Stefanía sigraði - en engin mynd af sigurvegarananum en átta myndir af hinum

 

Las frétt í mbl. í morgun við eldhúsborðið heima og aftarlega blasti við mér fyrirsögnin: Stefanía Svavarsdóttir sigraði í Söngvakeppni Samfés.

Það kom mér svo sem ekki á óvart að þessi hæfileikaríka frænka mín færi með sigur þarna eins og í svo mörgu öðru sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún er aðeins sextán ára og á tvíburasysturina Steinunni. Þær hafa alist upp í Mosó og létu sér ekki um muna að vera hæstar yfir skólann sinn. Þær eiga sér ótal áhugamál sem þær hafa nóg að gera við að sinna og auk þess vinna þær með skólanum á kvöldin og um helgar. Virðist ekki koma niður á námsárangrinum 

Ég byrjaði á að skoða myndir sem fylgdu fréttinni en þær voru átta og allar í stæra lagi. En sú sem fyrirsögnin vísaði til var þar hvergi að finna. Sama var með frétt á mbl.is Þar var ein mynd af haug af krökkum sem fylgdust spennt með, en engin Stefanía.

Á þeim ritstjórnum sem ég hef unnið hjá hefði ekki komið til greina að skila frá sér frétt án þess að mynd af aðalumfjöllunarefninu fylgdi með. En kannski eru á því skýringar; í myndum ljósmyndaranna fundust bara ekki myndir að sigurvegaranum. En hvað gera blaðamenn þá. Þeir fara í símann og útvega mynd. Tímaþröng; allt komið á dead-line. Kaupi það ekki því það tekur ekki nema nokkrar mínútur að senda í tölvupósti mynd frá foreldrum eða örðum ættingjum en það vill nú svo til að innan fjölskyldunnar eru að minnsta kosti tveir afkastamiklir ljósmyndarar.

Ragnheiður systir mín á þessar stelpur; eða svo gott sem. Svavar sonur hennar átti þær ungur. Þær eiga ekki langt að sækja sönghæfilekana en amma þeirra í móðurætt er systir Ingibjargar  sem gerði garðinn frægan á árum áður með hljómsveitinni BG og Ingibjörg og allir yfir fertugt ættu að muna eftir. Í föðurættinni eru einnig laglegir söngvar; nokkrir sem hugsanlega hefðu náð að koma sér á framfæri ef nægur áhugi hefði verið fyrir hendi. Einn þeirra tók sig til fyrir nokkrum árum og gerði það got Idolinu. Davíð Smári sem hefur ekki sagt sitt síðasta er sonur Maríu systur okkar Ragnheiðar. Hann undirbýr nú tónleika með Eyva sjálfum og fleiri góðum listamönnum: gott ef þeir eru ekki um næstu helgi.

Og svo er ég sem sjálf er vita laglaus meira en viss um að ég eigi einn fagran söngfugl í felum. Fuglinn sá hefur ekki enn sungið að ráði nema fyrir okkur sem næst standa; mér segir svo hugur að sá tími muni koma að fleiri fái að njóta.

En víst er að það verður gaman að fylgjast með Steinunni í framtíðinni; hún er rétt að byrja og söng lag sitt með ótrúlegu öryggi í Kastljósinu í kvöld. Óska ykkur öllum til hamingju með stelpuskottið, Ragnheiður Vald, mamman, Gunni stjúpi, Svavar og Sonja stjúpa: þið megið vera stolt af þessum elskum. Hef þegar lýst aðdáun minni á sonardætrum þínum Ranka mín; Nú varð Stefaníann sem átti athyglina, næst kemur Steikann. Skilaðu hamingjuóskum til Jóa líka.


mbl.is Stefanía vann söngkeppnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færslan tók sprettinn á undan sjáfri mér

Hér inni stóð un stund pistill sem aðeins var að hálfu lokið eða jafnvel átti ég enn lengra í land við að snurfusa hann. Umræddur pistill var í raun aðeins hugleiðingar um hvað blaðamenn þyrftu að hafa til brunns að bera ef farið væri að kröfum um að á fjölmiðlum störfuðu aðeins þeir bestu.

Inn í skrifin fléttaði ég pistli sem stendur inn á orðrómi mannlífs.is og velti síðan vöngum. Ég vil taka það skýrt fram að ætlun mín var ekki neinn að særa, heldur bera blak af góðri kunningjakonu sem ég stafaði með um skeið á Fréttablaðinu og kann afskaplega vel við.

Ég set sjaldnast inn pistla um leið og ég skrifa þá, heldur læt ég nóttina líða og lít þá yfir skrif mín aftur. Oft er ég ánægðari með þau að morgni. En stundum verð ég afskaplega fegin að að ég skuli halda þessa reglu.


Olíuhreinsunarstöð á Þingvöllum?

IS061524A

Varla gæti hvarflað að neinum heilvita manni að vanhelga Þingvelli með olíhreinsunarstöð: það er svo absúrd tilhugsun sem frekast getur verið.

Í mínum huga gildir það sama um Vestfirði. Ég get ekki með nokkrum móti séð fyrir mér olíuskrímsli í friðsælum vestfirskum firði eins og Arnarfirði eða Dýrafirði þar sem náttúrufegurðin ein ræður ríkjum

Ég er fædd fyrir vestan og er stolt af því. Flutti raunar barnung þaðan í hús ömmu minnar að Laugavegi 69. Áar mínir bæði í föður og móðurætt hafa þreytt Þorrann og Góuna þar að minnsta kosti þrjár síðustu aldir; ömmur mínar eru fæddar beggja vegna við Dýrafjörðin, í Arnarfirði annars vegar og Önundarfirði hins vegar.

Í æsku minni var mikið talað um fólkið fyrir vestan og æskustöðvar foreldra minna og ömmu. Mikill samgangur var við brottflutta Vestfirðinga og þeir sem eftir voru komu í heimsóknir þegar þeir tóku sér ferð til höfuðborgarinnar. Aldrei var talað um æskustöðvar og fæðingastað minn nema með lotningu.

Mér var innprentað að hvergi væri fegurra en í Haukadal í Dýrafirði þar sem Kaldbakur, hæsta fjall fjórðungsins trónir fyrir botni og Kolturnshornið með sinni sérstöku lögun lútir fyrir miðjum dal. Með móðurmjólkinni fékk ég ást á fæðingarstað mínum og ávalt var talað um Vestfirðinga með ákveðnum tón. Í mínum eyrum hljómaði það sem þeir væru merkilegt, harðduglegt og atkvæðamikið fólk. Og ég var stolt af uppruna mínum

Fjölskyldan heimsótti auðnustaðinn sinn annað slagið eftir að ég varð 11-12 ára og dalurinn sem ég hafði svo mikið heyrt talað um reyndist enn fegurri í mínum augum en lýsingar þeirra eldri höfðu gefið til kynna. Fyrir tæpum tuttugu árum fór ég að sækja firðina heim á hverju sumri enda minn ekta maki einnig Vestfirðingur.

Þegar við komum vestur þá finnum við bæði fyrir breyttri líðan. Þessi háu dökku fjöll taka mann í fangið og vernda þannig að ekki er annað hægt en fyllast öryggi og vellíðan auk þess sem orka mín eykst og svefnþörfin verður sáralítil. Hvergi í veröldinni finnst mér fallegra en á Vestfjörðum. Þar er landið ómengað og andrúmsloftið óbreytt ár frá ári þar til síðustu þrjú til fjögur árin.

Breytingin felst í því að gestum á ferð um fjórðunginn hefur fjölgað ár frá ári. Á hverju sumri hitti ég fleiri og fleiri sem eru að heimsækja Vestfirði í fyrsta sinn; fólk sem hefur ferðast hringinn í kringum landið ótal sinnum en sneytt hjá Vestfjörðum. Undantekningalaust kvaðst þetta fólk ekki getað ímyndað sér hve fallegt væri vestra og landslagið einstakt. Hér eftir yrðu Vestfirðir sóttir heim aftur og hringnum sleppt.

Tilfinning mín er að ferðamannastraumurinn vestur á firði eigi eftir að aukast með hverju ári; jafnvel margfaldast. Stór hluti þjóðarinnar sem ekki á rætur vestur hefur látið hjá líða að taka krók inn á kjálkann enda vegir lengi verið mjög slæmir á Vestfjarðarkjálkanum. Auðveldara er flengjast hringinn sumar eftir sumar. Nú er svo komið að straumurinn liggur á Vestfirði og ég skal hundur heita ef það gengur ekki eftir. Erlendir ferðamenn og leiðsögumenn hafa einnig sneytt hjá Vestfjörðum utan einstaka furðufuglar sem sést hefur til, þá gjarnan einir á ferð.

Mín tilfinning segir mér einnig að á næstu árum muni erlendir ferðamenn í skipulögðum ferðum um landið taka stefnuna á Vestfirði; eina landsvæðið sem hreint er af mengun og stóriðju; náttúruperla sem á fáa sína líka. Og ekki aðeins firðirnir, heldur ekki síður friðlandið norðan við Djúp. Fleiri og fleiri kjósa að ganga um Vestfirði. Þeir sem mörg undanfarin ár hafa haldið sig á fjölmennari gönguleiðum eins og við Landmannalaugar og Þórsmörk, Kjalveg og víða um hálendi Íslands; þekkja svæðið orðið vel og vilja upplifa eitthvað nýtt.

Framtíðin er Vestfirðinga í þessum efnum og á það er engin spurning að verðmætin og atvinnusköpunin mun verða í þjónustu við ferðamenn í framtíðinni ef rétt er á málum haldið. Að nokkur heilvita maður skuli láta sér detta í hug að setja niður spúandi olíuhreinsistöð við friðsælan fallegan fjörð, hreina náttúruperlu eins og Arnarfjörð er ofar mínum skilningi.

Það má aldrei verða. Vestfirðinga bíður annað og arðbæra hlutverk. Ef forheimskan nær yfirhöndinni og sú andlega fætæka hugsun einstakra manna sem ekki sér annað en olíuskrímsli, fær að ráða verð ég fyrst manna til hlekkja mig við byggingakrana til verndar ómengaðri náttúru Vestfjarðakjálka.


Fólk er fífl - enn og aftur missir þjóðin sig í múgæsingi

Ég segi eins og Tómas Möller í frægum tölvupósti fyrir margt löngu og er fáum gleymt: "Fólk er fífl". Þeir sem hins vegar eru ungir eða ekki muna þessi fleygu orð sem í þann tíð fór afar mikið fyrir brjóstið á landsmönnum skal til upprifjunar bent á að póstur Tómasar var í tengslum við samráð Olíufélaganna. Á einfaldri íslensku þýddu þessi orð Tómasar; "það er hægt að plata þennan lýð upp úr skónum og engin mun átta sig á neinu."

Menn hneyksluðust upp úr skónum og þótti hroki mannsins með eindæmum. En ég get ekki annað en velt þessum orðum fyrir mér þessa dagana eins og svo oft áður þegar upp koma mál sem fjölmiðlamenn tönglast á dag eftir dag og mata almenning á. Sem síðan kokgleypir án þess svo mikið sem leiða hugann að því að hvert mál hefur fleiri en einn flöt.

Ætla má að í þessu landi nenni menn ekki lengur að hafa fyrir því að mynda sér upplýsta rökstudda skoðun á því sem þeir eru mataðir á; fréttum sem miðlað er í gegnum fjölmiðla, heldur jamma og jáa með sjálfum sér; svona er þetta. Og svo éta menn hvað upp eftir öðrum. Svo ekki sé talað um þegar sjálfskipaðir sérfræðingar sitja í sjónvarpssal frammi fyrir fréttamönnum og lýsa vanþóknun sinni á tilteknu máli og allt ber að sama brunni því fjölmiðlamenn kynda undir; þeir þurfa jú að halda dampi og vilja áframhaldandi hasar.

Nýjasta dæmið er hvernig mannskapurinn hamast við að taka Vilhjám Þ. af lífi; Maðurinn á götunni er spurður álits og þora ekki annað en vera sammála vitringunum í Kasljósi. Ekki skera sig úr; allir segja að hann sé óhæfur´, rúinn trausti og trúverðugleika og þá hlýtur það að vera rétt...

Mér finnst svona múgæsingur óhugnanlegur og minnir mig á hvernig harðstjórar sögunnar komu innrætingu um það sem þeim hentaði inn í huga almennings, sbr. Hitler eins og önnur dusilmenni sögunar honum líkir hafa gert svo lengi sem menn muna.

Og múgurinn æsist og æpir meira blóð, meira blóð! Nákvæmlega eins á öldum fyrr þegar aftökur fóru fram á torgum. Enginn eðlismunur; aðeins stigsmunur á aftökum nútímans sem fara nú fram í fjölmiðlum og villimennskunni í eina tíð.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var kjörinn borgarfulltrúi til fjögurra ára í síðustu kosningum. Oddviti flokksins er hann hvort sem valdasjúkum ungliðum innan flokksins líkar betur eða verr.

Hvort hann hefur sagt ósatt oftar en aðrir, mismælt sig eða gleymt get ég ekkert um sagt en ætli hann hafi bara ekki logið klaufalega og treyst um of þeim sem ekki voru traustsins verðir. Efast ekki um að Hanna Birna, Gísli Marteinn eða hver annar hafi gripið til lyginnar snúið sannleikanum við í sínu pólitíska framapoti. Lygin kemst bara ekki alltaf upp og menn komast upp með að hagræða sér í vil.

Klúður Villa var að hafi ekki almennilegt vit á hlutunum og ráðgjafarnir leyfðu sér að skara eld að eigin köku. Fyrir vanþekkingu og klaufaskap á Villi ekki að vera hengdur undir hrópu og köllum lýðsins. Mönnum er mis mikið gefið og það fór ekki framhjá neinum fum hans á fát í kringum blaðamannafundinn fræga. Honum fer augljóslega ekki vel að búa svo um hnúta að fá lýðinn með sér. Átta mig raunar ekki hvernig að flaug að honum að halda þennan blaðamannafund einn og óstuddur.

En hann verðskuldar ekki vanþóknun og fyrirlitningu samflokksmanna í borgarstjórn fyrir það eitt að vera ekki nógu klókur að koma sér úr þeirri krísu sem hann kom sér í með dyggri aðstoð eigin pólitískra samstarfsmanna. Hann skorti einfaldlega skynsemi og hæfni til að snúa umræðunni sér í hag.

 

Mitt ráð er að hann haldi sér til hlés og láti vinda blása þangað til kulnað er í glóðunum. Ég skora á hann að skella skollaeyrum við þeim háværu en örfáu röddum sem æpa hvað hæst og almenningur heldur i forheimsku sinni að þar fari kór meirihluta þjóðarinnar. Villi á að halda sínu striki og láta ekki bola sér í burtu. Stattu fast á þínu Vilhjálmur og láttu ekki beygja þig niður í duftið.

Tek það fram að ég er ekki búsett í Reykjavík og enn síður fylgi ég Sjálfstæðisflokki að málum. Það breytir ekki því að ég á illt með að horfa upp á hvernig róið er undir af ákveðnum öflum sem æsa upp múginn og beita honum  í eigin þágu. Ég hef óbeit á slíkum áróðursmeisturum sem fá "fíflin"; fólkið í landinu til trúa því sem best hentar.

Hvernig væri nú að hver og einn tæki sig til og velti málum fyrir sér og skoðaði atburðarásina upp á nýtt og noti eigin dómgreind til skoðunarmyndunar. Mér segir svo hugur að ýmsir sæju þá hlutina í öðru ljósi og muni í fyllingu tímans skammast sín; það hafa dæmin undanfarin ár sýnt.


Eftir höfðinu dansa limirnir

Öll okkar verk verða til í heilanum og þarf ekki að taka það fram. Ef stjórnstöðin virkar ekki og sendir röng boð þá dansa limirnir ekki í samræmi við þau boð sem þeim eru send. Ef grannt er skoðað ( þarf ekki einu sinni að skoða vel, heldur blasir við) má sjá hér á þessu bloggi að boðin hafa ekki alltaf skilað sér.

Hér hefur stundum verið dansaður vals þegar stjórnstöðin sendi boð um tangó og öfugt. Viðgerð stendur yfir og gengur vel að tengja þræði og herða lausar skrúfur. Á allt eins von á að öflug boð fari að berast þaðan fyrr en síðar.


Níu ára í frytihúsinu með þúsund krónur á viku - hve mikið fé á núverandi verðlagi?

Það er lítil eftirsjá í mínum huga eftir árinu sem var að kveðja og enn síður því fyrra. Þessi tvö ár hafa verið með eindæmum erfið og það þó telja megi þau fleiri en færri árin þau síðan ég leit fyrst dagsins ljós vestur í Haukadal í Dýrafirði i enda hundadaga um miðja síðustu öld.

Ég er ekki að segja að líf mitt hafi verið eintóm óhamingja og harmur; þvert á móti enda erfiðleikar og leiðindi hreint ekki það sama.

Raunar hef ég verið lánsöm að mörgu leyti en mínir ljúfustu dagar eru þegar að  ég leggst örþreytt og hamingjusöm á koddann og veit ekki meira, en dreymi dagblöð fyrirsagnir morð og eiturlyfjasölu; og já og hvolpa og sýningar.

Að vinna við það sem er skemmtilegt er það sem gefur lífinu gildi en þegar heilsan bregst manni og hlé verður á fastri vinnu, er ég hvorki hálf né heil manneskja. Það er stundum ósköp gott að eiga frídag þegar maður vaknar í svartasta skammdeginu og bílinn í kafi, vindurinn gnauðar á glugga snjórinn tveggja metra djúpur og ekkert í heiminum er eins eftirsóknarvert á þeirri stundu en snúa sér á hina.

En öndvert við það er að þurfa að snúa sér á hina og langa minnst af öllu í heiminum til þess, heldur horfir á eftir maka sínum moka snjóinn og hverfa til vinnu. Þá er einmitt það eitt sem mann dreymir um að geta gert líka. 

Ég hef unnið alla mína ævi; var níu ára þegar ég tölti í frystihúsið í fyrsta sinn. Klukkan aðeins líðlega 7 en mæting 07.20. Í átta til tíu stundir stóðum við nokkur börn og köstuðum ýsum  eða þorski upp á færiband eða skárum bein úr þorski. Ég var sýnu yngst, en stór og stæðileg. Fyrstu launin mín voru 852 krónur og einhverjir aurar fyrir tæpa viku. Það voru miklir peningar þá. Vikulega allt sumarið gekk ég heim á föstudögum með um það bil þúsund krónur í launaumslaginu. Þeir voru afhentir mömmu en ég stúkubarnið var sæl ef ég fékk tíu krónur úr umslaginu til að kaupa mér gotterí. Gaman væri ef einhver gæti umreiknað þá tölu til dagsins í dag en þetta var í maí - ágúst árið 1962.

Ég held að ég hafi aldrei liðið neitt fyrir þessa barnaþrælkun, nema síður væri. Var alin upp við að vinna væri öllu æðra. Þeir sem voru duglegir til vinnu voru menn með mönnum og upp til þeirra var litið. Enn er ég vinnusöm og elska ekkert meira en vera í vinnu og vinna mikið. Það er mín fíkn. 

Samt er ég húðlöt ef ég er ekki í vinnunni. Fresta öllu sem hægt er að fresta til næsta dags en ég held að fátt sé eins niðurdrepandi eins og að vera heima svo dögum skiptir og sjá kannski ekki annað fólk en sitt nánasta og afgreiðslufólkið í Bónus; það er að segja ef maður er það hress að koma sér út úr húsi...

Ég er þeirrar skoðunar að langtímaveikt fólk þurfi á vinnufélögum sínum að halda og atvinnurekendur eigi að gefa þeim sem þannig háttar til frelsi til að mæta þegar heilsan leyfir í stað sess að manni sé kippt í allgjört veikindafrí.

Að ógleymdum áhyggjunum yfir fjárhagslegri stöðu í framtíðinni; ætlar þetta ekkert að fara að lagast; Veikindarétturinn að líða undir það síðasta og ekkert blasir við en.... Hvað. ég veit það satt að segja ekki. Líklega tekur lífeyrissjóður eða guðmá vita hvað við; þekki það enda aldrei á það reynt hjá mér. 

Ekki að ég eigi ekki kost á að fara að vinna; sem betur fer lifir mitt gamla orðspor. En spurningin er aðeins; hvenær get ég selt mig 100 prósent; fyrr ræð ég mig ekki í nýja vinnu

JÁ, hver segir að "Vinnan göfgi manninn" hafi verið búið til af kirkjuna mönnum  til að sætta lýðinn við vinnuna hér í eina tíð þegar almúginn vann en hinir léku sér.Kannski en þeim hefur þá í eitt af örfáum skiptum ratast rétt orð í munn.

Bara að fá að koma, gera það sem maður treystir sér til að gera og fara og koma að vild þar til heilsu og fullum afköstum er náð á ný. Það græða allir og fyrir þann sjúka er það besta lækningin sem völ er á.

Manneskja eins og ég sem hef unnið í mörg ár langt fram yfir eðlilegan vinnutíma verður enn veikari en ella. Við líkamlegan krankleika bætist andleg depurð sem erfitt er að ná sér upp úr.

Sumir dagar eru góðir og þá finnst manni að allir vegir séumanni  færir; en svo...? Hvílík vonbrigði maður er ekkert að hressast; allt ein stór blekking. 


Hvatvís, fljótfær og sátt - en syndaaflausn er annað mál!

Jakob Bjarnar vinur minn og fyrrum vinnufélagi bendir mér réttilega á að hæpið sé að líta á dóma hér uppkveða af dómstólunum sem nokkurskonar syndaaflausn; með dómi héraðsdóm hafi ekki endilega sannast að ég hafi unnið frétt mína vel eða kastað til höndum. Á hann þar líkast við mál Bubba Morteins gegn Hér & nú sem Garðar minn góði vinur í séttinni tapaði fyrir dómi.

Og svo ekki sé talað um dóminn sem kveðinn var upp Jónínu Ben. í hag vegna augljósra einkafunda þeirra Styrmis þar sem minna var kannski talað en því meira tjáð með öðrum hætti á þeirra á milli og tölvupóstar þeirra, stolnir eða ekki báru vitni um og ég las orð frá orði á sínum tíma. Það leyndi sér ekki og var síður en svo farið með það í launkólfa hvað þeim fór á milli. Þrátt fyrir það þóttu dómstólum ástæða til að horfa fram hjá þeim staðreyndum sem orð þeirra á milli báru með sér og dæmdu henni í hag fyrir það eitt að DV sagði lesendum sínum sannleikann eins og hann kom lesendum þeirra umræddu tölvupósta fyrir sjónir og ekki gátu farið á milli mála um þeirra samskipti. Eða öllu heldur ástarfundi sem orð þeirra báru með sér. 

Jbg hefur margt til síns máls enda skarpur og vel gefinn maður. Líklega hefur heyrst heldur hátt í mér enda á hvatvísi mín ér lítil takmörk. En eigi að síður þá var mér mjög létt við þennan dóm sem ég vísaði í vegna þess ég var meira en ósátt við dóm siðanefndar.

Hafi nefndinni þótt ósmekklega að Magnúsi vegið var ekki við mig að sakast, heldur við einn viðmælenda minna í fréttinni við yfirmann póstberana sem þóttist alls ekki kannast við málið og sagði augljóslega ekki satt og rétt fráí samtali við mig. 

Mörgum blaðamanninum sem oftar en einu sinni hefur verið kærður til siðanefndar BÍ kann að þykja ég óþarflega hörundsár; blaðamenn taki hvort eð er ekki nokkurt mark á niðurstöðum þessarar nefndar. 

Mikið rétt; margir eru þeirrar skoðunar að hún sé ekki í takt við tímann en eigi að síður er veruleikinn sá að meðal annars við blaðamenn sjálfir höfum samþykkt hvernig hún er samansett  á lýðræðislegan hátt og ber okkur því að fara að þeim lögum sem við höfum sjálf tekið þátt í að móta.

Rétti vettvangurinn er að innan Blaðamannafélagsins fari fram umræður um þessi mál og þar verði tekin upp vinnubrögð í takt við breytta tíma og þróun í blaðamennsku.

Því ber mér eins og öðum blaðamönnum að  taka tillit til þess sem Siðanefnd lætur frá sér fara; hvort sem mínar skoðanir fara að hennar eða öfugt. Þess vegna sárnaði mér sérstaklega þessi úrskurður því að þó fjari fari að ég sé fullkomin, þá hef ég alla tíð haft það að leiðarljósi á mínum ferli að hafa það sem sannara reynist og vanda vinnubrögð mín í þeim efnum.

Að ávinna sér traust viðmælenda sinna tekst mönnum ekki á einni nóttu. Það tekur langan tíma að vinna sér inn það orðspor að vera traustsins verður. Sumir ná því aldrei en aðrir kæra sig kollótta. Ég hef hins vegar talið það mjög mikilvægt í fjölmiðlum að njóta traust enda léttir það manni störfin mjög og talið að mér hafi tekist það á yfir tuttugu ára ferli í þessum bransa. 

Hafi ég átt í einhverjum ágreiningi við viðmælendur mína í gegnum árin, hefur það verið fyrir hreinan misskilning eða ritsjórnarlegar ákvarðanir sem ég hef ekki eðli málsins samkvæmt alltaf haft eitthvað um að segja. Ég hygg að þeir sem hafa unnið á ritsjórnum blaðanna við hlið mér geti borið um það vitni að ég berst ævinlega fyrir því að ekki sé illa að fólki vegið eða að ósekju á síðum þeirra miðla sem ég hef starfað á. Hef frekar þótt heldur aumingjagóð og frekar gert mig seka um að ljúga með að þegja en hitt.

En sannleikurinn getur verið sár og þeir sem um er fjallað hafa oftar en ekki unnið fyrir því að um þá séu sagðar fréttir. Aðstandur hafa liðið fyrir gjörðir þeirra einstaklinga og það er hrein og klár skinhelgi að halda að allt sé í lagi með menn þar til þeir lenda á forsíðum dagblðanna fyrir afbrot sín eða aðrar gjörðir sem þeir hafa gert sér og öðrum til miska. Það er til lítils að stinga hausnum í sandinn eða að skjóta sendiboðann.

Í eðli sínu getur aldrei verið til hinn eini sannleikur, enda er hægt að segja frá á svo margan máta og sannleikurinn er einn í augum eins og annar í augum hins. Hinn eini og sanni sannleikur er afstætt hugtak í blaðamennsku; það er með hvaða augum sá sem vitnar frá sér og hvaða aðferð er beitt við að segja frá eins og allir sem til þekkja vita.

Því er það brýnt að forysta Blaðamannafélags Íslands efni til umræðu um þessi mál eða geri könnun á viðhorfum stéttarinnar til Siðanefndar. Á hún rétt á sér; eða hefur hún dagað upp sem nátttröll, nýtur hún engrar eða lítillar virðingar, eru úrskurðir hennar er einskis metnir? Eða eru það aðeins örfáir kvúrúlantar í hópi blaðamanna sem þannig líta á?

Þessum spurningum þarf að svara og það kostar vinnu og skoðanaskiptai manna á milli  til að fá úr því skorið. Okkar er að þrýsta á endurskoðunar á siðareglum blðamanna og ekki seinna vænna að skora á stjórn BÍ að vinna að því að Siðanefnd ( svo lengi sem hún á rétt á sér í einhverri mynd) starfi áfram með endurskoðum lögum um hlutverk hennar eða...? Kannski er ekki réttlátt að allir blaðamenn með vísan til þeirra fjölmiðla sem þeir starfa hjá fari að nákvæmlega sömu siðareglum.

Stöndum því saman blaðamenn um að knýja fram breytingar sem allir geta sætt sig við og leitumst við að virða úrskurði Siðanefndar rétt eins og hún naut fyrr á árum. Við þurfum sjálf að vinna að því að skoaðað verði með hvaða hætti við gerum breytingar í ljósi fjölmiðlaumhverfisins sem breyst hefur ótrúlega mikið á skömmum tíma. Sjálf berum við ábyrgðina.

 

 


Fréttin sem Siðanefnd BÍ taldi illa unna - dæmi nú hver fyrir sig

Hér neðst setti ég inn tvöpdfskjölþar sem lesa má fréttina sem ég skrifaði um póstinn í Keflavík og þátt Magnúsar Guðjónssonar í því máli.

Eins og lesa má hér á síðunni þá kærði Magnús mig fyrir Siðanefnd BÍ og úrskurður hennar var á þann veg að ég hefði ekki gætt þess að vanda mig við upplýsingaöflun mína við vinnslu fréttarinnar.

"Framsetning DV í báðum þessum efnum, og sérstaklega forsíðufyrirsagnir 20. og 23. janúar, er því verulega ónákvæm og villandi og ekki í samræmi við 3. grein siðareglna BÍ þar sem kveðið er á um að blaðamaður vandi upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu. Ritstjórn DV telst hafa brotið gegn 3. grein  siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Brotið er ámælisvert

Mitt lán var hins vegar að Magnús stefndi ritsjórum DV fyrir héraðsdóm sem sýknað okkur af kröfum hans. Þar með lít ég svo á að mat Siðanefndar hafi ekkert gildi og að úrskurður hennar sé dauður og ómarktækur.  Dómurinn sýni svo ekki verði um villst að Siðanefnd BÍ vinni ekki í takt við þá þróun og breytingar sem orðið hafa á fjölmiðlun síðustu ár.

Í Siðanefnd BÍ sitja eftirfarandi fulltrúar:

Kristinn Hallgrímsson lögm, form.
Hjörtur Gíslason blaðam., varaform.
Sigurveig Jónsdóttir fyrrum fréttastjóri 
Brynhildur Ólafsdóttir, fulltrúi útgefanda 
Salvör Nordal fulltrúi Siðfræðistofnunar HÍ
Varamenn eru:
Jóhannes Tómasson, blaðamaður 
Valgerður Jóhannsdóttir, fréttamaður 
Þór Jónsson, varafréttastjóri

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Siðanefnd BÍ nátttröll sem er að daga uppi - áfellisdómur á starf nefndarinnar

Siðanefnd fellst ekki á það sjónarmið kærðu að tölvubréf kæranda til yfirmanns pósthússins í Keflavík hafi gefið tilefni til umræddrar fyrirsagnar. Af lestri tölvupóstsins er augljóst að hann setur fram hugmynd og segir: „mér var að detta í hug hvort einhverjir bréfberar hjá þér væru til í að punkta niður hjá sér hvar hunda væri að finna í þeirra hverfum.“ Og í lok tölvubréfsins spyr hann: „Hvernig líst þér á svona samvinnuverkefni?“. Ekki er með sanngirni hægt að álykta af þessum orðum að hann hafi beðið bréfbera að njósna fyrir sig, heldur einungis sett fram hugmynd um samvinnuverkefni við  yfirmann Íslandspósts í Keflavík.

Úr úrskurði Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands nr. 8/2005-6

Mikið lifandi ósköp gladdi mig sýknudómur héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp í gær. Þar með er ég hreinsuð af því mati Siðanefndar að ég hafi unnið frétt mína um að póstburðarfólk á Suðurnesjum njósnaði um íbúa bæjarins um leið og þeir færðu þeim póstinn sinn. Eftir birtingu fréttanna var ég kærð til Siðanefndar en hér í upphafi má sjá hvaða viðhorf nefndin sú hefur til þeirrar skyldu blaðamanna að flytja fréttir jafnvel  þó þær komi illa við einhvern. Með úrskurð Siðanefndar í vasanum ákvað Magnús aðganga alla leið og höfðaði mál á hendur þáverandi ritstjórum þeim Björgvini Guðmundssyni og Páli Baldvin sem komu með litlum fyrirvara að stjórn DV og höfðu þegar þessi frétt var skrifuð aðeins unnið örfáa daga á DV.

Ljóst er að Siðanefnd blaðamanna er ekki nema orðið eitt en langur vegur er frá úrskurði hennar annars vegar og dómstóla í landinu hins vegar. Það sýnir nýuppkveðinn dómur héraðsdóms sem er í engu í samræmi viðskoðanir og mat þeirra sem í Siðanefnd sitja. Siðanefnd úrskurðaði að ég hefðið brotið eina meginreglu siðanefndar sem kvæði svo á að blaðamenn ættu að vanda umfjöllun og framsetningu við fréttaskrif sín.

Mér fannst að starfheiðri mínum vegið í þessum úrskurði kollega minna og hef allar götur síðan átt erfitt með að sætta mig við niðurstöðurnar.

Sjálf vissi ég að ég hafði unnið að heilindum og fyrst og fremst vegna þess, þá þótti mér brotið á mér og réttlætiskennd minni var brugðið. Auk þess að með slíku viðhorfi kollega minna í Siðanefnd mátti skilja að ég væri óheiðarleg manneskja og ég gerð að viðsjárverðum blaðamanni sem ekki væri treystandi

Það var alveg sama hverjar fréttir okkar á DV voru á þessum tíma; þær voru marklausar í augum almennings; menn kærðu sig ekki um að heyra þær ef málstaður okkar gæti orðið betri við það. Sú neikvæða umræða um DV og flesta þá blaðamenn sem þar störfuðu hafði meiri áhrif á okkur blaðamennina en fólk gat gert sér í hugarlund. En það mál er ekki til umfjöllunar hér heldur þau vonbrigði sem ég varð fyrir þegar siðanefndin hafði úrskurðað í málinu. Á dauða mínum átti ég von en ekki að ég nefndin myndi úrskurða mér í óhag.

Nokkrar stéttir í landinu hafa innan sinna vébanda siðanefnd sem úrskurðar meðala annars um það hvort menn hafi gerst brotlegir í starfi gagnvart þeim sem þeim ber að þjóna. Þegar ég heyri fréttir þess efnis að menn hafi fengið vítur frá eigin starfsfélögum, þá flögrar upp í huga minn að viðkomandi hljóti nú að vera maður sem best væri að halda sig fjarri. Það er ósjáfrátt sem það gerist og allgjörlega án þess að ég hafi kynnt mér málið.

Það gætu allt eins verið ofsóknir gegn þessum eina manni sem starfsfélagar hans standa fyrir eða maðurinn er kannski langt á undan sinni samtíð og kollegar hans vita bara ekki betur? Hvað veit ég enda fylgdi það ekki fréttinni.

Einmitt vegna ófullkomnunar okkar mannanna barna lít ég það alvarlegum augum þegar mínir eigin kollegar úrskurða mér í óhag og segja óbeinum orðum í úrskurði sínum að ég hafi bæði verið löt og hyskin og látið hjá líða að tala við við fólk sem skipti máli. Ég hafi ekki verið starfi mínu vaxin samkvæmt úrskurði kollegana.

Blaðamenn sem fjallað er um fyrir siðanefnd sem úrskurðar að þeir hafi ekki unnið samkvæmt þeim reglum sem í gildi eru kunna að fá á sig einhvers konar stimpil sem slæmir fagmenn meðal almennings. Á hinn bóginn er ekki mikil hætta á því að blaðamenn innan stéttarinnar líti svo á enda vita þeir betur. Siðanefnd Blaðamannafélagsins er ekki annað en nátttröll sem dagað hefur uppi. Á úrskurðum hennar er ekki takandi mark og þeir hafa ekkert gildi lengur. Enda taka fæstir fjölmiðlamenn lítið sem ekkert mark á úrskurði hennar Hvernig á líka annað að vera þar sem starfsreglur Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands er ekki í neinum takti við breytt fjölmiðlaumhverfi hér á landi síðustu ár.

En ég kalla ekki allt ömmu mína og ætti alls ekki að leyfa mér að vera sár yfir mjög svo óréttlátum úrskurði nefndarinnar þar sem augljóslega er horft til einnar hliðar. Ástæða þess að ég tók úrskurð nefndarinnar nærri mér var að ég var höfð fyrir rangri sök. Samviska mín var hrein og klár; ég vandaði mig við vinnu mína og hafði ekkert gert sem hægt væri að deila á mig. Það var því mitt lán eftir allt saman að þetta mál skyldi fara fyrir dóm. Og hvílíkur áfellisdómur yfir okkar margumræddu siðanefnd... Héraðsdómur var í einu og öllu ósammála Siðanefnd Blaðamannafélags íslands eins og lesa má hér.

Allt fór þetta mál af stað, þegar mér barst í janúar fyrir bráðum tveimur árum ábending um að póstútibústjórinn í Keflavík héldi ræðu yfir póstburðarfólki áður en það héldi út á morgnanna til útburðar. Yfir því var þrumað að muna eftir að telja hundana fyrir Magnús. Og skrásetja samviskusamlega hjá sér hvar í húsum sé að finna hunda og hve marga á hverjum stað.

Ég þekkti til Magnúsar og hafði talað við hann vegna vinnu minnar. Magnús er sómamaður og góður dýralæknir eftir því sem ég kemst næst. Ég hafði ekki nokkra ástæðu til að fara illa með Magnús eða gera hann tortryggilegan í augum lesenda minna; þvert á móti vildi ég komst i botn í þessu máli því ég leit á það sem alvarlegt mál ef stjórnsýslan væri farin að leita til fyrirtækja um að njósna um fólk. Póstinum væri ekki treystandi lengur. Mig langaði alls ekki að klekkja á einum né neinum enda er það ekki það sem blaðamaður hugsar um þegar honum berast  ábendingar um eitthvað sem skoða þurfi nánar.

Í mínum huga er það alvarlegt mál ef stóri bróðir er farin að hafa alla anga úti til að njósna um borgarana. Hundar í þetta sinn en hvað næst?

Skatturinn gæti beðið póstinn um að kanna hitt og þetta sem hann þyrfti að vita og hver og einn gæti beðið póstinn að safna upplýsingum um okkur hin án þess að við hefðum hinn minnsta grun um að verið væri að skoða lífshætti okkar!

Ef það er ekki fréttnæmt og á ekki erindi til fólks að hugsanlega gæti blaðburðarmaðurinn, pósturinn eða hver sem væri að villa á sér heimildir. Meðfram sínu starfi sem við þekkjum viðkomandi fyrir gæti hann jafnframt verið að vinna skýrslu um lífshætti okkar og venjur í þágu stjórnsýslunnar, tryggingafélagana og hinna ýmsu markaðsfyrirtækja sem hefðu hag af slíkum upplýsingum.

Beiðni Magnúsar um samstarf við póstútibústjórann er ekki annað  óskir um að njósnað sé um íbúa sveitarfélagsins. Og það er bæði fréttnæmt og alvarlegt mál að nokkrum embættismanni skuli detta í hug að vinna á þann hátt.

Því skoðaði ég þetta mál frá mörgum hliðum talaði við fjölda fólks og skrifaði tvær fréttir um hvað þarna væri í gangi. Ég vann fréttirnar eins vel og mér var unnt en þegar mér berast upplýsingar í gegnum  heimildarmann sem ekki getur eðavill tjáð sig opinberlega, vanda ég sérstaklega til vinnu minnar; einmitt þess vegna.

Þeir sem unnu hjá póstinum vildu ekki tjá sig í fjölmiðlum og pósthúsútibústjórinn í Keflavík sagði mér hreinlega ósatt þegar hún svaraði að ekki kannaðist hún við beiðni Magnúsar og vísaði öllum spurningum mínum á bug. Ekki fór á milli mála í mínum huga að konan sagði ósatt enda eins og áður sagði fullyrti Magnús að hafa sent henni viðkomandi bréf. Auk þess sem framburður heimildarmanna minna var samhljóma. Frá yfirmanni sínum, Önnu Maríu höfðu þau tekið við skipun um að vinna að hundatalningu og njósnum um lífshætti bæjarbúa í starfi sínu við póstburðinn.

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands sá hins vegar ekki nokkra ástæðu til að almenningur fengi að vita af þessu athæfi Póstsins. Mín skoðun og hinna á ritstjórn var hins vegar sú að okkur bæri skylda til að segja frá þegar stjórnsýslan aflaði upplýsinga um fólk án þeirra vitneskju. Heita það ekki njósnir en í íslenskri orðabók eru njósnir skilgreindar á eftirfarandi hátt: "að leita vitneskju með leynd“.  Fyrirsögnin sem notuð var endurspeglað nákvæmlega það sem fréttin fjallaði um og þann veruleikann sem bjó að baki.

Ég skil Magnús Guðjónsson vel; það er ekki þægilegt að í fjölmiðlum sé fjallað um fljótfærni okkar eða mistök í starfi. Nú er það ekki svo að ég hafi talið mikla vá fyrir höndum. E þetta snýst ekki um það, heldur er hlutverk blaðamanns að veita aðhald einkum og sér í lagi þegar stjórnsýslan á í hlut

Kjarni þessa máls er réttur almennings til að fá upplýsingar um störf og starfsaðferðir hins opinbera. Frétt mín hafði augljóst fréttagildi og það myndi fela í sér aðför að hlutverki fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi ef tjáningarfrelsi blaðamanna yrði skert að því marki að ekki mætti fjalla um ráðagerðir stjórnvalda, sem í besta falli geti talist vera á mörkum þess að vera lögmætar.

Ég get ekkert annað en fundið til með Magnúsi núna. Hann vissi ekki betur en treysta mætti siðanefnd blaðamanna og með sigur að baki ákvað hann að fara allal eið og stefna okkur. Hugsunarskekkja vanþekking á störfum Siðanefndar varð honum að falli. Þeir gerðu sérekki ljóst að úrskurður Siðanefndar hafði ekkert með það að gera hvernig málið færi fyrir dómstólum. En ég á Magnúsi gjöf að gjalda fyrir að  halda áfram og fara með málið fyrir dómstóla gerði hann mér stóran greiða. Með því hreinsaði hann mig af þeim áburði sem á mig hafði verið borin í úrskurði Siðanefndar. 

Og hér er niðurlag úrskurðar Siðanefndar í máli Magnúsar gegn mér en Siðanefnd skipa eftirfarandi:

http://press.is/press.php

 „Framsetning DV í báðum þessum efnum, og sérstaklega forsíðufyrirsagnir 20. og 23. janúar, er því verulega ónákvæm og villandi og ekki í samræmi við 3. grein siðareglna BÍ þar sem kveðið er á um að blaðamaður vandi upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu.  

Úrskurður Ritstjórn DV telst hafa brotið gegn 3. grein  siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Brotið er ámælisvert.

Reykjavík 22. maí 2006

 

Hjörtur Gíslason,  Jóhannes Tómasson, Brynhildur Ólafsdóttir, Salvör Nordal,   Sigurveig Jónsdóttir

  • es. Bið menn að afsaka hve oft orð eru fest saman en bilið á tölvunni minni virkar svona illa; þarf að láta laga það um leið og opnar því þetta er óþolandi og seinlegt að skrifa svona..

Fávís er tölvulaus maður - hvílkur léttir að vera komin í samband við umheiminn

Freyjahv

Trúi því hver sem vill en síðasta mánuð hafa báðar fartölvur heimilisins verið bilaðar. Þær hreinlega krössuðu báðar um svipað leyti og það hefur ekki gengið þrautalaust að fá gert við þær.

Fyrst fór Magga tölva þegar loki hennar var smellt heldur snögglega aftur. Það var nóg til að harði diskurinn gaf sig. Þar sem mín var í lagi var ekki hundrað í hættunni og við þrýstum ekkert sérlega á viðgerð.

En  nokkrumdögumsíðar krassaði mín líka eftir að dóttursonurinn Smári sjö ára gerðist heldur óþolinmóður í einhverjum bölvuðum leiknum sem hann leikur á netinu, og skellti lokinu meira en harkalega aftur Raunar er tölvuásókn hans að gera  mig vitlausa. Nú fær hann ekki að snerta tölvurnar meira en við fundum gamala fartölvu sem viðlétum setja í skjákort fyrir hann. Má hann djöflast hafði hlaupið með hann í gönur og skemmt tölvuna hennar ömmu. Reikna því með að hann hafi dregið nokkurn lærdóm af því og fari betur með þessi dýru tæki framvegis.

En þegar engin tölva nema gamli rokkurinn voru til taks ég fór því með mína og vildi hina til baka. Ó, nei, harða diskinn þurfti að panta að utan og var væntanlegur í vikunni. Síðan hefur það verið svo. "Á morgun verður þetta klárt, voru svörin sem við fengum frá umboðsaðilanum dag eftir dag. Og síðan er komin mánuður.

Ég fór því með mína annað í viðgerð og leitaði ekki langt yfir skammt. Hér í Hveragerði eru nefnilega þessir fínu menn sem reka viðgerðaverkstæði og verslun til að þjóna okkur hér í bæ.  

Og nú er mín komin mér til mikillar ánægju og gamli rokkurinn sem einu sinni var svo svakalega fínn og fljótvirkur fær brátt endanlega hvíld því ég er að auki búin að festa kaup á annarri slíkri, nema bara miklu fljótvirkari en mér finnst nauðsynlegt að hafa líka fasta tölvu. Finnst betra að vinna stærri verkefni á þannig tölvu inn í mínu vinnuherbergi.

Já og svo held ég nokkurn veginn áfram að taka framförum fyrir utan stöðuga verki í skrokknum eftir ævintýri mín utan vegar á í hrauni og örðumófærum. En það er barnaleikur að finna til í líkamanum og vita hvers vegna í samanburði við verki í sálartetrinu.

Ég hef rétt reynt að fylgjast með póstinum mínum en hef ekki haft þolinmæði til að fara inn á þungar síður eða blogga.

Auk þess hef ég verið önnum kafin við að sinna litlum hvolpum sem komu í heiminn fyrir tæpum tveimur vikum eins og sjá má inn á www.sifjar.is Það hefur verið meira en nóg að stússast þrátt fyrir að Freyja mín sé ógurlega dugleg að sinna sínum litlu krílum.

Vísast hefur ýmislegt farið fram hjá mér þessar tölvulausu vikur en ég geri ekki ráð fyrir öðru en mínir dyggu bloggvinir, sem reyndar eru ekki margir. Allir aðrir eiga fjölda bloggvina en ekki ég. En nokkra lesendur semflestir eru innan fagsins eða vinir og kunningjar á ég og nú geta þeir fariðaðlítaaftur inn til mín.

Gaman væri að fá viðbrögð við skrifum mínum annað kastið; heyrið það þið sem lesið alltaf en þegið samt! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband