3.10.2007 | 10:06
Nóg að gera við að gera ekki neitt
Nú er ég farin að blogga um dýr mér og vonandi lesendum dv.is til ánægju. Fyrsta færsla birtist hér . Eins og dyggir lesendur þessa bloggs vita, þá hef ég verið frá vinnu um skeið. Nú sér brátt fyrir endann á því loksins er heilsan að batna.
Hvað ég hyggst taka mér fyrir hendur er ekki ljóst en ekki ólíklegt að það tengist skriftum á einhvern hátt. Er með í skoðun að minnsta kosti tvö tilboð sem ég hef fengið en ég hef reyndar ekki neitt leitað fyrir mér um vinnu. Ekki ólíklegt að eitthvað komi út úr því.
En eins víst og tvisvar tveir eru fjórir þá verð ég að vinna utan heimilis að einhverju leyti því ég þoli illa einveru við vinnu. Eins og margir sem reynt hafa að vinna heima þá á ég til að fresta öllu sem ég get til morguns og spenna mig síðan upp á síðustu stundu fyrir skil. Það kemur alltaf niður á gæðunum auk þess sem það er mér nauðsynlegt að vera innan um fólk og hafa á mér ákveðinn aga til að þrífast sem best. En víst er að flesta daga hef ég haft nóg að gera við að gera ekki neitt.
Ég hef líka velt því fyrir mér að söðla alveg um og fara að gera eitthvað allt annað og óskylt blaðamennsku. En hvað þá? Hef ekki dottið niður á neitt í huganum sem mig langar að gera. Hef verið í upplýsinga-og kynningamálum og leiddist það. Kannski vegna þess að ég hafði ekki nóg að gera enda hef ég aldrei skrifað eins mikinn tölvupóst til vina og kunningja eins þau tvö ár.
Dætur mínar tvær voru í Bandaríkjunum annað árið og ég prentaði allt út og setti í möppu. Stór A- 4 mappa sem gaman er að glugga í núna og rifja upp hvað fjölskyldan hafði fyrir stafni þá dagana.
Annars hefur þessi tími sem ég hef verið frá vinnu ekki verið alslæmur... og þó. Ég fæ hroll niður eftir baki í þessum skrifuðu orðum þegar ég hugsa til verstu tímabilanna. Hefur kennt mér hve mikilvægt er að búa við góða heilsu en það er sannarlega ekki sjálfgefið eins og maður heldur þegar allt er í lagi.
30.9.2007 | 01:11
Inngrip eigenda í umfjöllun fjölmiðla þeirra og ófríði ritstjórinn á DV
Fyrir tveimur vikum eða svo skrifaði ég pistil um afskipti Hreins Loftssonar stjórnarformanns Birtings af efni og efnistökum ritstjórna blaðanna sem Birtingur gefur út.
Pistilinn var hálfskrifaður og átti ekki að birtast fyrr en fullunninn. Ég þurfti að standa upp frá skriftum og vistaði það sem komið var á blað en studdi ranglega á "vista og birta ", en ætlaði vitaskuld að aðeins að festa þau skrif sem þegar voru komin á skjáinn.
Líklega hef ég komið innan við klukkustund síðar að tölvunni og áttaði mig þá á vitleysunni og snarlega tók ég færsluna út. Þessa stuttu stund náði Jónína Ben í skrif mín enda nær nef hennar lengra en flestra annarra þegar Bónusfeðga ber á góma. Þeir eru eins og flestir vita hennar stóra og mikla áhugamál.
Mér þótti leitt að hálfunnin skrif mín væru á flakki, því það sem Jónína náði að afrita var eins og fyrr sagði aðeins uppkast. Ætlun mín varð að laga til þennan pistil og setja hann inn eins og ég vildi hafa hann. En bæði hef ég verið upptekin við annað og ekki mátt vera að því að henda þessu inn auk þess sem ég átti í mestu vanda með að takmarka skrif mín. Mér lá svo mikið á hjarta.
Því hefur það komið mér í opna skjöldu hve margir hafa áhuga á að lesa þessi skrif því ófá tölvubréf hefur mér borist frá hinum og þessum, búsettum hérlendis og erlendis. Óska menn kurteislega eftir að fá að lesa pistilinn í heild sinni og spyrja hvað hafi orðið um hann.
Ég sé því ekki annað en ég verði að hyskja mér í að ljúka skrifum mínum, stytta og snyrta og setja þennan pistil síðan inn. Ætla að reyna að gera það á morgun.
Það var hins vegar skrýtið að fylgjast með því hvernig Jónína tók á málum. Þóttist ekki vita að bloggarinn ég væri fyrrverandi blaðamaður á DV sem hefði gert henni "skráveifu" (hennar orð, ekki mín) með skrifum um hana á sínum tíma þegar tölvupóstamálið kom upp.
Þar með opinberar hún að varasamt sé að taka mark á því sem hún skrifar því það er alls ekki sannleikanum samkvæmt að hún hafi ekki vitað um tengsl blaðamannsins og bloggarans. Hún vissi fullvel um þau, nema skammtímaminnið sé eitthvað að bresta hjá henni blessaðri.
Fram hjá mér hefur ekki farið reiði hennar í minn garð síðan ég skrifaði nærmyndina af henni; líklega þá bestu sem ég hef skrifað og þær voru ófáar greinarnar sem ég skrifaði um fólk meðan ég var á DV.
Auk þess er það barnalegt af Jónínu að vera að ergja sig út í blaðamenn fjölmiðla sem eru aðeins að vinna það sem fyrir þá er lagt, afla upplýsinga um það sem fólk vill lesa og segja fréttir af tilteknum málum. Hún á að vita að það liggur ekki neitt persónulegt þar að baki enda fyrr mætti nú vera vinnubrögð mín og annarra stéttarfélaga ef við leyfðum okkur að fjalla aðeins um þá sem okkur hugnaðist.
Þess utan hefur hún allgjörlega misskilið skrif mín því ég var alls ekki að hampa einum eða neinum í pistlinum góða sem ekki átti að birtast. Þvert á móti var ég að lýsa vonbrigðum mínum með að stjórnarformaður og tengiliður við eigendur skildi voga sér að gera athugasemdir við skrif og efnistök ritstjóra S&h, um vinnuveitenda þeirra beggja, Jón Ásgeir.
Lét ég þess getið að Jón Ásgeir kynni honum varla miklar þakkir fyrir þá misskildu hollustu við hann. Enda væru slík vinnubrögð aðeins til þess gerð að sýna fram á að kannski hefðu þeir sem talað hafa mest um afskipti eigenda af ritstjórn fjölmiðla, rétt fyrir sér eftir allt saman.
En varðandi pistilinn sem kom og fór. Allt kemur þetta þegar ég hef tíma til að laga þennan pistil minn og þeir sem hafa skrifað mér tölvupóst og óskað eftir að ég sendi þeim þetta skrifelsi mitt, eru vinsamlega beðnir að sýna þolinmæði.
En af Jónínu Ben er ekki skafið og get ég ekki annað en metið hana fyrir hreinskilnina. Gaman væri að vita hve margir átta sig á um hvorn ritstjórann hún er að tala á bloggsíðu sinni í dag þar sem hún bloggar um ritstjóra DV. Ekki feimin við að segja frá raunum annars þeirra í gufubaði í Vesturbæjarlauginni og kallar hann; "þann ófríðari." Ég þekki báða og hef unnið með báðum skipperunum. Er því ekki í vafa um hvorn þeirra hún á við!
Fjölmiðlar og fólk | Breytt 1.10.2007 kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2007 | 09:55
Hrokafullir og heimskir Íslendingar
Heyrði eða las einhverstaðar í fjölmiðlum að Íslendingar vilji ekki að útlendingar þjóni til borðs þegar þeir bregði sér út að borða!
Hvað gerir þetta blessað fólk þegar það er í útlöndum. Hefur það matinn með sér að heiman og mallar sjálft á hótelherbergjum? Varla og því hreinn og klár rasismi að hugsa á þessa lund. Ekki geri ég ráð fyrir að þeir sem þessi orð láti frá sér vilji vinna á veitingahúsum fyrir þau laun sem þar eru í boði.
Við Íslendingar getum sett okkur á háan hest og gengið út úr verslunum ef við erum ávörpuð á ensku. En sama fólk ferðast um heiminn og lætur það ekki aftra sér við að gera innkaup. Frekjan er svo yfirgengileg að ætlast til að kaupmenn, veitingahús eða hvaða þjónustuaðilar sem það eru, loki bara búllunni því ekki fáumst við sem búum í þessu fína landi til að vinna þessi störf - viljum samt þjónustuna.
Ber aðeins vott um heimsku í upphaflegri merkingu þess orðs að telja sig betri en þá útlendinga sem hingað hafa komið til vinnu og bera upp i hagvöxtinn sem þeir illa upplýstu sjálfir njóta.
Annars held ég að flestir sem svona hugsa sé fólk sem lifað hefur tímana tvenna og sættir sig ekki við breytingarnar. Eldra fólk talar heldur ekki allt ensku og því bregður við; þorir ekki að tala ensku þar sem það óttast að maðurinn við hlið þess verði fákunnáttunnar var. Því finnst hinsvegar allt í lagi að babla á íslenskuskotinni ensku í útlöndum. Þar heyri enginn sem þekki það.
En ver sem ástæðan er finnst mér ótrúlegt að og í raun sorglegt að til sé fólk sem með hroka og hleypidómum setur sig á háan hest og telur sig vera af æðri stofni en útlendingar sem hingað koma og til að vinna vinnuna sem það sjálft kærir sig ekki um að inna af hendi. Það neitar að bregðast við þeim breytingum sem orðið hafa undanfarinn áratug og áttar sig ekki á að Ísland er partur af alþjóðasamfélaginu sem hefur þá fylgifiska að deila þarf landinu með íbúum annarra landa.
Menn viljal bara þiggja en ekkert gefa. Hve mikið sem við vildum þá breytum við ekki þróuninni. Velmegunina og allan lúxusinn sem meirihluti þjóðarinnar eltist við að njóta verðum við að greiða fyrir á einhvern hátt. Við höldum ekki bæði og sleppum. Frekjan reiðir ekki einteyminginn þegar hrokagikkirnir sem telja sig öðrum æðri opna munninn.
6.9.2007 | 00:50
Ekki plagar minnimáttarkenndin og feimnin konurnar þær!
Ég fékk eftirfarandi bréf sent frá góðum vini og til að sýna þann dásamlega kjark sem fastagestir á vefnum barnaland.is búa yfir birti ég þetta hér. Elsku stúlkan sem ritaði bréf á sinni bjögðu ensku var ekki feimin þó ekki kynni hún mikið fyrir sér í tungumálinu. Hún bað vinkonurnar á vefnum um aðstoð og það plagaði hana ekki að opinbera kunnáttuleysi sitt fyrir hinum Þær eru sannarlega ekki haldnar minnimáttarkennd eða ótta við álit annarra dömurnar sem þar skiptast á skoðunum.
En hér á eftir fer bréf stúlkunnar sem hún ritaði á bjagaðri ensku og síðan þýðing yfir á íslensku á bréfi hennar eins og hún ritaði það:
16. ágúst 2007 klukkan 02:36
Ein barnalandskelling sem kann ekki mikið í ensku og ætlar að senda Fischer
Price framleiðendum bréf varðandi gölluð leikföng...:
okei takk æðislega
ég er geggjað slöpp í ensku sérstaklega að skrifa hana getiði sagt mér án
þess að drulla yfir mig hvort að það sé hægt að skilja eitthvað af þessu
bréfi hehe
Hello
i am from Iceland and I don not speak very good English but I am gun a tray
:)
I by a toy in Iceland from fisher price ,,little people,, and dora explorer
and this toy are maid in China 2002-2007.
One Dora explorer vas bay in Spain and made 2002 (the small one) and the
big one I think in Iceland but I am not sure made 2003.
Are something wrong this toy or?????
What can I do??
Can I talk to some body in Iceland so I can anther stand this better????
I hope you can anther stand what I am writing :)
And thank you
Respectfully,
xxxx
geri henni ekki að birta nafn hennar
En það þýddi ein/n þetta fyrir hana yfir á íslensku eins og að Fischer
Price fólkið myndi skilja þetta... Og hefði ekki verið dásamlegt að vera fluga á vegg þegar bréf hennar hefði verið lesið af því mæta fólki?
Halló,
Ég er frá Íslandi og ég er mafíuforingi sem talar ekki mjög góða ensku, en
ég er byssa á bakka.
Ég er hjá leikfangi á Íslandi frá Fisher Price, litla fólk og Dóra
landkönnuður og þetta leikfang er þjónustustúlka í Kína á árunum 2002-2007.
Ein Dóra landkönnuður var strönd á Spáni og náði 2002 (sú litla) og um þá
stóru hugsa ég á Íslandi en er ekki viss um að hafi náð 2003.
Eru eitthvað að þessu leikfangi eða?????
Get ég talað við eitthvað lík á Íslandi svo ég geti anther staðið þetta
betur?????
Ég vona að þú getir anther staðið það sem ég skrifa :)
Virðingarfyllst
xxxxxxxx
Fullyrt er að greina hafi mátt tengsl á milli hláturskastsins sem reið yfir barnaland um
nóttina og jarðskjálftans í Perú!!!
Þeir sem vilja skoða þetta nánar geta skoðað allan þráðinn hér að neðan.
http://www.barnaland.is/messageboard/messageboard.aspx\?advid=7193759&advtype=52&page=1
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2007 | 14:24
Eyjólfur að hressast á DV með tilkomu Reynis
Las DV í fyrsta sinn eftir að Reynir kom að blaðinu og finnst að Eyjólfur sé að hressast. Mun skemmtilegra blað en áður. Þakka það Reyni en hvað sem hver segir um hann eða hvaða skoðun menn hafa á honum, þá er svo mikið víst að hann er á réttum stað á blaði eins og DV.
Forsíðufréttin um að Úlfar Nathanelsson sé kominn á stjá á ný botnaði ég hvorki upp né niður í. Hún hefur augljóslega verið sett saman í miklum flýti og ég sem man eftir Úlfari þegar hann var upp á sitt besta fyrir 20-25 árum átti í mestu erfiðleikum með að átta mig á fréttinni. Hvað þá yngra fólk sem ekkert veit hvað Þjóðlíf var eða man eftir tilvist Úlfars sem titlaður var lögmaður í fréttinni, sem hann alls ekki er.
Hvar var Brynjólfur fréttastjóri sem jafnan les vel yfir fréttir blaðamanna og setur mark sitt á þær: Stundum til góðs en kannski oftar aðeins breytinganna vegna. ( Binni minn ég meina ekki neitt illt með þessu ). En ég ætti líklega síst að gagnrýna þar sem ég veit hve tímapressan er mikil á blaði eins og DV og blaðamenn vilja gjarnan vinna fréttir sínar betur en hafa ekki tíma eða svigrúm til þess.
Það er augljóst að Trausti Hafsteinsson sem mér hefur sýnst vera prýðilegur blaðamaður þekkir lítið til þess sem hann er að fjalla um, enda ungur maður. Sýnir sig hve nauðynlegt er að hafa á hverri ritstjórn eldri blaðamenn sem muna og þekkja þjóðfélagsumræðuna langt aftur í tímann.
En fingraför Reynis eru augljós og ég vona að hann haldi áfram á sömu braut og að efnistökin verði ekki með þeim alvarlega tóni sem sme er svo hrifinn af nú, en þannig þekkti ég hann ekki á þeim tíma sem við unnum saman. Og ekki síst að blaðið leggi áherslu á að segja fréttir og skemmtilega mola af fólki, frægum jafnt sem venjulegum almúgamönnum. Kannski að ég og fleiri fari að lesa blaðið aftur. Það má svo sannarlega við því að lesturinn aukist.
30.8.2007 | 12:55
Umferðaröngþveiti í Hveragerði nokkrum mínútum fyrir átta - kannski börnin eigi erfitt með gang eða slæma foreldra sem misskilja gæði uppeldisins.
Nokkrum mínútum fyrir klukkan átta á morgnanna stíga Hvergerðingar sem eiga börn í skóla út í bíla sína og aka af stað með sína krakka. Ótrúlegt en satt að í ekki stærri bæ er börnunum ekið í skólann, rétt eins og fæturnir beri þau alls ekki. Og það sem verra er; það dettur engum eða fáum í hug að skiptast á að pikka upp vinina eða krakkana í næsta húsi, Heldur fer fjölskyldan á númer 25 út í bíl með börnin í skólann og í sama mund gengur sú á 27 út með sína. Síðan aka þeir hver á eftir örðum að sólanum. Á horninu inn á aðalgötu bæjarins er vanalega nokkurra mínúta bið. Jú það eru allir að fara það sama frá svo að segja sama blettinum. Ótrúlegt, en svo sannarlega satt.
Ég er ein þeirra sem kem mínu ömmubarni í skólann á morgnanna. Hann hefur farið á hjólinu nokkru sinnum en einstaka barn notar hjólið í skólann. En gangandi barn? Því er fljótsvarað. Ég hef ekki enn séð börn eitt eða fleiri ganga saman í skólann utan tvö þrjúhundruð metra radíusar frá skólalóðinni en svo virðist sem þau börn sem búa í næstu húsum láti sig hafa það að hreyfa fæturna nokkur skref á morgnanna
Ég er þeirrar gerðar að mér finnst þetta gjörsamlega óviðunandi. Í næsta húsi við mig býr skólasystir Smára og ég gerðist svo djörf að banka þar upp á og spyrja hvort við ættum ekki að skiptast á að fara með krakkana. Þau gætu komið til hvors annars og þegar gott væri veðrið gætu þau tölt þetta saman.
Ég greindi lítinn áhuga heimilisföðurins sem ég talaði við. Svaraði mér með semingi að hann þyrfti að ræða það við móður barnsins. Hef ekki heyrt í þeim síðan. Ég held að það ætti að vera forgangsverkefni foreldra í Hveragerði að sjá til þess að börnin læri frá upphafi að taka ábyrgð og mæta á réttum tíma í sólann; gangandi.
Í þessum sléttlenda bæ þar sem tæpast finnst brekka, er hending að sjá mann á hjóli. Ég man ekki eftir neinum bæ svona í fljótbragði sem hefur slíkar kjöraðstæður nema Selfoss. Þar þvælast menn sannarlega ekki fyrir hver öðrum á hjólunum.
En kannski er þetta ekki bara bundið við Hveragerði. Ég hef bara ekki verið inn í skólamálum barna í 15-20 ár frá því mínar stelpur voru litlar. Getur það verið að það sama sé upp á tenginn um allt land svo fremri sem börnin búa ekki í næstu húsum við skólana.
Ég man ekki til þess að ég flytti mínar dætur í bíl til og frá skóla nema þegar slæmt var veður og þó að ég væri að fara út úr húsi um leið og þær láði ég ekki máls á akstri nema kannski upp á horn þar sem ég beygði til minnar vinnu.
Sjálf gekk ég alltaf í skólann eftir hitaveitustokknum, í Bústaðhverfinu; dágóða spotta því ég bjó við Borgarspítalann. Þ'a voru ekki bílar almenningseign og þó svo hefði verið sé ég ekki að foreldrar mínir hefðu látið sér detta í hug að ganga þannig undir okkur systkinum. Hvernig sem viðraði gengum við öll, sum úr Hvassaleiti Eirikur Jónsson stjörnublaðamaður bjó þar ) og frá öðrum götum þar í grend. Svo hittust allir á stokknum og það var oft skemmtilegasti tími dagsins; á leiðinni í skólann...
29.8.2007 | 16:13
Árinu eldri og engin leið að snúa til baka - Tröllafjölskyldan sjálf trommaði inn með afmælisveislu í vasanum
Já, já, það styttist í að ég standi við hliðið hjá Lykla Pétri og geri upp allar mínar syndir; rétt eins og bíður okkar allra. Eða ég ætla rétt að vona að ég fái forvitni minni svalað hinu megin og geti fylgst með hvað menn eru að bardúsa hér niðri. Og ef rétt er að maður geti jafnvel flogið um allt og fylgst með öllu, þá er víst ekki neinu að kvíða hjá mér.
Ef rétt er sem Smári minn, ömmubarnið mitt segir að við hverja sígarettu sem ég svæli (veit ekki hvort þær eru taldar með sem brenna upp á meðan ég sit við skriftir; þá brenna auðveldlega heilu pakkarnir ) styttist líf mitt um tíu mínútur. Tek það samt fram að það er bannað að reykja heima hjá mér en sjálf hef ég sett mér þau lög að ekki sé bannað að stelast; svo lengi sem Mef veit það ekki! Samt veit hann um syndir mínar ef ég er ekki dugleg við að lofa allt út og sprauta sítrónuilmi um allt hús áður en hann kemur.
Ég hef ekki lagt í að reikna út hve mörgum áratugum ég missi af við það að hafa áhyggjur af öllu mögulegu og ómögulegu. En mig grunar samt að ef rétt er hjá Smára mínum ætti hann öngva ömmu Beggu. Þess í stað væri ég í kaldri gröf brennd eða bæði möðkuð og morknuð. Smári minn litla skinnið væri líkast til dæmdur til að sitja í umferðarhnút alla aðfangdaga lengi vel á eftir til að setja ljós eða kerti á leiðið hennar ömmu Begg. Standa þar góða stund og hugsa um hve góð amma hafi nú alltaf verið. Og ég þori að veðja að þá man hann ekki þegar ég var vonda amma Begga og sýndi honum framá að ég réði en ekki hann.
Veit ekki hvers vegna hvers hugarfar mitt hefur tekið þessa kúvendingu en áður grét ég að kvöldi ef allir vinir og fjölskyldumeðlimir höfðu ekki hringt. Þá elskaði ég líka gjafirnar og fannst ég eiga daginn og allir ættu að taka tillit til mín. Kannski finnst mér ég ekki þess verð að fá eitthvað sértrítment.
Satt best að segja hefði ég helst kosið í einveru í afmælisgjöf. Það hefði orðið mín besta gjöf: að fá að vera ein heima, án allra skuldbindinga til miðnættis. Reykja eins og skepna, kjafta í símann fara út með hundana vafra um í tölvunni, leggja mig, horfa á sjónvarp, lesa og bara gera allt sem mig langaði þennan eina dag og enginn ætti neinar kröfur til mín; ekki einu sinni hundarnir.
Þrátt fyrir þá löngun mína þá gleymdi fólkið mitt mér ekki og vel flestir hringdu og ég sagðist ekki ætla að vera með neitt eða gera neitt. Þá tóku hluti Tröllafjölskyldunnar sig til, þau móðir mín og tvö yngstu systkinin; töluðu við Magnús til að sjá um að ég yrði heima um kvöldmatarleytið og enginn matur eldaður.
Síðan ruddust tröllin inn með kvöldverð og allt sem honum tilheyrði. Þau höfðu tekið sig til og langað að bjóða mér í mat með því að koma mé að óvörum. Ég skrökva ekki en ég hafði smá pata af því sem til stóð. Magnús gat ekki alveg þagað og mamma hálfkjaftaði af sér.
En það gladdi það mig mikið að tröllafólkið mitt nennti að leggja á sig að koma með allt sem máltíðinni tilheyrði. Dregið var fram allt það fínasta, dúkar og borðbúnaður sem aldrei er brúkað nema á jólum og öðrum stórhátíðum. Davíð bróðir sem er meistarakokkur klikkaði ekki fremur venju og ég sat og gerði ekki neitt á eigin heimili. Fín kvöldstund, komst að minnsta kosti næst því að vera ein heima. Ætli að ég sé þunglynd, eða bilaðri en ég held?
28.8.2007 | 09:54
Reynir kominn þangað sem hann hefur alltaf ætlað sér
Í mínum huga hefur það aðeins verið tímaspursmál hvenær sme færi. Það getur ekkert annað legið fyrir en það var ljóst frá fyrsta blaði að DV myndi ekki gera sig. Sem hefur komið á daginn og lesturinn á DV í sögulegu lágmarki.
Og tveir skipstjórar við völd á DV. Ekki líst mér á tvo í brúnni sem báðir vilja ráða og engar refjar. Ég er ekki farin að sjá að þeir vinni saman þeir tveir sme og Reynir og veðja fremur á að sme verði ekki lengi. Veðja líka á að hann verði áhrifalaus þann tíma sem hann á eftir að sitja sem málamyndaritstjóri og Reynir stjórni.
En ég veit að Reynir hefur lengi gengið með ritstjóra DV í maganum; hann ætlaði sér alltaf þangað eða á viðlíka blað. Og nú hefur draumurinn ræst.
Ekki efa ég að blaðið verði læsilegra og skemmtilegra við þessa breytingu. Það kom sme illa í koll þegar hann í upphafi gaf út svo sterkar yfirlýsingar um að blaðið ætti ekki að líkjast gamla DV af ótta við slök viðbrögð og illt umtal. Illu heilli hefur hann staðið við það og ekki skipt um skoðun. Tók yfirlýsingu sína byggða á ótta og skorti á kjarki svo alvarlega að hann reyndi ekki einu sinni að taka upp taktinn þar sem hann var skemmtilegastur. Gamla DV var alltaf skemmtilegt en blaðið undir stjórn sme vantar allan húmor og gleði. Fólk vill nefnilega líka lesa skemmtileg blöð. Og blöð sem rembast svo við að vera leiðinleg eins og DV undir stjórn sme hefur aldrei átt von.
Ótti hans við að líkjast gamla blaðinu er greinilega mikil fyrst hann gat ekki einu sinni hugsað sér að taka það besta úr því gamla, heldur forðast það eins og heitan eldinn.
Reyni óska ég til hamingju með að vera loks kominn á réttan stað. Hann eins og nokkrir aðrir sem við Reynir þekkjum bæði eia hvergi að vera nema í fréttum; daglegum fréttum og það má sannarlega vænta góðs af störfum Reynis og áhafnar á DV. En sme, hvað verður um hann? Maður skilur nú fyrr en skellur í tönnum!
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2007 | 22:18
Ætla mætti að það hafi komið foreldrum gjörsamlega á óvart að skólar væru að hefjast
Umferðarþunginn í bænum kom mér í opna skjöldu þegar ég ók niður Miklubrautina í dag. Áður en ég kom að göngubrúnni yfir að Sogavegi var allt stopp. Umferðin mjakaðist varla áfram og það var ekki fyrr en ég nálgaðist Grensásveginn að ég sá hvað var um að vera. Teppan var að verslun Office one þar sem helmingur allra foreldra í Reykjavík var að kaupa skóladót fyrir morgundaginn.
Það mætti halda að obbinn af foreldrum borgarinnar hafi ekki haft hugmynd um hvenær börnin ættu að mæta í skólann og því hafi komið tilkynning í útvarpinu í morgun um að skólar hæfust daginn eftir. Ekki að mönnum hafi verið það ljóst allt frá því í vor að í kringum 20 ágúst hæfist kennsla í grunnskólum að nýju.
Nú er það svo að allir skólar eru með heimasíður og talsvert er síðan að inn á þær voru settir listar yfir hvað hvað hver árgangur ætti að hafa með í skólann. En Íslendinga eru engum líkir; fjöldinn allur vlelti því ekki fyrir sér fyrr en á síðustu stundu. Fáum datt í hug að fara í síðustu viku eða fyrr.
Dóttir mín sem mætti um leið og var opnað í Office one í morgun sagði að þar hafi ríkt allgjört öngþveiti um leið og verslunin opnaði. Svipað ástand var í flestum bókaverslunum bæjarins. Það er ekki ofsögum sagt að við erum engum lík þegar kemur að því að skipuleggja fram í tímann.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.8.2007 kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Á vísir.is er sagt frá þeirri beiðni Sveins Andra fyrir hönd skjólstæðings síns, Jóns Péturssonar að hann sæti rannsókn á höfði þar sem hann slasaðist fyrir nokkrum árum og er ekki samur eftir það.
Ég vann með Jóni Péturssyni á sínum tíma í Landsbanka Íslands. Hann var í Veðdeildinni og ég í Tölvudeildinni. Þær voru þá hlið við hlið og ég spjallaði stundum í kaffipásum við þennan prúða pilt sem ég man ekki til annars en hann hafi verið.
Útilokað var á þeim árum að hugsa sér að hann ætti eftir að fremja svo viðurstyggilega ofbeldisglæpi gagnvart konunum í lífi hans eins og sannast hefur á hann og hann dæmdur fyrir.
Víst veit ég að ofbeldismenn á heimilum bera það ekki utan á sér fremur en kynferðisglæpamenn og barnaníðingar. Oftar en ekki koma slíkir menn fram í vinnu sem mjög prúðir og vinsamlegir menn. En að Jón Pétursson hafi þann mann að geyma sem hefur sýnt sig er ótrúlegt.
Er það ekki annaðhvort bölvað áfengið eða kann að vera að hann hafi skaðast á heila sem veldur slíkum persónuleikabreytingum sem fær þennan prúða mann sem ég held bara að hafi verið einn yfirmanna Veðdeildarinnar fyrir nokkrum árum. Sjaldan hef ég orðið eins hissa og þegar í ljós kom að þessi maður af öllum mönnum væri valdur að slíku ofbeldi. En þess ber að geta að ég get ekki sagt að ég þekki hann persónulega; aðeins málkunnug honum.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt 21.8.2007 kl. 02:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)