Og því væru sögur hans ekki hans eigin hugarfóstur.

Hvað sem því líður þá er það skáldið sem fært hefur í stíl og það er það sem skiptir máli.

Ég varð því meira hissa en að ég yrði fyrir vonbrigðum við lestur Kraftbirtingahljóm guðdómsins. Því svo var að sjá og raunar sýnt fram á með rökum og samanburði á efni beggja, Halldórs og Magnúsar að Laxnes hafi nýtti sér heimildir ótæpilega við samningu Heimsljóss.

Heilu síðurnar eða jafnvel kaflarnir úr dagbókum Magnúsar Hjaltasonar rata inn á síður Heimsljóss. Lesendur geta á engan hátt áttað sig á öðru en um sé ræða stílbrögð skáldsins. Engin merki eru um að efnið sé úr annars manns penna.

Fyrir mig var þessi lesning mjög fróðleg og ég hafði mikla ánægju af að kynnast frumheimildunum að Heimljósi.

En ég áttaði mig einnig á að Magnús sjálfur var einstakur maður sem hefði getað náð langt ef hann hefði ekki fæðst á kolröngum tíma. Líf hans var ömurlegt svo ekki sé fastar að orði kveðið og hann átti alla tíð á brattann að sækja. Hann bæði fæddist snauður af heimsins veraldlegu gæðum og hvarf á vit almættisins.

Ég hefði gjarnan viljað að Magnús hefði af því spurnir hve mikið hann raunverulega lagði að mörkum fyrir komandi kynslóðir með ritun dagbóka sinna. Vona sannarlega að hann hafi fylgst með þeirri ánægju sem bara ég:aðeins ég ef haft af lestri Heimsljóss sem hann á svo ótrúlega mikið í sjálfur.

Magnús Hjaltason Magnússon hefur síðan verið mér mikið umhugsunarefni. Hann ólst upp og lifði í sama umhverfi og ég fæddist í vestur á fjörðum en frásögn hans gefur  ótrúlega innsýn í hugsunarhátt og líf fólks í kringum aldamótin síðustu. Sem raunar er minn uppáhaldstími í sögunni en mig þyrstir óstjórnlega að vita sem mest um hugsunarhátt og líf fólks á því tímaskeiði. Hvers vegna hef ég ekki hugmynd um.

Þegar fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel og ég skrýðist hlýjustu afurðum dýra jarðar, þá er mér oftar en ekki hugsað til Magnúsar sem illa klæddur og háfsklólaus, gekk yfir heiðar og fjöll til að freista þess að ná í matarbita fyrir svanga munna heimafyrir.

Halldór Laxness er mitt uppáhaldsskáld eftir sem áður og aðdáun mín á honum  er söm. En eigi að síður er ekki hægt a varast að spyrja sig þeirra spurninga að hvaða niðurstöðu Hæstiréttur Íslands hefði komist ef eftirlifandi afkomendur Magnúsar hefðu stefnd Laxness fyrir ritstuld þegar Heimsljós kom út.

Eftir því sem ég veit best átti Magnús aðeins einn afkomanda, dóttur sem ég kynntist síðar. Hún nú látin en hét Ásdís og á afkomendur en hún var orðin fullorðin þegar fundum okkar bar fyrst saman. Hvort þeir gætu eitthvað gert nú veit ég ekki en Landsbókasafn Íslands eignaðist eftir daga Magnúsar það sem hann hafði ritað og er það varðveitt þar.

Ekki veit ég fyrir fullvíst hvernig reglum á fyrri hluta síðustu aldar var háttað um aðgang að efni Landsbókasafns. Hvort að hver sem er hafi haft óheftan aðgang að gögnum sem þar eru varðveitt en svo mikið veit ég að enginn gengur þaðan út með frumgögn og þegar Halldór Laxness ritaði Heimsljós voru engar ljósritunarvélar til. Hann hefði ekki getað skrifað bókina án dagbóka Magnúsar.

Enn Laxnes lagði ávalt mikla vinnu í sín verk og því líklega setið löngum stundum á safninu við endurritun efnis.

Dómur Hæstaréttar nú yfir Hannesi Hólmsteini er gjörsamlega út í hött; í það minnsta viðurlögin við meintum ritstuldi og stingur gjörsamlega í stúf við vinnubrögð skáldsins sjálfs. Spurning hvort pólitískar skoðanir afkomenda Laxness hafi eitthvað með það gera að út í málaferli var farið.

Í mínum huga er náðargáfa eins og skáldskapur langt yfir stjórnmál hafin. Því miður virðast menn láta stjórnast af pólitískum skoðunum fremur en að almennri skynsemi og dýrkun við Mammon. Vona að listrænir afkomendur Laxness lofi okkur í versta falli að njóta þess sem aurarnir hans Hannesar gefa þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Skemmtileg færsla, systir góð. Ég þarf að fá þessa bók að láni hjá þér og kynna mér málin. Ég er ekki eins mikill aðdáandi Ljósvíkingsins og þú og er svona meira Íslandsklukku-aðdáandi og þá einkanlega ´síðari bókanna, "Hið ljósa man" og "Eldur í Köbenhavn" sem mér þykja hreint listaverk og fæ aldrei nóg af.

Lít kannski austur á morgun, ef ég verð í akstursstuði eftir lífsreynsluna af því aka á Patreksfjörð og til baka í vikunni. Ég finn til með Vestfirðingum og þeirri óhæfu sem þeim er boðið uppá í vegamálum.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 29.3.2008 kl. 17:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband