Og svo fjölgar á heimilinu rétt fyrir Verslunarmannahelgi

 

Freyja mín er svo sannarlega með hvolpa. Hún er gengin með allt að sex vikur og á því ekki langt eftir. Mér finnst hún óvenjulega sver og ég má má hundur heita ef hún er ekki að minnsta kosti með sex hvolpa. Oft er ekki einu sinni farið að sjást á tíkum þetta langt gengnum, en það leynir sér ekki með Freyju mína.

Freyja í fangi Ragnheiðar.

Freyja og RaggaHún er líka engin krakki, orðin sex ára gömul og mjög ábyrg móðir sem gætir að sér á meðgöngu. Þessi kraftmikla og fjöruga tík lallar í rólegheitum með mér og hefur meira að segja vit á að vera ekki að stökkva fram úr rúmum og sófum að óþörfu. Enda er Freyja ein allra besta mamma sem ég hef átt og gott betur. Ég hef aldrei orðið vitni að þvi að tíkur séu eins ábyrgar mæður og hún. Ekki aðeins að hvolparnir fái frá henni ást og umhyggju, heldur er uppeldið svo markvist og ströng að hvolparnir undan henni eru afar fínir og einkar hlýðnir; Freyja kenndi sínu liði hver staða þess var og hvers þeir mættu vænta enda unun að horfa á hana ala litlu krílin sín upp. Faðirinn er Draumadrengur og mér er farið að förlast minnið ef hann heitir ekki Drauma Albert.

Ég hlakka sannarlega til að fá lítil kríli til að stússast í - eða gott betur því það er geypileg vinna að hugsa um hvolpa í tíu vikur. En ánægjan af samvistum við hvolpakríli er til þess vinnandi að leggja mikið á sig. Og svo er bara að krossa fingur og vona að allt gangi vel.


Fátt er svo með öllu illt að... - lífið heldur áfram og gleðin opnar rifu á glugga

 

Fátt er svo með öllu illt að ekki sé hægt að gleðjast oggulítið mitt í sorginni. Á sumarsýningu HRFÍ um síðustu helgi áttu afkvæmi Gnár minnar góðan dag; voru bæði í þremur efstu sætum tegundirnar.

 ýmislegt 2007002

 

Sifjar Erpur lúrir hjá sönnum aðdáanda, syninum á heimili þeirra tveggja.

Á deildarsíðu Cavaliereigenda eru skráð helstu úrslit í í keppni á milli þessara dásamlega fallegu hunda. Þar má  meðal annars sjá eftirfarandi:

Opinn flokkur :

1. sæti meistaraefni:

Nettu Rósar Billy, eig. Guðbrandur Magnússon, rækt. Halldóra Friðriksdóttir

 

2. sæti meistaraefni Sifjar Erpur, eig. Guðmundur Jónsson, rækt. Bergljót Davíðsdóttir.Wink

 

3.sæti Sperringgardens Catch Of The Day, eig. María Tómasdóttir, rækt. Leni Louise Nyby

 

4. sæti Óseyrar Beykir, eig. Guðlaugur Guðmundsson, rækt. Hugborg Sigurðardóttir.

 

Úrslit - bestu rakkar tegundar

  1. Meistarastig Nettu Rósar Billy
  2. Eldlilju Bubbi
  3. Sifjar Erpur:LoL

Sifjar Medúsa Eir er eins og Erpur undan Medúsa fyrirsætaGná minni. Þau eru úr sitt hvoru gotinu en allir hvolpar undan Gná hafa verið með fallegri  hvolpum. Gná er mín fallegasta tík og í miklu uppáhaldi há mér þar sem hún er fyrsta tíkin sem ég eignaðist undir eigin ræktunarnafni. Og ég syrgi það að fá ekki fleiri hvolpa undan henni. Auk þess sem hún er með einstaklega ljúft skap. Mérrþykir slæmt að eiga ekki kost á fleiri hvolpum undan henni en Gná mín hefur ekki heilsu til að ganga með fleiri.

En rétt eins og Erpur gerði Medúsa Eir það gott, nákvæmlega eins og hennar er vandi síða hún sótti sína fyrstu sýningu og varð þá valin annar besti hvolpur sýningar 6-9 mánaða. Nú ári síðar sigraði hún í sínum flokki og fékk meistaraefni; hélt áfram upp í opinn flokk og raðaði þar eldri og reyndari tíkum á eftir sér því hún var valin þriðja besta tík tegundar.Flottur árangur það en Medúsa Eir hefur verið með' á nánast öllum sýningum síðan hún var smáhvolakríli og og alla tíð raðað sér í efstu sætin. Ef allt gengur eftir á Medúsa Eir eftir að gera það gott.

 

Myndin hér að ofan er af Medúsu EiDSC01953r en Vilja Jörð er hér að neðan.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Unghundaflokkur -tíkur

1.sæti meistaraefni :

Sifjar Medúsa Eir, eig. Steingerður Ingvarsdóttir, rækt. Bergljót Davíðsdóttir.Happy  

 

2..sæti Hnoðra Nala, eig. Arna Sif Kærnested, rækt. Þórdís Gunnarsdóttir   

3.sæti Hnoðra Nótt, eig. og rækt. Þórdís Gunnarsdóttir

4.sæti Eldlilju Daníela, eig. Sigríður Kjartansdóttir, rækt. Þórunn Aldís Pétursdóttir

Úrslit – bestu tíkur tegundar

  1. Leelyn Lillian
  2. Skutuls Karitas
  3. Sifjar Medúsa Eir W00t 
  4. Óseyrar Gríma   

Dömurnar lengst til hægri eru systurnar Medúsa Eir meistaraefni og Vilja Jörð sem ég er svo lánsöm að eiga en hún er í fóstri hjá góðri vinkonu. Systurnar eru mjög líkar en Medúsa  Eir er fyrri til og því nokkuð þroskaðri og þar með komin með meiri fyllingu í andlitið. 

Embla mín er hér að neðan til vinstri en ég kalla hana gjarnan fallegustu stelpuna á ballinu eins og forsætisráðherra vor og virðulegur landsfaðir orðaði svo eftirminnilega og klaufalega um árið. Á myndinni er hún ung; líklega sex til átta mánaða og afar efnileg. Hún hefur flest sem prýða má fallega tík nema hún er í stærri kantinum og er of háfætt. þó hefur hún svo marga augljósa kosti umfram ókosti að það er ekki nema sjálfsagt að rækta undan henni; ekki síst fyrir að Embla er heilsuhraust og afar geðgóð tík sem er kannski ekki annað en dæmigert fyrir tegundina. En samt; hún er enn ljúfari.

Embla UngÞessi úrslit glöddu mig mjög, en bæði eru þau Medúsa Eir og Erpur undan Gná minni sem því miður getur ekki eignast fleiri hvolpa. Sjálf á ég mjög fallega tík undan Gná, en hún heitir Vilja Jörð og er í fóstri hjá vinkonu minni.

 

 

Vilja Jörð hefur ekki verið sýnd eins mikið og Medúsa Eir en þær eru gotsystur og má vart á milli sjá hvor er fallegri. Vilja mín er þó smágerðari og ekki eins bráðþroska og Medúsa Eir. Ég hef því ekkert verið að flýta mér með hana því ég vil að hún sé almennilega þroskuð og nægur er tíminn. Hún hefur þó verið sýnd einu sinni og var þá í öðru sæti á eftir Medúsu Eir, ef ég man rétt.

En Vilja Jörð á framtíðina fyrir sér og bíðið bara; hún á eftir að gera það gott ef rétt er að staðið.

Embla er ekki enn farin að lóða en ég hélt í fyrri viku að hún væri að byrja. Það hefur ekki reynst rétt og ef ég hugsa það betur þá eru allt að átta mánuðir á milli lóðaríia hjá henni.. Ég hef augastað á Kjarna Galdri sem er í eigu bróður míns, Ásgeirs eða réttara sagt Jöru konu hans. Ég reyndi að para hann við Freyju mína en hann hafði ekki kjarkinn til að ganga alla leið, þó að hún stæði eins og stytta með rófuna langt til hliðar og biði.En það er aldrei að vita nema honum lítist á Emblu og því sjálfsagt að reyna enda Galdur fæddur til að para Emblu því hann hefur nákvæmlega það sem hana skortir.

Bæði Erpur minn og Medúsa Eir eru afar heppin með eigendur sem láta sér mjög svo annt um þau og eru dugleg vað sýna þau.

Steingerður Ingvarsdóttir í Mosfellsbæ er eigandi Medúsu minnar og Guðmundur Jónsson og Margrét eiginkona hans, sem nú búa í Hafnarfirði en eru bæði innfæddir Grundfirðingar og bjuggu þar til að byrja með þegar Erpur varð þeirra..

Ég óska þeim innilega til hamingju með árangurinn.


Vald er vandmeðfarið - líf, dauði og táraflóð.

Birta Gná og SmáriSnæ Birta:

fædd 3 mars 1999 -  dáin 4. júní 2008

Síðan mín www.sifjar.is er í lamasessi hjá þeim sem vista hana og ég kemst ekki til að uppfæra hana því eitthvað gengur þeim illa að laga það sem þarf til. Þess í stað skrifa ég um hundana mína hér en það er meira en lítið að frétta.

Hún Birta mín er öll; hún kvaddi okkur í hjónarúminu með steinbítsstrengseli í kjafti. Ég segi það dagsatt að erfiðara daga hef ég ekki lifað frá því ljóst var að hún var verulega þjáð af slitgikt sem herjaði á hana víða og hafði meðal annars skekkt á henni bakið.

Þessi mynd var tekin síðasta daginn sem hún lifði. Gná yfirgaf hana ekki og Smári dóttursonur minn notaði hvert tækifæri til að kjassa hana og kveðja.

 

Hún var hætt að ganga að ráði en lá mikið á planinu fyrir framan hús á daginn; sú eina sem fékk að fara út að framan enda var hún Drottningin með stórum staf.

Fyrir tveimur þremur mánuðum fór sú gamla í langt ferðalag með einn þegna sinna; sum sé ein tíkina. það var hennar uppáhalds stríðni að stökkva upp um leið og einhver slapp óvænt út um framdyr að taka þær með sér í leiðangra og gera mig vitstola úr hræðslu.

Þá tók Drottingin mín sprettinn og stjórnaði og það var eins og jörðin hefði gleypt þær á augabragði; ég fann þær sjaldnast fyrr en þær hunskuðust heim aftur eins og hundar af sundi dregnir skítugar upp fyrir haus og að niðurlotum komnar af þreytu.

Síðasta mánuðinn áður en ég fór með hana til læknisins í rannsókn fannst mér hún ansi dauf og það leyndi sér ekki að hún kenndi til einhverstaðar í skrokknum. Ég vissi að hún væri með gigt og ekki óeðlilegt en taldi það ekki alvarlegt. Hún kjagaði stundum þessi elska og fór ekki hratt en hún var nú orðin níu ára og dulítið þung á sér að auki.

Eitt kvöldið kallaði ég á hópinn og bauð í okkar daglegu gönguferð; þær vita nákvæmlega hvenær ég er til og fylgjast grannt með mér. Þær komu því fjórar og hoppuðu og skoppuðu úr gleði. Ég kallaði til Birtu minnar en hún var ekki við að hreyfa sig, eins mikið og hún elskar útiveru.

Kallaði á Magnús og sagðist halda að eitthvað væri að. Hann stökk upp úr stólnum og fram í eldhús þar sem hún var að burðast við að setjast upp en féll alltaf aftur niður. Þá gerði ég mér ljóst að eitthvað meira væri að en elligigt. En hörkutólið mitt hætti ekki fyrr en hún komst á fjórar fætur og gat haltrað með mér út.

Eftir gönguna var hún skárri og hélst næstu daga en eftir að hafa fylgst vel með henni sá ég að ekki væri um annað að ræða en fara með hana til læknis og láta skoða hana. Rannsókn sýndi að hún var illa haldin af slitgigt sem var hreinlega bein i bein og því afar þjáð.

Ég var ógurlega áhyggjufull þann dag og innst inni vissi ég hver dómurinn yrði. Hanna dýralæknir útsýrði síðan fyrir mér hver staðan væri og það væri ekki mannúðlegt að láta hana lifa svona en mín væri ákvörðunin. Birta mín var mér meira virði en svo að ég gæti lifað við hún væri meira eða minna illa kvalin.

Á meðan ég var að taka ákvörðun um hvenær, hvar og hver aðstoðaði hana við að hverfa úr þessum ljóta heimi þá var grátið út í eitt á heimilinu. Ég mátti ekki horfa í brúnu tryggu augun hennar þar sem hún dillaði skottinu til mín öðruvísi en bresta í hágrát.

Það leið vika frá úrskurði og þar til hún var öll. Ég fór með hana í göngu nokkru sinnum á dag og tveimur dögum eftir mátti ég bera hana heim úr göngu. Síðasta daginn var þessi elska hins vegar eldspræk og gekk með okkur öllum og fór inn  í hvern einasta garð til að þefa; hún var kveðja. Gná mín sem er dóttir hennar vék ekki frá móður sinni og gekk á sama hraða og beið í hvert sinn sem hún fór inn í garð. Hreyfði sig ekki fyrr en hún hafði skilað sér. Þann dag hamaðist Gná líka á útidyrunum og vildi út á plan til hennar. Nokkuð sem henni hefur aldrei dottið í hug að biðja um því hún veit að það er bannað að fara út um framdyrnar.

Ég hleypti henni út og í stað þess að mamman tæki dótturina með í leiðangur eins og hún var vön ef hún slapp óvart út, lá hún róleg við hlið hennar allan daginn og hreyfði sig ekki fremur en Birta mín.

Steinunn dýralæknir var væntanleg eftir kvöldmat og ég ætla ekki að reyna að lýsa líðan minni á meðan ég beið komu hennar. Birta mín lá á eldhúsgólfinu eins og hún er vön og dillaði rófunni sinni og það birti yfir brúnu augunum hennar þegar ég  talaði til hennar. Og ég grét bara enn meira eftir því sem rófan hennar hreyfðist hraðar.

Það þarf ekki að nefna það að Steinunn, blessunin vann sitt verk sð mikilli alúð. Við fórum með Birtu mína inn í hjónarúm það er hennar bæli og ég og Ragnheiður dóttir mín strukum hhana alla og nudduðum á meðan hún kjammsaði á sínu uppáhaldi.  Tárin flutu og þessi elska gaf sér tíma til að sleikja þau á milli þess sem hún reif í sig steinbítinn. Ég strauk henni, klappaðo og klóraði undir óstinni þangað til hún lognaðist útaf og talaði blíðlega til hennar. Fór síðan fram og það var grátur og gnístran tanna frammi. Öll grétum við í kór og á meðan ég skrifa þessi orð get ég ekki hamið tárin.

Nú hvílir hún hér nærri mér og það líður tæpast sú klukkustund sem ég ekki hugsa til hennar. Þegar ég gef hinum að borða set ég líka í hennar dall án þess að ætla það; vaninn er svo ríkur í mér. Stundum finnst mér ég sjá henni bregða fyrir en þegar betur er að gáð er það einhver hinna.

En það er ekki of sterkt til orða tekið að segja að það vanti mikið í húsið þegar Drottningarinnar minnar nýtur ekki lengur við. svið söknum hennar enn alveg ofsalega mikið.

Í gær keypti ég fallegt tré á leiðið hennar og gróðursetti í hávaðaroki. Það skipti engu. Birta átti mikið inn i hjá mér; hún gaf okkur ótrúlega mikið. Mig dreymdi í mörg ár að eignast tík af hennar tegund; þegar tíminn kom var ég svo lánsöm að fá hana hjá Jóni Ásbjörnssyni og Ernu Hrólfsdóttur sem áttu tíkina Ljúflings Freknu. Birta mín var mjög lík mömmu sinni og ömmu og Lukka systir hennar er með mjög svipaðan karakter; sumsé þær eru fáum líkar; hafa svo mikinn og stóran karakter; sjálfstæðar og klárar.

Frekna blessuð er farinn fyrir nokkrum árum en Lukka lifir í vellystingum hjá Hrefnu Hrólfsdóttur systur Ernu. Skemmtileg tilviljun en þær systur hafa verið paraðar tvisvar og voru í bæði skiptin með sjö hvolpa og gott ef ekki að kynjaskiptingin hafi verið sú sama. 

Um Birtu mína má lesa meira inn á www.sifjar.is 


The day after

Fyrir margt löngu var mér gefin bók með þessum titli í jólagjöf. Bókina las ég aldrei enda fjallaði hún um, það ég helst man, daginn eftir kjarnorkusprengju.

Þessi titill kemur fyrst upp í hugann þegar ég hugsa til jarðskjálftans sem hér gekk yfir á fyrir þremur vikum.  Hvílík martröð en fram til þessa hef ég ekki verið smeyk við jarðskjálfta; jafnvel fundist dálítið spennandi að finna fyrir því magnaða náttúrufyrirbrigði og getað talað um það næstu daga við hina og aðra hvar þeir hafi verið staddir og hvernig þeim leið þegar þeir fundu skjálftann.

En þeir skjálftar sem ég og svo ótalmargir aðrir hafa fundið fyrir, fram að þessu eru hreint ekki annað en smá núningur miðað við það þá skelfilegu upplifun að sitja inn i húsi í mestu makindum þegar allt í einu eins og hendi sé veifað brýst fram sú ægilegasta orka sem maður hefur nokkru sinni fundið og líf manns og limir eru gjörsamlega undir valdi örlagana.

Þannig sat ég við þessa sömu tölvu og ég rita þessi orð á þegar titringurinn hófst. Rétt er að geta þess að sólarhringinn áður fann ég kippi annað slagið og sumir voru jafnvel mjög snarpir þannig að gler titraði og ekki var hjá því komist að verða skjálftanna var. En ég kippti mér ekki upp við það því hér í bæ er smávægilegur hristingur ekki til að nefna. Ég kippti mér ekki upp við það og hreyfði mig ekki.

Þennan föstudag sat ég einnig sem fastast þegar lætin hófust; bjóst við að um venjulegan skjálfta væri að ræða. En ég varð þess skjótt vör að það var eitthvað miklu meira á ferðinni en vanalega. Áður en ég gat snúið mér við þá nær féll yfir mig bókaskápur við hlið mér fullur af möppum með heimilisbókhaldi síðustu tíu ára eða svo. Skápurinn stóð af sér skjálftann en fleygði úr hillunum möppunum yfir mig. Húsið hristist og skalf dinglaði til og frá og hlutir féllu af skrifborðinu.

Ég varð ofsahrædd og sá fyrir mér mynd af annarri löpp minni sem aðeins var sýnileg í spýtnabraki þegar húsið hafði jafnast við jörðu. Ruslaði af mér möppunum og öðru smálegu og kallaði á hundana. Það eina sem komst að var að koma mér undir dyrastafinn og ég skreið á meðan bækurnar úr hillunum handan við mig hrundu yfir mig. Undir dyrastafinn komst ég loks og tíkurnar hnipruðu sér fast að mér. Ég man ekki hvað ég hugsaði annað en ég var þess nær fullviss að ég slyppi ekki lifandi frá þessu. 

En jafn skyndilega og þessi hörmung hófst, stöðvaðist allt. Og ég æpti á hundana út, út. Greip páfagaukinn og hljóp yfir pallinn og út í garð, en kötturinn var hvergi sjáanlegur. Allt var undarlega hljótt og eitt augnablik rann í gegnum hugann hvort ég hefði verið ein í þessum skjálfta. Greip símann á á borðinu á pallinum og hringdi í 112 og spurði hvort ég væri nokkuð að ímynda mér; hafði ekki verið jarðskjálfti? 

112 röddin var ekki alveg með á nótunum og sagði að slökkvibílinn væri áleiðinni! Taldi mig konu sem hafði hringt á slökkvibílil skömmu áður. Hann var nefnilega ekki búin að frétta af skjálftanum. En svo kom upp í mér fréttamaðurinn og ég fór af stað í einu taugakasti til að líta á ummerki í næstu húsum. Menn voru í sjokki rétt eins og ég en samt var allt hljótt; það heyrðist ekki í bíl, engir hamarslættir úr nýbyggingunum næst mér. Aðeins samtal okkar íbúana sem voru heima í botnlanganum mínum við Lyngheiðina. 

Ég fór aftur yfir  til mín og æddi um pallinn, út í garðinn og inn í húsið. Í hvert sinn sem ég reyndi það kom eftirskjálfti. Og það var eins og stungið væru hundrað nálum í endann á mér, svo snögg var ég að koma mér undir bert loft aftur. Skyndilega gerði ég mér ljóst að hundarnir voru hvergi sjáanlegir; ekki komust þeir út úr garðinum og ég kallaði inn í húsið en fékk ekkert svar. Ég áræddi því að fara inn og leita þeirra og auðvitað voru dýrin í einum hnapp við þvotthúsdyrnar, skjálfandi og titrandi. Af eðlislægum hvötum sínum viðist sem þeir hafi snúið inn í húsið án þess að ég yrði þess vör og sem leið lá að  þeirra vanalega útgangi  í þvottahúsinu. Það var ekki viðlit að fá þá í garðinn með mér; út skyldu þeir og það sem í þeirra huga var út í frelsið; dyrnar sem þær vanalega fara út um í gönguferðir Það eina í stöðunni var að koma þeim út í bíl.

Ég var heppin; bý líklega í vel byggðu húsi því ekki er að sjá annað en húsið hafi gefið vel eftir og það er eins heilt og það var fyrir þennan dag. Allar hurðir falla eðlilega að stöfum og skápahurðir standa ekki á sér. Skemmdir urðu hins vegar á öllu smálegu sem hrundi í gólfið niður á harðar steinflísarnar.

Nokkrum dögum síðar var ég komin af landi brott - og átti fyrir því.


"Amma það er út af andlitinu sem..."

 

Ég er mikill aðdáandi Ragnhildar Sverris, eða réttara sagt bloggsins hennar um dætur þeirra Kötu. Það verður ekki lítið gaman fyrir þær að lesa það sem mamma þeirra hefur skrifað um þær þegar þær verða eldri.

Smari med GnaÉg vildi að þessi tækni hefði verið fyrir hendi þegar ég var lítil svo ekki sé talað um myndbönd og annað sem börn samtímans eiga kost á að eiga um líf sitt þegar þau eldast.

Ragnhildur bloggaði um hundsaugu í vikunni og þar sem ég er mikil hundakona gat ég ekki þagað og skrifaði athugasemd sem var auðvitað allt of löngtog átti fremur heima á minni síðu. En það fer hér á eftir:

Hundar eru með augu sem lesa má úr skilyrðislausa ást; líttu inn á www.sifjar.is og þar eru mínir hundar sem horfa í myndavélina með einlægum hundsaugum, sem túlka ást tíkanna á mér og lesa má út úr augum þeirra "fyrir þig er ég reiðubúin að deyja."

Annars eru þessi börn yndisleg; held að dóttursonur minn sé á aldur við ykkar yndislegu dætur og ég bý við þau forréttindi að fá að hafa áhrif á uppeldi, samvistir og byggja upp karakter drengsins. Nú vanda ég mig og gæti þess að gera ekki sömu mistök og við uppeldi dætranna sem voru fleiri en ég hefði viljað.

Við matarborðið í vikunni ræddum við fótboltaæfinguna sem hann var að koma af og drengurinn talaði um vinsælan strák í liðinu. Ég spurði hvort hann væri bestur en svarið var að það væri hann ekki. "Og hvers vegna er hann þá vinsæll?," spurði fávís ég. Drengurinn sem verður átta ára í júlí hugsaði sig aðeins um og sagði: "Amma ég held ég viti það, ég uppgötvaði það í dag. Það er út af andlitinu," sagði hann og horfði íbyggin á mig.

"Andlitinu hvað meinarðu, er andlitið á þeim vinsælu örðuvísi?"

"Já, amma þú veist andlitið... "

Ertu að meina að andlitið á vinsælu krökkunum sé öðruvísi á litinn eða kannski fallegra?", spurði ég og það stóð ekki á svarinu að það væri einmitt það sem hann meinti."

Og mér varð hálfbrugðið og spurði hvort krakkarnir sem væru duglegastir að læra og stilltastir væru ekki vinsæl?  Nei, það skipti engu.

En þau sem best eru í íþróttum eða í tónlist eru þau ekki vinsæl ?

"Amma skilurðu þetta ekki, það er bara út af andlitinu," og ég spurði áfram hvort hann væri þá vinsæll. Hann varð dálítið kindarlegur og átti erfitt með að svara en sagði svo að eiginlega væri hann vinsæll og bætti svo við: "Og svo er það líka er unglingarnir tala oft við mann, þá er maður vinsæll."

Ég hef velt þessu talsvert fyrir mér og rifjað upp mína skólagöngu. Þá voru þau sem voru dugleg að læra metin og hin börnin báru ákveðna virðingu fyrir þeim. Sætu stelpurnar, þær ríku frá fínum heimilum og best klæddu voru líka vinsælar en í mínum gamla gaggó, Réttó voru þeir sem bestir voru í íþróttum langvinsælastir og skiptu litlu hvernig "andlit" þeirra var.  Ég naut þess í skóla enda æfði ég og spilaði handbolta með besta kvennaliði landsins í mörg ár; minnir að við höfum verið Íslandsmeistarar í ein tíu ár í röð hvort sem var inni eða úti. Og að vera valin í skólalið var mikil upphefð, (Agga Braga var með mér í Íþróttanefnd og í skólaliðinu). 

En að hafa það eitt sér til ágætis að vera snoppufríður finnst mér skelfileg afturþróun. Á heimi afa og ömmu sem alltaf hafa tíma til að útskýra og ræða málin hafa því farið fram miklar umræðir um vinsældir og áhrif; held að það sé aðeins að skila sér inn fyrir höfuðbein enda barnið afburða greint og vel gefið; hvað annað?

Geri mér samt ljóst að þrátt fyrir hæfileika þessa dásamlega dóttursonar til að meðtaka rök þá er við djöful að draga þegar útlitsdýrkunin er annars vegar.

Þakka þér svo Ragnhildur fyrir yndislegar frásagnir af ykkar vel uppöldu dætrum. Trúi ekki öðru en úr bloggi þínu verði hægt að draga saman texta í bráskemmtilega barnabók. Þú yrðir ekki lengi að rumpa því af svo út gæti komið fyrir jólin og afi Maggi gæti lesið fyrir barnabarnið "sögur af systrum úr Logalandi!

Tilvitnun líkur.

Við þetta vil ég bæta að vissulega var útlitsdýrkun allsráðandi á mínum yngri árum rétt eins um aldir eins og saga  mannkyns segir til um. Munurinn er þó sá að það þurfti sitthvað meira en aðeins snoppufrítt andlit til að ná athygli hinna. Andlegt atgervi var ekki síður metið auk þess að hafa eitthvað til að bera sem setti menn feti framar en hina; að skara framúr.

Kannski hefur maður bara gleymt enda eigum við ekki stílfærðar minningar um æsku okkar; maður man það sem maður vill helst muna en hefur gleymt hinu. En svo mikið er víst að snoppufríaðar stelpur og strákar áttu ekki eins angan vinsældarframa fyrir höndum og hin sem höfðu eitthvað meira til að bera.

Því skelfir það mig ef "andlitið" eitt eins og dóttursonur minn telur sig hafa uppgötvað að er hið eina sanna viðmið, þá finnst mér það ískyggileg þróun.


Gunnhildur fyrst kvenna aðalritstjóri á íslensku dagblaði

Gunnhildi óska ég innilega til hamingju og ég efast ekki um að hún muni valda stöðunni með sóma. Konur hafa fram að þessu ekki verið efstar á lista þegar til ritstjóraskipta kemur, nema þá helst á tímaritum. Dagblöðin hafa hins vegar verið afar karllæg þegar kemur að stjórnunarstöðum og þeir gjarnan settir í létt stjórnunarstörf þegar mesta fréttagreddan er fokin úr þeim.

Þeir fá þá gjarnan stöður sem eitthvað heita og eru í vinnunni svona til að sinna léttum verkum sem valda litlu sem engu stressi. Farnir heim klukkan 4 og skreppa frá þegar þeir þurfa. Veit ekki til þess að margar konur sem lengi hafa starfað í blaðamennsku og hafa ekki sömu orkuna og þær yngri til að sinna stressmiklum fréttaskrifum bjóðist slíkar stöður á góðum launum.

Margir ritstjórar gera sér ljóst hve mikill akkur er í að hafa reynslumikla blaðamenn í starfi en reynslan kemur ekki nema með árunum. Margar konur yfir fimmtugt eru afar vel tengdar, kunna vel til verka og geta hlaupið í hvað sem er og sinnt með sóma. Þær kunna fagið og vita hvernig best er að vinna.

Konur eru því ekki síður nauðsynlegar fyrir þekkingu sína og tengsl inn í stjórnmálaheiminn og þjóðfélagið almennt. Reynslumiklar konur sem aðeins eru farnar að grána eiga alls ekki að hverfa af ritstjórnum vegna of mikils álags, heldur ættu ritstjórar að sjá sóma sinn í að bjóða þeim streituminni störf þar sem reynsla þeirra og þekking kemur áfram að notum; í fréttaskrifum líka því það sparar ekki litla vinnu að fletta upp í heila reynsluboltanna í stað þess að þurfa að hringja hundrað sinnum til að fá sömu upplýsingar.

Því eiga konur til jafns á við karla fá að slaka aðeins frá stressinu. Þær nýtast eftir sem áður mjög vel. Yngra fólkið sem fullt er af metnað og greddu er gott í bland við hina eldri og alla hina á milli.

Þær konur sem sitja í ritstjórastólum á dagblaði eru eftir því sem ég best veit er aðeins Steinunn Stefánsdóttir aðstoðarritstjóri á Fréttablaðinu. Hins vegar var Silja Aðalsteinsdóttir ritstjóri á Þjóðviljanum fyrir margt löngu en ég man ekki hvort hún var aðalritstjóri eða annar tveggja ritstjóra. Er nær viss um að svo hafi verið.
Gunnhildur brýtur í öllu falli blað í sögu blaðamannastéttarinnar á Íslandi. Vonandi boðar það betri tíð með blóm í haga


Dáinn, horfinn harmafregn - samtímamenn að hverfa af sjónarsviðinu

Ég opna ekki svo Morgunblaðið á morgnanna að ég þekki ekki einhvern sem auglýst er að sé látinn eða hans eða hennar minnst í blaðinu.

Eftir því sem aldurinn færist yfir þá hverfa samtímamenn af sjónarsviðinu hver af öðrum. Þegar ég var tvítug þá var manneskja á milli þrítugs og fimmtugs á besta aldri; fólkið sem hélt um taumana í stjórnmálum og öllu félagslíf og stjórnaði landinu.

Þetta fólk hefur verið að hverfa hvert af öðru af sjónasviðinu undangengin ár. Nú síðustu árin er komið að eigin kynslóð; jafnaldrar og mínir, gamlir kunningjar og vinir eru farnir að týna tölunni. Nánast vikulega les ég um einhvern sem ég þekkti vel í eina tíð en hef kannski ekki haft samband við um lengri tíma enda þroskast frá hvort öðru vegna vinnu og áhugamála. Eigi að síður er manni hlýtt til þeirra sem maður hefur arkað með um götur lífsins þó um skamman tíma hafi verið að ræða .

Samfara fjölgar útförum þrátt fyrir að ég hafi ekki lagt það í vana minn að fylgja nema þeim allra nánustu og kærum vinum.

Nú í sömu vikunni  fóru tvær manneskjur sem ég þekkti mjög vel en á ólíkan máta; hvert úr sinni áttinni. Önnur var mér mjög tengd; greindist með krabbamein í lok árs. Síðan hefur allt verið gert sem hægt var en án árangurs. Ég hef ekki enn áttað mig á að hún sé farinn þrátt fyrir að frá upphafi væri ljóst að mín elskulega Unnur myndi fyrr en síðar þurfa að gefast upp. Ég sakna ég hennar sárt. Hin manneskjan  er skólabróðir Magnúsar úr viðskiptafræðinni, árinu yngri en hann ef ég man rétt. Ég  kynntist honum, í gegnum íþróttirnar í gamla daga og hef þekkt hann í yfir fjörutíu ár.

Örn Guðmundsson hét hann og féll frá án þess að hafa kennt sér nokkurs meins áður; féll niður án nokkurs fyrirboða og var allur tveimur dögum síðar. Í hálsi hans hafði stíflast æð sem lokaði fyrir blóðstreymi upp í heila. Hann hefði trúlega aldrei náð sér þótt hann hefði lifað af. Það hefði ekki verið í anda Össa Guðmunds að eiga allt undir örðum og geta ekki spilað fótbolta einsog hann gerði fram á síðasta dag. Útför hans fer fram á morgun og ég efa ekki að hún verði fjölmenn eins marga vini og félaga Össi átti.

Mér finnst þetta ógnvænlegt; minnir mig á að það fer að koma að mér sjálfri og mínum kærustu: hef alltaf haft það á tilfinningunni að ég verði ekki langlíf.

Minningagreinarnar í Mogga eru nokkurs konar "stadus symbol". Sá sem skrifað er um af sem flestum; einkum þeim virtu og frægu í samfélaginu standa upp úr í augum hins almenna lesenda; þessi, hlýtur að hafa eitthvað til brunns að bera enda skrifa um hann landsþekktir menn..

Ég hef því haft vaðið fyrir neðan mig til að fá smá uppreisn æru eftir dauðann og gert samning við tvo vina minna í rithöfundarstétt að þeir skrifi um mig og ég um þá; eða þannig. Það ætti að lyfta manni aðeins upp úr meðalmennskunni - eftir að maður er dauður enda ekki seinna vænna.


Spjallvefur BÍ kominn í gagnið á ný - blaðamenn og aðrir fjölmiðlamenn af stað nú!

Vefurinn hefur legið niðri í að minnsta kosti tvö ár eða allt að því. Nú hefur hann loks verið tekinn í gagnið á ný og er nú lokaður öðrum en þeim sem sækja um að aðgang. Það er ekki einu sinni hægt að skoða umræður nema vera skráður notandi.

Ekki veit ég hverjir eru þess verðir að fá inngöngu en víst er að það eru fleiri en félagsmenn BÍ. Hver fer yfir beiðnir og samþykkir og hafnar eftir atviku og á hvaða forsendum, veit ég ekki en mér finnst í öllu falli gott að það skuli vera aðeins hömlur á þessu því þannig verður kannski hægt að ræða málefnalega og með kurteisi um það sem brennur á blaðamönnum að tjá sig um og skiptast á skoðunum um málefni stéttarinnar og almennt um fjölmiðlun eins og hún hefur þróast undanfarin ár. 

Ég fanga því að fá spjallvefinn aftur og skora á fjölmiðlamenn að vera duglega að tjá sig inn á spjallinu. Það er ekkert hallærislegt við það en það er ekki laust við að sumum finnist þeir setja niður með að taka þátt í umræðum á opnum spjallvefjum.

Það ætti enginn að setja það fyrir sig nú því press.is er aðeins fyrir útvalda... eða því sem næst þótt ég hafi raunar ekki hugmynd um það. En það er þess virði að láta á reyna.

Og koma svo fjölmiðlamenn allir sem einn og fóðrið þá forvitnu á nýjustu fréttum úr fjölmiðlaheiminum.


Kraftbirtingarhljómur guðdómsins - Hannes Hólmsteinn og skáldið frá Þröm

 

Það er ekki oft sem skoðanir okkar Hannesar Hólmsteins fara saman en breytir ekki því að ég ber virðingu fyrir hans skoðunum sem í engu þurfa að vera eitthvað rangari eða verri en mínar. Hef meira að segja oft mjög gaman af honum og geri mér fullljóst að ef manna eins og Hannesar Hólmsteins nyti ekki við væri lífið og tilveran grá.

Því get ég ekki annað en lýst yfir stuðningi við hann og hans sjónarmið við skrif á bók hans um Halldór Laxnes. Skáldið hef ég dýrkað allar götur frá því ég las fyrst Sölku Völku fyrir fermingu. Komst að því  smátt og smátt þegar ég las bækurnar hverja á eftir annarri að ég hafði í mínu tungutaki margar af skemmtilegustu orðuræðum persóna hans.

Þær komu frá föður mínum sem kunni Laxness bókstaflega utanbókar og fór með langar orðræður persóna úr bókum hans eins og væru hans eigin. Hann hefur af þeim sökum verið ritþjófur mikill því úr hans munni námum við systkinin og vissum ekki annað en um ósköp venjulega íslensku væri að ræða.

Mín uppáhalds bók hefur alltaf verið Heimsljós og ég held að ég hafi aldrei hrifist eins mikið af neinni bók eins og henni. Lengi vel hreyfði ég mig ekki út fyrir höfuðborgina nema hafa Ljósvíkinginn með í för til að glugga í hana fyrir háttinn. Bókin var af þeim sökum orðin nokkuð þvæld upplesin. Ragnheiður systir mín gaf mér því nýja útgáfu áritaða af skáldinu sjálfu sem þá var orðin fjörgamall og ég held helst að hann hafi ritað ekki löngu fyrir andlátið. Það var Duna sem gerði systur minni þann greiða.

Bókina þykir mér mjög vænt um; ekki endilega vegna áritunarinnar heldur vegna væntumþykju  sem ég þykist skynja að baki gjafarinnar.

Þegar Háskólaútgáfan gaf út fyrir nokkrum árum bók byggða á dagbókum skáldsins frá Þröm í samanburði við Heimsljós Laxness var ég snögg að ná mér í hana og lesa upp til agna.

Í bókinni sem höfundurinn, Sigurður Gylfi  Magnússon gefur titilinn: Kraftbirtingarhljómur guðdómsins er birt sýnishorn úr persónulegum gögnum Magnúsar Magnússonar - dagbók hans, sjálfsævisögu og bréfum. Magnús var eins og menn vita fyrirmynd Ólafs Kárasonar Ljósvíkings. Mest kom mér á óvart að Kraftbirtingarhljómur gudómsins; þau mögnuðu orð sem lýsa hugarástandi Ljósvíksins eru ekki frá Halldóri Laxness komin, heldur hefur Magnús þau sjálfur um upplifun sína og er að finna í dagbók hans. 

Í gegnum árin hafði ég ýmislegt heyrt um vinnubrögð skáldsins og þeir sem ekki höfðu á honum miklar mætur spöruðu ekki lýsingarorðin þegar þeir með fyrirlitningu sögðu að hann væri ekki neitt skáld. Bækur hans byggðust aðeins á óljósum og ljósum heimildum sem aðrir ættu. Hann hefði ferðast hafði um landið og fengið dagbækur og ýmis gögn frá fólki um horfna ættingja þeirra eða vini. Og því væru sögur hans ekki hans eigin hugarfóstur.

Hvað sem því líður þá er það skáldið sem fært hefur í stíl og það er það sem skiptir máli.

Ég varð því meira hissa en að ég yrði fyrir vonbrigðum við lestur Kraftbirtingahljóm guðdómsins. Því svo var að sjá og raunar sýnt fram á með rökum og samanburði á efni beggja, Halldórs og Magnúsar að Laxnes hafi nýtti sér heimildir ótæpilega við samningu Heimsljóss.

Heilu síðurnar eða jafnvel kaflarnir úr dagbókum Magnúsar Hjaltasonar rata inn á síður Heimsljóss. Lesendur geta á engan hátt áttað sig á öðru en um sé ræða stílbrögð skáldsins. Engin merki eru um að efnið sé úr annars manns penna.

Fyrir mig var þessi lesning mjög fróðleg og ég hafði mikla ánægju af að kynnast frumheimildunum að Heimljósi.

En ég áttaði mig einnig á að Magnús sjálfur var einstakur maður sem hefði getað náð langt ef hann hefði ekki fæðst á kolröngum tíma. Líf hans var ömurlegt svo ekki sé fastar að orði kveðið og hann átti alla tíð á brattann að sækja. Hann bæði fæddist snauður af heimsins veraldlegu gæðum og hvarf á vit almættisins.

Ég hefði gjarnan viljað að Magnús hefði af því spurnir hve mikið hann raunverulega lagði að mörkum fyrir komandi kynslóðir með ritun dagbóka sinna. Vona sannarlega að hann hafi fylgst með þeirri ánægju sem bara ég:aðeins ég ef haft af lestri Heimsljóss sem hann á svo ótrúlega mikið í sjálfur.

Magnús Hjaltason Magnússon hefur síðan verið mér mikið umhugsunarefni. Hann ólst upp og lifði í sama umhverfi og ég fæddist í vestur á fjörðum en frásögn hans gefur  ótrúlega innsýn í hugsunarhátt og líf fólks í kringum aldamótin síðustu. Sem raunar er minn uppáhaldstími í sögunni en mig þyrstir óstjórnlega að vita sem mest um hugsunarhátt og líf fólks á því tímaskeiði. Hvers vegna hef ég ekki hugmynd um.

Þegar fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel og ég skrýðist hlýjustu afurðum dýra jarðar, þá er mér oftar en ekki hugsað til Magnúsar sem illa klæddur og háfsklólaus, gekk yfir heiðar og fjöll til að freista þess að ná í matarbita fyrir svanga munna heimafyrir.

Halldór Laxness er mitt uppáhaldsskáld eftir sem áður og aðdáun mín á honum  er söm. En eigi að síður er ekki hægt a varast að spyrja sig þeirra spurninga að hvaða niðurstöðu Hæstiréttur Íslands hefði komist ef eftirlifandi afkomendur Magnúsar hefðu stefnd Laxness fyrir ritstuld þegar Heimsljós kom út.

Eftir því sem ég veit best átti Magnús aðeins einn afkomanda, dóttur sem ég kynntist síðar. Hún nú látin en hét Ásdís og á afkomendur en hún var orðin fullorðin þegar fundum okkar bar fyrst saman. Hvort þeir gætu eitthvað gert nú veit ég ekki en Landsbókasafn Íslands eignaðist eftir daga Magnúsar það sem hann hafði ritað og er það varðveitt þar.

Ekki veit ég fyrir fullvíst hvernig reglum á fyrri hluta síðustu aldar var háttað um aðgang að efni Landsbókasafns. Hvort að hver sem er hafi haft óheftan aðgang að gögnum sem þar eru varðveitt en svo mikið veit ég að enginn gengur þaðan út með frumgögn og þegar Halldór Laxness ritaði Heimsljós voru engar ljósritunarvélar til. Hann hefði ekki getað skrifað bókina án dagbóka Magnúsar.

Enn Laxnes lagði ávalt mikla vinnu í sín verk og því líklega setið löngum stundum á safninu við endurritun efnis.

Dómur Hæstaréttar nú yfir Hannesi Hólmsteini er gjörsamlega út í hött; í það minnsta viðurlögin við meintum ritstuldi og stingur gjörsamlega í stúf við vinnubrögð skáldsins sjálfs. Spurning hvort pólitískar skoðanir afkomenda Laxness hafi eitthvað með það gera að út í málaferli var farið.

Í mínum huga er náðargáfa eins og skáldskapur langt yfir stjórnmál hafin. Því miður virðast menn láta stjórnast af pólitískum skoðunum fremur en að almennri skynsemi og dýrkun við Mammon. Vona að listrænir afkomendur Laxness lofi okkur í versta falli að njóta þess sem aurarnir hans Hannesar gefa þeim.


Maður getur ekki einu sinni dáið - bankinn á mann með húð og hári!

Fyrir tíu árum tók einn ættingja minna þriggja milljón króna lán í Landsbanka Íslands. Á þessum tíu árum er hann búinn að greiða um það bil fjórar milljónir til baka. Lánið stendur hins vegar í: 3.524.994.- en fimmtán ár eru enn eftir af greiðslutímanum.

Afborgun af nafnverði er tæpar sjö þúsund krónur á mánuði en mánaðarlega greiðir hann um 33.000 og hefur gert undanfarin tíu ár enda um lán með annuitets afborgun að ræða. Yfir 25. þúsund er því beinn kostnaður sem bankinn hirðir. Dæmið lítur svona út:

Afborgun af nafnverði kr.             6.956.-

Afborgun verðbóta                      3.595.- 

Vextir                                         13.615.-      

Verðbætur V/ vaxta                      7.748.-

Tilkynninga - og greiðslugjald          595.-

Samtals:                                    32.873.- 

 

Upphafleg fjárhæð                2.900.000-

Uppreiknuð                           4.550.329.-

Eftirstöðvar nafnv.                2.253.493.-

Áfallnar                                 1.278.457.-

____________________________________ 

Eftirstöðvar                         3.524.994.- 

 

Vextir á þessu láni þóttu mjög hagstæðir eða 7,25%: þrátt fyrir tiltölulega lága vexti miðað við það sem hér gerist, þá á greiðandinn eftir að greiða yfir fimm milljónir af láninu en það kostar sem sagt tæpar níu milljónir að fá að láni 2.900.000.

Dóttursonur okkar hjóna verður átta ára í sumar. Þegar hann fæddist opnuðum við bankareikning á hans nafni og þangað inn hefur lungað af þeim peningum sem honum hafa áskotnast þessi átta ár farið. Yfirlit frá bankanum kemur árlega og þar má sjá hvað bankinn greiðir drengnum fyrir lánið. Og það eru ekki háar fjárhæðir. Er að furða þó bankarnir græði!

Ég veit vel að það verður að vera vaxtamunur á milli inn og útlána; ég veit líka að segja má að fyrir þessar 2.9 milljónir hefði verið hægt að kaupa eitthvað sem kannski hefði margfaldast í verði. Það er ekki spurningin heldur sannar dæmin hér að ofan að bankarnir okra óhugnanlega á landsmönnum: og við látum það viðgangast að vera tekin ósmur.... í rass... af bönkunum án þess að æmta né skræmta.

Þeir halda manni í helgreipum sínum og þeir sem hugsanlega vildu að hreyfa sig á milli landa standa pikkfastir. Bankinn á bílana á heimilinu, húsnæðið og í sumum tilfellum ( þökk sé kreditkortunum ) innanstokksmuni, klæðnað og mat sem menn láta ofan í sig.  

Hvernig eiga menn að komast burtu frá gengistengdum lánum. Bilverðið er langt undir því sem hvílir á flestum nýrri bílum landsmanna. Því eru þeir sem hafa látið bankana hafa sig að fífli og keypt í kapp við mann og annan á eyðslufylleríi undangengina ára í átthugafjötrum og geta ekkert gert nema haldið áfram að vinna og borga.

Í fyllist svo miklum óhug við þær staðreyndir sem blasa við manni þessa dagana. Maður getur ekki einu sinni dáið frá þessu öllu því það bitnar aðeins á þeim sem næst manni standa. Bankinn gefur engum neitt; hann nær í sitt í gegnum Intrum og kröfuvaktina sem eltir menn heimsálfa á milli.

En lærdómurinn sem menn geta dregið af eyðslufyllerí undangengina ára, er vonandi þess eðlis að fólk sjái að það er hægt að lifa án hlutana sem nú eru að kaffæra hvern mann á eigin heimilum. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband