Vald er vandmeðfarið - líf, dauði og táraflóð.

Birta Gná og SmáriSnæ Birta:

fædd 3 mars 1999 -  dáin 4. júní 2008

Síðan mín www.sifjar.is er í lamasessi hjá þeim sem vista hana og ég kemst ekki til að uppfæra hana því eitthvað gengur þeim illa að laga það sem þarf til. Þess í stað skrifa ég um hundana mína hér en það er meira en lítið að frétta.

Hún Birta mín er öll; hún kvaddi okkur í hjónarúminu með steinbítsstrengseli í kjafti. Ég segi það dagsatt að erfiðara daga hef ég ekki lifað frá því ljóst var að hún var verulega þjáð af slitgikt sem herjaði á hana víða og hafði meðal annars skekkt á henni bakið.

Þessi mynd var tekin síðasta daginn sem hún lifði. Gná yfirgaf hana ekki og Smári dóttursonur minn notaði hvert tækifæri til að kjassa hana og kveðja.

 

Hún var hætt að ganga að ráði en lá mikið á planinu fyrir framan hús á daginn; sú eina sem fékk að fara út að framan enda var hún Drottningin með stórum staf.

Fyrir tveimur þremur mánuðum fór sú gamla í langt ferðalag með einn þegna sinna; sum sé ein tíkina. það var hennar uppáhalds stríðni að stökkva upp um leið og einhver slapp óvænt út um framdyr að taka þær með sér í leiðangra og gera mig vitstola úr hræðslu.

Þá tók Drottingin mín sprettinn og stjórnaði og það var eins og jörðin hefði gleypt þær á augabragði; ég fann þær sjaldnast fyrr en þær hunskuðust heim aftur eins og hundar af sundi dregnir skítugar upp fyrir haus og að niðurlotum komnar af þreytu.

Síðasta mánuðinn áður en ég fór með hana til læknisins í rannsókn fannst mér hún ansi dauf og það leyndi sér ekki að hún kenndi til einhverstaðar í skrokknum. Ég vissi að hún væri með gigt og ekki óeðlilegt en taldi það ekki alvarlegt. Hún kjagaði stundum þessi elska og fór ekki hratt en hún var nú orðin níu ára og dulítið þung á sér að auki.

Eitt kvöldið kallaði ég á hópinn og bauð í okkar daglegu gönguferð; þær vita nákvæmlega hvenær ég er til og fylgjast grannt með mér. Þær komu því fjórar og hoppuðu og skoppuðu úr gleði. Ég kallaði til Birtu minnar en hún var ekki við að hreyfa sig, eins mikið og hún elskar útiveru.

Kallaði á Magnús og sagðist halda að eitthvað væri að. Hann stökk upp úr stólnum og fram í eldhús þar sem hún var að burðast við að setjast upp en féll alltaf aftur niður. Þá gerði ég mér ljóst að eitthvað meira væri að en elligigt. En hörkutólið mitt hætti ekki fyrr en hún komst á fjórar fætur og gat haltrað með mér út.

Eftir gönguna var hún skárri og hélst næstu daga en eftir að hafa fylgst vel með henni sá ég að ekki væri um annað að ræða en fara með hana til læknis og láta skoða hana. Rannsókn sýndi að hún var illa haldin af slitgigt sem var hreinlega bein i bein og því afar þjáð.

Ég var ógurlega áhyggjufull þann dag og innst inni vissi ég hver dómurinn yrði. Hanna dýralæknir útsýrði síðan fyrir mér hver staðan væri og það væri ekki mannúðlegt að láta hana lifa svona en mín væri ákvörðunin. Birta mín var mér meira virði en svo að ég gæti lifað við hún væri meira eða minna illa kvalin.

Á meðan ég var að taka ákvörðun um hvenær, hvar og hver aðstoðaði hana við að hverfa úr þessum ljóta heimi þá var grátið út í eitt á heimilinu. Ég mátti ekki horfa í brúnu tryggu augun hennar þar sem hún dillaði skottinu til mín öðruvísi en bresta í hágrát.

Það leið vika frá úrskurði og þar til hún var öll. Ég fór með hana í göngu nokkru sinnum á dag og tveimur dögum eftir mátti ég bera hana heim úr göngu. Síðasta daginn var þessi elska hins vegar eldspræk og gekk með okkur öllum og fór inn  í hvern einasta garð til að þefa; hún var kveðja. Gná mín sem er dóttir hennar vék ekki frá móður sinni og gekk á sama hraða og beið í hvert sinn sem hún fór inn í garð. Hreyfði sig ekki fyrr en hún hafði skilað sér. Þann dag hamaðist Gná líka á útidyrunum og vildi út á plan til hennar. Nokkuð sem henni hefur aldrei dottið í hug að biðja um því hún veit að það er bannað að fara út um framdyrnar.

Ég hleypti henni út og í stað þess að mamman tæki dótturina með í leiðangur eins og hún var vön ef hún slapp óvart út, lá hún róleg við hlið hennar allan daginn og hreyfði sig ekki fremur en Birta mín.

Steinunn dýralæknir var væntanleg eftir kvöldmat og ég ætla ekki að reyna að lýsa líðan minni á meðan ég beið komu hennar. Birta mín lá á eldhúsgólfinu eins og hún er vön og dillaði rófunni sinni og það birti yfir brúnu augunum hennar þegar ég  talaði til hennar. Og ég grét bara enn meira eftir því sem rófan hennar hreyfðist hraðar.

Það þarf ekki að nefna það að Steinunn, blessunin vann sitt verk sð mikilli alúð. Við fórum með Birtu mína inn í hjónarúm það er hennar bæli og ég og Ragnheiður dóttir mín strukum hhana alla og nudduðum á meðan hún kjammsaði á sínu uppáhaldi.  Tárin flutu og þessi elska gaf sér tíma til að sleikja þau á milli þess sem hún reif í sig steinbítinn. Ég strauk henni, klappaðo og klóraði undir óstinni þangað til hún lognaðist útaf og talaði blíðlega til hennar. Fór síðan fram og það var grátur og gnístran tanna frammi. Öll grétum við í kór og á meðan ég skrifa þessi orð get ég ekki hamið tárin.

Nú hvílir hún hér nærri mér og það líður tæpast sú klukkustund sem ég ekki hugsa til hennar. Þegar ég gef hinum að borða set ég líka í hennar dall án þess að ætla það; vaninn er svo ríkur í mér. Stundum finnst mér ég sjá henni bregða fyrir en þegar betur er að gáð er það einhver hinna.

En það er ekki of sterkt til orða tekið að segja að það vanti mikið í húsið þegar Drottningarinnar minnar nýtur ekki lengur við. svið söknum hennar enn alveg ofsalega mikið.

Í gær keypti ég fallegt tré á leiðið hennar og gróðursetti í hávaðaroki. Það skipti engu. Birta átti mikið inn i hjá mér; hún gaf okkur ótrúlega mikið. Mig dreymdi í mörg ár að eignast tík af hennar tegund; þegar tíminn kom var ég svo lánsöm að fá hana hjá Jóni Ásbjörnssyni og Ernu Hrólfsdóttur sem áttu tíkina Ljúflings Freknu. Birta mín var mjög lík mömmu sinni og ömmu og Lukka systir hennar er með mjög svipaðan karakter; sumsé þær eru fáum líkar; hafa svo mikinn og stóran karakter; sjálfstæðar og klárar.

Frekna blessuð er farinn fyrir nokkrum árum en Lukka lifir í vellystingum hjá Hrefnu Hrólfsdóttur systur Ernu. Skemmtileg tilviljun en þær systur hafa verið paraðar tvisvar og voru í bæði skiptin með sjö hvolpa og gott ef ekki að kynjaskiptingin hafi verið sú sama. 

Um Birtu mína má lesa meira inn á www.sifjar.is 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Samhryggist innilega vegna fráfalls Birtu.

Megi minningin um hana lifa í ljósinu.

Kær kveðja, Steingerður og fjölsk.

P.s. Sér hvuttaknús frá Sifjar-Medúsu Eir.

Steingerður (IP-tala skráð) 3.7.2008 kl. 20:56

2 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Þakka þér fyrir Steingerður mín; það er plástur á sárin að fá kveðjur frá þeim sem skilja en það eru því miður alltof margir sem geta með engum móti skilið hvernig hægt er að syrgja einn "hundræfil". Svei þeim, þeir eiga kannski einhvern tíma eftir að kenna til.

Og til viðbótar; hafðu hjartans þakkir fyrir áhuga þinn og vilja til að fylgjast með. Það er ómetanlegt fyrir ræktanda að hvolpar þeirra lendi í góðum höndum þar sem maður þar aldrei að hafa áhyggjur eða eiga andvökunætur. Medúsa mín er ein þeirra heppnu.

Kveðja og kossar til sætu heimasæturnar og verðandi meistara - vonandi. 

Forvitna blaðakonan, 5.7.2008 kl. 02:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband