Afi verð ég þá að heita Olíufjörð?

 

Auðvitað er þetta toppurinn á fjallinu fyrir botni Haukadals í Dýrafirði þar sem ég dró mitt fyrsta andvarp á  sínum tíma; Kaldbakur heitir þetta fagra fjall.null

Enginn sá þó ástæðu til að setja inn athugasemd um það og kannski að sjónarhornið á fjallið hafi ekki verið þekkt af myndum. Fallegastur er Kaldbakurinn þegar horft er til hans úr mynni Haukadals þar sem hann gnæfir fjalla hæst yfir dalinn. Ég veit ekki hvaðan eða hver tók þessa mynd en sýnist að öllu að hún sé tekin frá firðinum handan megin s.s. Arnarfirði. Þar á ég einnig ættir mínar að sækja en áar mínir bjuggu á Álftamýri. Sá hluti Vigurættar var af mínu fólki nefndur Álftamýrarætt. Þegar ég var lítil stúlka minnist ég þess að það gætti nokkurs stolts í rödd þeirra þegar ættarinnar var getið.

Þið sem ekki þekkið Vestfirðina eigið mikið eftir; Landshlutinn er svo ólíkur öðrum að það er eins og að ferðast inn í nýjan heim að skoða svæðið. Við Magnús eigum sumrabústað í Tungudal við Ísafjörð í félagi við systkini hans. Þar ólst hann upp öll sumur en móðir hans flutti inn í "skóg" eins og Ísfirðingar kalla sumarbústaðasvæði sitt, á vorin og dvaldi allt sumarið með börnin á þeim dýrðarinnar stað.

Pabbinn, Magnús minn, með drengina sína, tengdadætur og afkomendur. Myndina tók Ketill eldri sonurinn. Ég var fjarri góðu gamni með litla hvolpa sem þurfti að gæta eins og demanta.

Langa

Við förum jafnan vestur á hverju sumri og oftar en ekki tvisvar til fjórum sinnum þessa fáu mánuði sem auðveldlega er hægt að aka vestur. Magnús er vestra núna með dótturson okkar sem er átta ára en þeir fara oft bara tveir.  Smári heitir piltur og er farinn að þekkja leiðina vel. Um daginn óku þeir Arnarfjörðinn en drengurinn heitir Smári Arnfjörð. Afi hans sýndi honum hvar "vondir" menn vildu setja upp olíuhreinsunarstöð og átta ára guttinn spurði afa sinn hvort hann yrði þá að heita Olíufjörð. Afi kvað nei við en drengur var með á nótunum og sagði: "Afi hún amma keypti mótmælaspjald á Spáni ( það gerði ég vissulega ekki en fann vel smíðað spjald í gönguferð með hundana fyrr í sumar og tók það með mér heim.), við skrifum bara á það og förum svo öll aftur vestur og mótmælum þegar kallarnir ætla að byrja," benti hann afa sínum á.

Já, snemma beygist krókurinn, segi ég nú bara og fannst afar vænt um að barnabarnið sem við höfum að miklu leyti alið upp skuli vera svona þenkjandi. Þarf ekki að spyrja hvaðan innrætingin kemur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég ferðaðist um Vestfirðina í sumar en það var í fyrsta skipti sem mér hefur gefist tækifæri til að fara þar um. Ég var alveg heilluð.

Steingerður Steinarsdóttir, 6.8.2008 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband