6.9.2008 | 15:03
...og svo tuða ég ekki oftar um þessa kerru Magnús!
Ég minntist á í síðustu færslu árlega "Blómstarandi daga" sem jafnan eru haldnir með miklum bravör hér í Hveragerði aðra eða þriðju viku í ágúst.
Í ár var mikið um að vera og bænum sem stækkað hefur ört á þessum tveimur árum sem ég hef búið hér, var skipt í þrennt og skreyttu menn garða sína og hús í litum sem við áttu. Austurbærinn var blár Norðurbærinn rauður og Suðurbærinn þar sem ég bý var úthlutað bleikum lit. Annars er ég ekki með áttirnar alveg á hreinu, Austurbærinn er í austur frá mér, svo þess vegna gæti ég allt eins verið í Vesturbænum
Hvað sem áttunum líður þá var gaman að fylgjast með stemningunni í bænum fyrir þessa helgi; maður fann fyrir samhug bæjarbúa sem allir lögðust á eitt að fegra og skreyta en hér eru garðar við hvert hús enda skilyrði fyrir gróður í Hveragerðir einstakur eins og menn vita.
Það sem ég fann helst að bænum þegar ég flutti fyrir tveimur árum var hirðuleysi sumra bæjarbúa sem létu hús sín drabbast niður og annarra sem hirtu ekki garða sína eða og girðingar. Það pirraði mig því mér finnst skömm af slíkum slóðaskap. Á höfuðborgarsvæðinu stingur verulega í augu ef einn garður við götu er ekki hirtur; almennt eru húseigendur stórborginni og bæjunum í kring duglegir að sinna eignum sínum eða öllu heldur smáborgarinn í þeim svo sterkur að þeir skera sig ekki úr. Það vill enginn fá á sig stimpilinn; "fyllibyttur" eða "óreiðufólk."
Gjörbylting hefur verið á þessum stutta tíma og ég hef mína skýringu á hvað valdi hugarfarsbreytingu íbúa. Og það kemur pólitík ekkert við án þess að ég vilji gera lítið úr vilja bæjaryfirvalda til að sýna gott fordæmi því það hafa þau sannarlega gert.
Ég er þess fullviss að áhrifa gætir frá nýjum Hvergerðingum en margir þeirra sem hingað hafa flutt er við ágæt efni, eða vel menntað, nema hvoru tveggja sé.. Fólk sem kosið hefur að búa hér og ala upp börn sín í litlu samfélagi í stað þess að þvengjast höfuðborgarsvæðið enda á milli með börn í íþróttir tónlist eða hvað annað í umferðarstressi og pirringi.
Þetta er fólk sem áfram vinnur í á höfuðborgarsvæðinu en ekur á milli til og frá vinnu. Fólk sem kaus að veðsetja ekki líf sitt og limi fyrir lífstíð bönkunum, heldur seldi sína blokkaríbúð í góðærinu og keypti sér einbýli fyrir sama verð hér.
Fjölgunin sem átt hefur sér stað hér hefur gert það að verkum að Hveragerði er ekki eins eintóna bær eins og hann var. Með nýju fólki flýtur með tekjuhátt og vel menntað fólk með annan þankagang.
Með þessari fullyrðingu ætla ég alls ekki að gera lítið úr neinum; vissulega eru þeir sem hér hafa búið fyrir ekki neitt ómenntað pakk. Allflestir duglegt, ábyrgt og hirðusamt fólk. En það er ekki hægt að mótmæla því að Hveragerði og Selfoss hafa verið á svokölluðu láglaunasvæði.
Ég hef ekki hugmynd um hvort útsvarstekjur pr. íbúa hafa hækkað hér og því er þessi vissa mín ekki bundin neinum rökum; aðeins tilfinningu. Hún segir mér að þeir aðkomnu hafi haft áhrif á þá sem fyrir voru og það til góðs. Manneskjan er nefnilega með þeim ósköpum gerð að staðna ef ekki blása um hana ferskir vindar og festast í því umhverfi sem hún býr í. Verða þar með ónæm fyrir nánustu grennd.
Og það er ekkert óeðlilegt við það. Öll getum við horft yfir skóginn og án þess að sjá hann fyrir trjám. Við drögum dám af hvort öðru og ef Jónas á horninu fer að trassa að slá og klippa, finnst Gunnu handan við hann, ekkert liggja á að fara út og rífa upp arfa. Og smátt og smátt... já það þarf ekki að útlista nánar hvað gerist.
Að sama skapi bregðast menn við, á hinn veginn; Suð í sláttuvél í næsta garði fær mann til hvarfla huganum að eigin vél í bílskúrnum
Ég hef hitt marga nýflutta í gönguferðum mínum um bæinn með hundana mína. Hundaeigendur eru nefnilega þeirrar gerðar að ganga ekki þegjandi framhjá þegar þeir hittast, heldur taka tal saman. Samtal sem hefst á tali um dýrin leiðist út í eitthvað allt annað. Maður er manns gaman og það er einn af kostum þess að eiga hund að njóta oft skemmtilegra samræðna og verða um leið málkunnur fólki sem maður hefði annars aldrei kynnst.
Með fjölgun íbúa í Hveragerði undanfarin 2-4 ár hefur komið fólk með ferska gust og og lokið upp augum þeirra sem þurftu þess með. Og áhrifin eru öllum sem vilja sjá breytingarnar sjáanlegar.
Þetta rita ég á meðan fyrir utan mitt hús stendur kerra með drasli úr bílskúrnum og runnarnir fyrir framan hús eru óklipptir og að því ógleymdu að gamla skrifborðið mitt sem borið var út fyrir þremur vikum komst ekki lengra en út í garð. En í mínum huga eru ferðir á haugana eða endurvinnsluna karlmannsverk, á mínu heimili Magnúsarverk. Og svo tuða ég ekki oftar um þessa kerru Magnús!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.8.2008 | 08:59
Doktor Begga
Mitt í miklum önnum Hveragerðinga á fimmtudaginn var þar sem hver og einn íbúi var í önnum við að skreyta hús sín og garða fyrir "Blómstandi daga" sem haldnir voru um síðustu helgi og þóttu heppnast vel. En þrátt fyrir allir legðust á eitt og við undirbúning, þá var lítil cavaliertík ekki þar á meðal. Hún var heima og gekk um gólf og másaði inn á milli. Hennar stóri dagur var að renna upp og ekkert nema eðlishvötin sagði henni hvað biði hennar næsta sólahringinn.
Sylvíu Nótt var slétt sama þó bleikir. rauðir og bláir borðar fylltu alla garða; hennar líðan var ekki með þeim hætti þó að allar líkur væru á að hátíð yrði á hennar heimili innan sólahrings. Þangað til beið hennar að upplifa þá þjáningu og náttúrulegu hamingju sem hver móðir í ríki Guðs finnur svo sterkt til; að koma afkvæmum í heiminn.
Eigandi hennar Alexandra og foreldrar Þuríður og Arnar hafa um stundarsakir búið í bænum á meðan þau bíða þess að hús þeirra í Tjarnarbyggð á milli Eyrarbakka og Selfoss rísi . Elsta dóttir þeirra, Alexandra , aðeins fimmtán ára gömul ber hitann og þungan af ummönnun tíkarinnar sem er aðeins tveggja ára síðan í maí.
Ég hitti þær á göngu um daginn og eins og allir hundaeigendur, einkum þeir sem eru svo lánsamir að eiga cavalier, staldra við og spjalla um hundana sína.
Sjálf var ég með nýædda hvolpa heima en fyrir (þessir tveir hér fyrir neðan með appelsínugulum grunni eru þeirra á meðal ) andvaraleysi og klaufaskap missti ég tvær fallegustu tíkurnar tveggja daga gamlar. Ég var með Freyju mína móðurina á göngu og við spjölluðum um hundana okkar og ég sagðist vera með litla hvolpa heima. Þá kom í ljós Silja hennar átti aðeins þrjár vikur eftir í got; sitt fyrsta got með Skutuls rakka sem nefndur er Gosi en heitir klárlega eitthvað M. eins og bróðir hans Skutuls Marel heitinn, nefndur Máni. Máni minn blessaður á ekki síst þátt í hve fallegt got Gná mín kom með í fyrra, en Vilja mín og Medúsa Eir eru undan honum; sérlega vel heppnað got. Gosi er sumsé bróðir hans og þeir voru ekki síðri hvolparnir sem urðu til þegar þau blönduðu genum sínum saman fyrir tæpum70 dögum Ljúflings Sylvía Nótt og Gosi.
Ég bauð henni að hafa samband við mig og fá upplýsingar, aðstoð eða góð ráð ef hún þyrfti. Sagði henni að fletta bara upp á síðunni minni og þar gæti hún fundið út hvar mig væri að finna. Hún kannaðist við síðuna og svo kvöddust við.
Á fimmtudagsmorgun hringdi móðir hennar Þuríður í mig og sagði að tíkin væri eitthvað skrýtin og yrði líklega að byrja. Enginn var heima nema sonur hennar ungur og ég spurði hvort hún gæti ekki drifið sig heim og ég myndi þá koma og skoða tíkina.
.
Klukkustund síðar var ég komin og augljóst að sótt var að hefjast. Útvíkkun var hins þegar sáralítil og ljóst að minnsta kosti 12-16 klukkustundir yrðu í að eitthvað gerðist. Ég mældi hana og hún var í 37.1 n ég vissi bara ekki hvort hún væri á leið niður eða upp aftur.
Síðan kom ég tvisvar eða þrisvar og klukkan tíu um kvöldið átti hún enn góðan tíma í got. Ég bauð henni að hringja hvenær sem væri ef hún héldi að tíkin væri að fara af stað.
Klukkan hálf níu um morguninn eftir hringdi hún og þá var Silja litla orðin mjög óróleg og skalf öll og nötraði.
Doktor Bergljót var fljót út ; nærri því á náttfötunum og um leið og ég skoðaði hana fann ég að hún var tilbúin en fann engan hvolp niður í grind. 15 mín síðar fann ég fyrir honum og Silja vildi út að pissa . Og þar opnaðist fyrir allt og ég bar hana inn og hjálpaði henni að koma þeim fyrsta í heiminn. Myndarlegur rakki með fætur á undan leit dagsins ljós rétt fyrir klukkan 9 þennan morgun og mældist 223 grömm; Reyndist þyngstur og stærstur þeirra þegar yfir lauk.
Síðan gekk allt eins og í sögu þar til lítil tík 162 grömm kom og var greinilega dálítið slöpp. Sylvía Nótt með hvolpana sína sex hver öðrum fallegri
Og reynsla mín af því að missa mínar tvær tíkur kom sér að góðum notum þarna því nú vissi ég nákvæmlega hvað bæri að gera. Hún yrði í gjörgæslu allan sólahringinn enda var hún svo lítil að þótt hún kæmist á spena þá náði hún ekki að sjúga nema ofurlítið ofan í sig og fljótlega ljóst að hún var að byrjuð að þorna upp.
Þá fór doktor Bergljót ljósmóðir heim og náði í læknatöskuna og sprautaði undir húð; skipaði svo fyrir að húnsbóndinn yrði látin kaupa puppy boost og sendi eftir þurrmjólk heim til mín.
Síðan var dropið upp í hana hvolpamjólk á þriggja tíma fresti og þess á milli sett á spena.
Skipaði svo fyrir með valdsmannslegu yfirbragði og ljósmóðurlegu ívafi að vakað yrði yfir gotinu allan sólahringinn og ekki af því litið.
Foreldrar og dóttir skiptu með sér vöktum og nú er litla dúllan komin yfir 200 grömm. En þeir eru allir ógurlega litlir, tíkin ung og reynslulaus og það þarf að gæta þess vel að hún leggist ekki yfir þá.
Alexandra hugsar alveg óskaplega vel um litlu ungana sína sem hún á með tíkinni sinni og móður hvolpana. Það er hrein unun að sjá hvað hún er natin og umhyggjusöm aðeins 15 ára gömul.
Fyrir mig var þetta einkar ánægjulegt því fátt er skemmtilegra en taka á móti nýju lífi í heiminn; einkum þegar vel gengur. Ég lifði mig inn í þetta af fullum þunga og hélt af og til að ég væri dýralæknir með sérmenntun í fæðingum. Naut mín auðvitað í botn ; aðal sérfræðingurinn og skipaði og stjórnaði vinstri hægri.
En ég fullyrði að litlu tíkurnar hefðu ekki lifað ef þau hefðu ekki notið reynslu og þekkingar cavalierræktanda; ekki endilega að ég viti eitthvað meira en aðrir, en í þessu tilfelli var ég á staðnum; nýlega búin að ganga í gegnum sára reynslu sem var mér dýrkeypt en lærði svo sannarlega af. Það var þeirra hagur því ekki er víst að ég hefði áttað mig á hve veikburða litla krílið væri nema vegna þess að sjálf hafði ég nýlega rekið mig hastarlega á.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.8.2008 | 04:46
Afi verð ég þá að heita Olíufjörð?
Auðvitað er þetta toppurinn á fjallinu fyrir botni Haukadals í Dýrafirði þar sem ég dró mitt fyrsta andvarp á sínum tíma; Kaldbakur heitir þetta fagra fjall.
Enginn sá þó ástæðu til að setja inn athugasemd um það og kannski að sjónarhornið á fjallið hafi ekki verið þekkt af myndum. Fallegastur er Kaldbakurinn þegar horft er til hans úr mynni Haukadals þar sem hann gnæfir fjalla hæst yfir dalinn. Ég veit ekki hvaðan eða hver tók þessa mynd en sýnist að öllu að hún sé tekin frá firðinum handan megin s.s. Arnarfirði. Þar á ég einnig ættir mínar að sækja en áar mínir bjuggu á Álftamýri. Sá hluti Vigurættar var af mínu fólki nefndur Álftamýrarætt. Þegar ég var lítil stúlka minnist ég þess að það gætti nokkurs stolts í rödd þeirra þegar ættarinnar var getið.
Þið sem ekki þekkið Vestfirðina eigið mikið eftir; Landshlutinn er svo ólíkur öðrum að það er eins og að ferðast inn í nýjan heim að skoða svæðið. Við Magnús eigum sumrabústað í Tungudal við Ísafjörð í félagi við systkini hans. Þar ólst hann upp öll sumur en móðir hans flutti inn í "skóg" eins og Ísfirðingar kalla sumarbústaðasvæði sitt, á vorin og dvaldi allt sumarið með börnin á þeim dýrðarinnar stað.
Pabbinn, Magnús minn, með drengina sína, tengdadætur og afkomendur. Myndina tók Ketill eldri sonurinn. Ég var fjarri góðu gamni með litla hvolpa sem þurfti að gæta eins og demanta.
Við förum jafnan vestur á hverju sumri og oftar en ekki tvisvar til fjórum sinnum þessa fáu mánuði sem auðveldlega er hægt að aka vestur. Magnús er vestra núna með dótturson okkar sem er átta ára en þeir fara oft bara tveir. Smári heitir piltur og er farinn að þekkja leiðina vel. Um daginn óku þeir Arnarfjörðinn en drengurinn heitir Smári Arnfjörð. Afi hans sýndi honum hvar "vondir" menn vildu setja upp olíuhreinsunarstöð og átta ára guttinn spurði afa sinn hvort hann yrði þá að heita Olíufjörð. Afi kvað nei við en drengur var með á nótunum og sagði: "Afi hún amma keypti mótmælaspjald á Spáni ( það gerði ég vissulega ekki en fann vel smíðað spjald í gönguferð með hundana fyrr í sumar og tók það með mér heim.), við skrifum bara á það og förum svo öll aftur vestur og mótmælum þegar kallarnir ætla að byrja," benti hann afa sínum á.
Já, snemma beygist krókurinn, segi ég nú bara og fannst afar vænt um að barnabarnið sem við höfum að miklu leyti alið upp skuli vera svona þenkjandi. Þarf ekki að spyrja hvaðan innrætingin kemur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
... hópsálarsyndrómað leikur stundum á mig og ég fylgi eins og hinir sauðirnir. En oftar en svo er ég víst ekki eins og fólk er flest og það vitið þið mínir kæru félagar, vinir og ættingjar sem þekkið mig.
Ekki ætla ég að skýra það nánar en mig langaði minna en ekki neitt út úr bænum þess helgi, þrátt fyrir metverslunarmannahelgarveður( ég veit;orð í lengri kantinum, já). Því sit ég hér við tölvuna og enginn truflar, get bullað eins og mig lystir.
Auðvitað gat ég ekki yfirgefið litlu krílin mín sem dafna og stækka og sendi minn ekta maka vestur í Djúp í veiðiferð með litla dóttursoninn átta ára gamlan sem fer á hverju sumri einn með afa vestur. Þeir verða næstu þrjá daga við veiðar ásamt stóru uppkomnu drengjum sem eru varla neinir drengir lengur, annar sem næst fertugu og hinn rúmlega það. Og að auki langtum betur settir á andlega líkamlega og fjárhagslega en foreldrarnir. Enda af kynslóð þeirra sem veröldin beið, breiddi út faðminn og bauð velkomna
En ég værir að segja ósatt ef ég segði að ég hefði á móti að sitja úti í guðsgrænni náttúrunni í logni og hlýrri golu við Langadalsá; bara ekki um verslunarmannahelgi.
Ég ákvað hins vegar að koma öllu í stand hér heima; vantar bara eins og þrjá fjóra Pólverja af báðum kynjum til að skvera því af sem ég vil að sé gert. Ég á svo askotti erfitt með að fleygja heilum hlutum og safna því að mér hvílíku drasli að ég er að drukkna. Ef ég fengi Pólverja myndi ég bara segja þeim að fleygja því sem þeir vildu og eiga hitt og gefa það sem þeir ekki vildu.
Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég ekki að tala um Pólverja vegna neins annars en fyrir dugnað þeirra. Á sjálf tilvonandi mágkonu sem er pólsk og veit hvað ég er að segja.
Jarðskjálftinn var kærkominn að því leyti að ég losnaði við heilmikið af öllu því velmegunardrasli sem ég og aðrir fábjánar höfum verið að spandera aurum okkar í án þess að hafa nokkur not fyrir en höfum keypt vegna þess að allir hinir áttu þannig og töldum ótvírætt að við yrðum enn hamingjusamari; bara ef við ættum svona og hinsegin.
Eitt ætla ég þó að undanskilja en það er ísskápurinn með ísvélinni; það er eitt mesta þarfaþing sem ég hef eignast því ég hef aldrei drukkið minna kaffi og meira vatn en eftir þau kaup. Ekki það að ísvatn sé ófánalegt án 300 þúsund króna ísskáps, heldur kom meðfædd letin veg fyrir að ég fengi mér ísvatn svona manjúal en ekki sjálfvirkt...
Og hér heima við eldhúsborðið sit ég og get ekki annað á meðan ryksuguskepnan hefur beðið þess frá hádegi að ég dragi út barkann og fylli mig adrenalíni til að geta lokið öllu öðru sem ég þarf til að láta mér líða vel. Og nú bíður hún ekki lengur...sýnist hún hafa fært sig til og sé á leiðinni á sinn stað aftur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.8.2008 | 22:29
Þekkir þú þennnan fjallstopp ...?
Ég er að reyna að breyta toppmynd á síðu með þessum fábæra árangri sem sjá má. Ég myndi klóra mig áfram út í það endalausa í þrjóskunni og sýna fjallið í allri sinni dýrð ef ég mætti vera að því núna. Gæti nefnilega í þráakasti tekið nóttina alla.
Læt það ekki eftir mér núna og set bara gamla þemað á aftur á morgun. Þangað til læt ég þennan fjallstopp standa og spyr ykkur innipúkar landsins hvort þið þekkið toppinn?
Til þess að gefa smávísbendingu er myndin tekin frá fallegasta dal landsins ( mér finnst það en auðvita er dalurinn ekki eins í allra augum) og þetta fallega fjall er stolt síns fjórðungs.
Mjög margir ganga á þetta fagra fjall sem tiltölulega auðvelt er að komast að og er meira að segja hægt að aka góðan spöl til að stytta gönguna á toppinn en þar er feikilega fallegt útsýni.
Eftir nokkrar klukkustundir skal ég setja myndina alla inn og svala forvitni þeirra sem ekki þekkja sitt fagra land.
Bætt við kl. 01:30
Bjánin ég myndirnar eru hér til hliðar; áttaði mig ekkert á því. Þið hljótið að vita nú hvar þetta fallega fjall er staðsett á landinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.8.2008 kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2008 | 05:21
Fjölgað um fjóra á heimilinu
Í fyrri viku fjölgaði um fjóra á heimilinu. Freyja mín skilaði frá sér sex yndislegum hvolpum en því miður voru þeir slappir og þurftu sérstaka aðgæslu. Ég hef líklega verið of örugg þar sem ég hef aldrei misst lifandi hvolp og uggði ekki að mér.
Nýfæddir hvolpar eru afar viðkvæmir fyrir trekk og kulda auk þess sem þeir verða að vera vel hressir til að geta sogið spena. Tvær fallegustu dömurnar mínar lifðu ekki af og og dóu í hönunum á mér. Sú fyrr á laugardagkvöld og sú síðari eftir ha´degi á sunnudag. Helgin var mjög hlý og á á mínu húsi eru fjöldi útgönguleiða. Það þarf ekki annað en gegnumtrekk til að slái að svona viðkvæmum krílum og kannski uggði ég ekki að mér eða....? maður veit ekki.
En þeir fjórir sem eftir lifa plumma sig vel og eru hressir. Ég þarf ekki að reka mig nema einu sinni á og þess vegna er gotsins gætt eins og um gimsteina væri að ræða.
Þeir eru núna vikugamlir, nákvæmlega því þeir litu dagsljósið að morgni föstudagsins 24. júlí. Ef einhver hefur áhuga á að vita meira um þessar dýrðarinnar dásemdir er hægt að hafa samband við mig í síma 8219504 og 5656042 eða skrifa mér á bergfridur@gmail.com.
Hef verið að reyna að setja inn myndir en eitthvað er að sem ekki er á mínu færi að laga. Inn á heimasíðu minni um hundana og ræktunina sifjar.is er hægt að lesa nánar um hundana mína og sjá eittthvað af myndum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 05:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.7.2008 | 15:21
Opið bréf Geira á Goldfinger til þeirra sem hrópað hafa á torgum!
Ásgeir bróðir minn sendi mér þetta bréf sem hann skrifaði til varnar dansinum og sjálfum sér. Birti það hér í framhaldi færslu hér á undan:
Til varnar dansinum - málatilbúnaður hrakinn
Þá er loksins komin niðurstaða í meiðyrðamál sem ég höfðaði gegn óprúttnum blaðamönnum sem slógu upp fréttum um það að ég stæði fyrir mansali. Málatilbúnaður þessa fólks hefur verið með ólíkindum og svo virðist sem einhverjir aðilar úti í bæ geti farið að fjalla um fólk á meiðandi hátt í blöðum og tímaritum án nokkurrar ábyrgðar. Í grein sem birtist í tímaritinu Ísafold í fyrra var ég bendlaður við mansal án þess að nokkrar sannanir væru því til staðfestingar í blaðinu. Fjallað var um mansal og alls kyns glæpastarfssemi því tengdu og látið að því liggja að ég væri á mála hjá einhverjum glæpaklíkum og misyndisfólki.
Síðan hefur verið hamrað á þessum fullyrðingum af alls kyns fólki sem gleypir þetta hrátt og hafa þessir svokölluðu femínistar verið þar fremstar í flokki og sopið hveljur fyrir alþjóð og hrópað á torgum eins og hér sé um stórasannleik sé að ræða. Nú er komin niðurstaða sem ég vona að slái á þessar upphrópanir og níðskrif um mig og mína starfsemi. Ég hef hins vegar velt því fyrir mér, hvað ýmsum blaðamönnum og sjálfskipuðum siðferðisskríbentum gengur til að rakka niður mína persónu og mína starfsemi. Þar má sjálfsagt finna ýmsar skýringar, en oftar en ekki er um að ræða fólk sem hefur einhverja þörf á að komast í sviðsljósið sem e.k. siðferðispostular, og hefur sjálfsagt á tilfinningunni að það sé að fletta ofan af einhverri hræðilegri spillingu og jafnvel glæpastarfsemi. Þannig hefur nú verið um blessaðan ritstjóra DV og nú síðast í umræddu dómsmáli, son hans, Jón Trausta. Hann hefur sjálfsagt viljað feta í fótspor föður síns við að reyna að fletta ofan af einhverri spillingu eða einhverju þaðan af verra, og hugsað með sér: Ég get nú líka. Síðan er ég valinn sem skotmark og ekkert slegið af. Jafnvel eru dregnir inn í umfjöllunina allsendis óviðkomandi menn sem svo vill til að ég hef þurft að hafa samskipti við eða hafa komið við á staðnum hjá mér, og persóna þeirra svert með alls kyns ásökunum sem ekki eiga sér neina stoð í veruleikanum. Ég tel mig hafa nokkuð þykkan skráp í umfjöllun fjölmiðla og hef fram að þessu setið þegjandi undir öllu þessu blaðri, en vona nú að þetta fari að taka enda, sérstaklega eftir að dómur féll mér í hag í þessu meiðyrðamáli. Það er alveg skýrt þar að orðum fylgir ábyrgð og menn skuli axla þá ábyrgð, sérstaklega þeir sem skrifa í fjölmiðla. Ég vil aðeins víkja að þessu orði mansal, en það er sú ávirðing sem ég er bendlaður við, sérstaklega af þessum svokölluðu fennístum, en mansal hefur oftast verið skilgreint sem einhvers konar þrælahald þar sem óprúttnir hagnast með sviksamlegum hætti á öðru fólki og neyð þess.Það er hins vegar fásinna að dómurinn hafi ekki skilið rétt orðið mansal og dæmt út frá einhverjum öðrum forsendum en íslensk tunga segir til um. Það er andskoti hart ef einhver hópur fólks þykist geta farið að skilgreina hugtök upp á nýtt ef það fellur ekki að smekk þeirra eða skoðun og vill að dómarar taki eingöngu tillit til þeirra einkasjónarmiða og dæmi samkvæmt því. Ef það er það sem koma skal þarf greinilega að endurskoða allt réttarfar á Íslandi. Ég held hins vegar að dómarinn í mínu máli hafi skýrt og greinilega haft að leiðarljósi það sem kallað er alþjóðleg skilgreining á mansali þegar hann kvað upp sinn dóm og þess vegna geti femínistar ekki verið að blása málið út með einhverri einkaskilgreiningu sinni sem eru bara fáránlegar.
Svo virðist sem femínistar geri þetta eingöngu til að halda sjálfum sér áfram í sviðsljósi umræðunnar þó málið liggi alveg ljóst fyrir þeim sem þekkja til. Þess klausu rakst ég á, á vef Háskólans þar sem segir: Þrælahald nútímans birtist í mörgum óhugnanlegum myndum. Fólk vinnur nauðungarvinnu í verksmiðjum, í landbúnaði, byggingariðnaði og við heimilisstörf. Bændaánauð tíðkast enn, fólk verður ánauðugt vegna skulda og kynlífsþrælkun stúlkna og kvenna er útbreitt vandamál. Mansal færist í aukana og þrælahald er jafnframt algengt á átakasvæðum þar sem börnum er rænt og þau neydd til hermennsku og/eða gerð að kynlífsþrælum.
Er það eitthvað af þessu sem hér er sagt frá, sem tengist mér eða minni starfsemi? Eru þessir blaðaskríbentar að halda því fram að ég haldi stúlkum þeim sem hjá mér vinna í ánauð og kynlífsþrælkun. Það hefur alltaf legið kristaltært fyrir hvernig stúlkurnar hafa komið til landsins og að þær sækjast sjálfar í á fá vinnu hér. Oftar en ekki er það í gegn um tölvupóst sem ég fæ frá þeim að þær biðja um vinnu sem dansmeyjar og komast færri að en vilja. Svo er gefið í skyn að ég haldi úti einhvers konar kynlífsþjónustu meðal þessara stúlkna, þó ekkert sé til sem rökstyður það.
Í því sambandi mætti spyrja, hvers vegna í ósköpunum ætti ég að geta krafið stúlkurnar sem hjá mér vinna, um að þjóna viðskiptavinum kynferðislega í rými sem er u.þ.b. tveir fermetrar, þar sem er einn stóll og létt tjöld dregin fyrir? Ég er hræddur um að allt slíkt væri afar þunnur þrettándi fyrir þá sem eru í slíkum hugleiðingum. Kannski eru aðstæður sem þessar eitthvað sem þessar femínistadömur myndu sætta sig við til ástarleikja. Þá eru kröfurnar ekki miklar.
Ég vil bara taka fram að ég sæki um atvinnuleyfi fyrir allar þær stúlkur sem hjá mér vinna, greiði alla skatta og öll gjöld sem varða starfsemina og allt er uppi á borðinu. Það hefur hver sem er getað skoðað mitt bókhald og skattayfirvöld hafa aldrei séð ástæðu til að finna að neinu hjá mér. Segir þetta ekki all nokkuð? Þegar ég setti þessa starfsemi í gang hjá mér á sínum tíma var hugsun mín sú að fólk gæti komið þarna saman yfir léttri tónlist þar sem dansatriði léttklæddra stúlkna yrði í forgrunni, en ég hef ávallt verið unnandi kvenlegrar fegurðar. Þetta átti að vera menningarlegra en þetta venjulega kráarlíf þar sem taumlaus drykkja er oft meginmarkmið þeirra sem þá staði sækja. Þegar stúlkurnar eru ráðnar er ein krafan sú að þær eigi gott með að tjá sig og vera vel hæfar í mannlegum samskiptum. Þannig eiga þær að geta gengið á milli viðskiptavina og spjallað við þá um heima og geima ef þeim sýnist svo.
Þar er þó engin þvingun í gangi, þeim er alveg frjálst að tala við hvern sem er inni á staðnum um það sem þær eða þeir vilja hverju sinni. Reynsla mín eftir áralangt starf í veitingahúsarekstri er sú að sumir karlmenn eiga erfitt með að tjá vandamál sín fyrir öðrum og í sumum tilfellum er sjálfsmynd ekki nógu sterk vegna erfiðrar lífsreynslu, t.d. eftir skilnað og fleira. Þessir menn koma oft á staðinn til mín og finnst gott að geta tjáð sig um sín vandamál eða áhugamál við stúlku úr fjarlægum heimshluta, og í framhaldi myndast vinátta og traust sem er aðeins milli þessara tveggja einstaklinga. Þessir menn koma svo gjarnan aftur vegna góðrar reynslu og ánægjulegra samskipta sem þeir áttu við stúlkuna sem þeir ræddu við síðast og geta áfram létt af hjarta sínu.
Af skrifum femínista er að skilja að þessi mannlegu samskipti eigi ekki upp á pallborðið hjá þeim og vilja gjarnan setja reglur um þessi samskipti, svo fáránlegt sem það nú er. Mér hefur virst femínistar óskaplega sjálfhverfur hópur sem vantar meiri heildarsýn yfir hin mannlegu samskipti. Samskipti kynjanna er flókið fyrirbrigði sem ekki er hægt að klippa og skera eftir einhverri reikniformúlu. Mín skoðun er sú að karlmenn eigi ávallt að sýna konum fyllstu virðingu og ég líð það ekki á mínum stað að eitthvað annað viðgangist. Það gæti hins vegar ekki gengið að ég hefði í vinnu hjá mér fiminísta konur með drottningarkomplexa þar sem karlmaðurinn þyrfti að fara einhverja óra-fjallabaksleið til að ná talsambandi. Slík samskipti eru órar femínista og er tímaskekkja því konur eiga allt eins að geta haft frumkvæði í samskiptum kynjanna eins og karlmaðurinn.
Hvað dans stúlknanna varðar, þá lít ég á hann sem list og ég hygg að fleiri gerið það sem koma inn á staðinn til mín. Að vera sífellt að tengja þessari tegund danslistar við klám og saurugan hugsunarhátt þeirra sem á horfa og njóta, er bara vandamál þeirra sem þannig eru þenkjandi og sjá skrattann í hverju horni. Ég væri þess vegna tilbúinn að bjóða listgagnrýnanda að sitja á staðnum hjá mér eina kvöldstund og virða fyrir sér þessa tegund danslistar og birta síðan dóm sinn í blaði sínu daginn eftir.
Eins og ég sagði hér að framan, hef ég lagt metnað minn í að staðurinn hjá mér hafi fágað yfirbragð og hef þess vegna þurft að hafa hjá mér gott starfsfólk til að halda öllu í góðu standi. Ég var svo óheppinn að ráða til mín dyravörð fyrir nokkru síðan, sem ég bar traust til og hélt að stæði undir trausti mínu. Því miður kom í ljós að hann reyndist ekki starfi sínu vaxinn og brást trúnaði mínum algjörlega.
Hefur mér í því sambandi stundum verið hugsað til samlíkingarinnar um fjósamanninn sem stal nytinni úr kúnum hjá húsbónda sínum og nýlega hefur verið fjallað um á öðrum vettvangi. Eftir að ég sagði manni þessum upp taldi ég mig lausan allra mála vegna hans. En hvað gerist þá? Þessi sami maður sem ég hafði borið á höndum mér í allan þann tíma sem hann var hjá mér, fór nú að bera út um mig óhróður og gróusögur sem ekki áttu sér stoð í veruleikanum.
Það sem mér þótti verst var að hann var tíður gestur hjá lögreglu þar sem hann hélt uppi óhróðrinum og það sem verra var, lögregla virtist taka mark á manninum og hefur verið með mig undir smásjá nú um langt skeið. Allar rannsóknir um ætluð brot og ávirðingar sem reynt hefur verið að klína á mig hafa samt sem áður misst marks og hitt þá sjálfa fyrir sem reitt hafa til höggs. Mér hefur fundist einkennilegt að lögregluyfirvöld hafa tekið þennan mann trúanlegan sem er fullur af beiskju og reiði í minn garð. Menn ættu að sjá það strax í hendi sér ef misjafnar hvatir liggja að baki ásökunum sem hafa sýnt sig að vera fleipur.
Svo einkennilegt sem það nú er fór þessi fyrrum starfsmaður minn í samkeppni á þessum vettvangi og fór að reka eigin næturklúbb án tilskilinna leyfa og með dansara sem hafa ekki einu sinni atvinnuleyfi. Þá þarf allt í einu engar rannsóknir og skoðun á því hvort öll leyfi séu til staðar og farið eftir reglum. Hvað veldur þessari mismunun yfirvalda? Og hvar eru feminístar?
Nú er mál að linni og er ég feginn að öllu þessum málatilbúnaði skuli hafa verið hnekkt með dómi. Ég vona að ég þurfi ekki að verja hendur mínar vegna ásakana sem ekki er fótur fyrir af fólki sem mér er allsendis óviðkomandi. Við þá hatursmenn mína (og konur) vil ég aðeins segja þetta: Hættið að fjandskapast út í mig og mína starfsemi. Hatrið étur ykkur innanfrá.
Ásgeir Þór Davíðsson,.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.7.2008 | 23:58
Hafa baráttumál feminista snúist yfir í andhverfu sína - eða sjá þær ekki skóginn fyrir trjám?
Ég var ekki á landinu þegar dómur var kveðin upp í máli sem bróðir míns Ásgeir Þór á Goldfinger höfðaði gegn Ísafold, Jóni Trausta, mínum gamla starfsfélaga og Ingibjörgu Dögg um skrif þeirra um mansal og aðra óværu sem átti að fara fram á nektarstöðum.
Fyrirsögnin hér að ofan er ekki alveg út í loftið en ég velti því fyrir mér hvort vopnin sem feministar nota hafi ekki snúist í höndum þeirra. Ofstæki hefur aldrei verið neinum málstað til góðs þegar upp er staðið og litið yfir sviðið.
Skoðun mín er að tími sé til komin að feministar eða kvennfrelsisbaráttukonur setjist niður og ræði málin. Velti fyrir sér þeirri spurningu hví þær fái ekki fleiri konur til liðs við sig og hvers vegna barátta þeirrra sem snýr að öllum konum er ekki háð með þeim formerkjum að sem allra flestar konur standi fast við bakið á þeim.
Sjálf er ég jafnréttissinni en ég get ekki kallað mig feminista því ég skil merkingu orðsins sem kvennfrelsi. Æ. oftar finn ég fyrir því viðhorfi kynsystra minna að þær geti ekki fellt sig við ofstækisfulla framgöngu feminista sem eru fyrst og síðast með mansal á heilanum.
Ég er ekki sá kjáni að vita ekki að masal fer fram víðast hvar í heiminum og hví ekki á Íslandi líka: En hvað er mansal? Samkvæmt mínum skilningi er það þegar einhver er tekin nauðugur og og kvalari - yfirboðari notar viðkomandi eins og hann eigi hann. Fórnarlambið hefur ekkert með það að gera hvað, hvar eða hvernig er farið með það.
Fyrir nokkrum árum birtist í DV frétt þes efnis að á hóteli í Garðabæ byggi stúlka sem seldi aðgang að líkama sínum. Ég var þá blaðamaður á DV og var með aðra höndina í þesu máli. Þegar fréttin birtist þá var stúlkunni umsvifalaust vikið út af hótelinu og stóð á götunni. Hún var með farseðil sem gilti ákveðinn tíma og varð að bíða þess að komast til síns heima.
Ég sem er afar aumingjagóð manneskja vorkenndi stúlkunni hræðilega og vildi helst af öllu taka hana heim með mér enda að líða að jólum. En ég bjó ekki ein og gat því annarra vegna tekið að mér stúlku sem ég vissi ekki haus né sporð á nema að hún var dönsk vændiskona. Ég var svo lánsöm að einn ættingja minna átti íbúð sem stóð auð með húsgögnum og hann treysti mér og þangað kom ég stúlkunni. En hver var saga hennar?
Jú, hún hafði hitt Íslending í Danmörku sem sagðist geta margfaldað tekjur hennar ef hún kæmi til landsins og seldi sig hér. Hún þyrfti ekki nema hálfan eða einn mánuð til að græða meira en allt árið í samkeppni við aðrar henni líkar í Danmörku.
Hann lofaði að greiða götu hennar með þeim skilmálum að hann fengi ágóða af gróðanum. Leigði herbergið, auglýsti og seldi síðan afnot af stúlkunni sem var að nótt sem dag enda eftirspurnin mikil. Maðurinn sveik hana ekki; hún fékk sitt og hann prósentur eins og alvöru melludólgur. Stúlkan var ánægð með viðskiptin og græddi vel á þeim þó vertíðin hafi staðið skemur en til stóð.
Femínistar myndu hrópa og kalla; mansal, mansal. En er þetta mansal eða hrein og klár viðskipti. Hér var hún að frjálsum og fúsum vilja og "viðskiptafélagi" hennar stóð við gerða samninga utan þess að hann gat ekki komið henni fyrir annarsstaðar og var reyndar fljótur að hlaupa á brott þegar DV birti frétt sína.
Raunverulegt mansal er hroðalegur verknaður og íslenskir sjónvarpáhorfendur hafa séð fræðslumyndir um hvernig hrenræktuð illmenni tæla eða hreinlega ræna ungum stúlkum og læsa þær inni í kynlífsþrælkun. Þeir hafa öll ráð í sínum höndum og þær eiga enga eða sáralitla von til að sleppa; vita tæplega hvar þær eru staddar. Viðlíka starfsemi hef ég ekki heyrt um að fari fram hér á landi. Ég veit ekki til annars en þær stúlkur sem selja sig hér geri það af eigin hvötum til að hagnast á því.
Því ættu femínistar að snúa sér frá ofstækinu og berjast fyrir því sem allir jafnréttissinnar vilja, hvors kyns sem þeir eru, að jafna launamun kynjanna og byggja upp sjálfsmynd kvenna sem enn halda að tímarnir séu eins og 1960-70 og það sé í þeirra verkahring að vinna úti, ala upp og sinna börnum, elda mat og þrífa og bíða með volga inniskóna bóndans þegar hann kemur þreyttur heimúr vinnu. Of margar konur á öllum aldri þekki ég til sem trúa að þannig eigi líf þeirra að vera.
En ég fagna niðurstöðu í máli bróður míns gegn Ísafold og co., þó að Hæstiréttur eigi eftir að taka málið fyrir og kveða upp sinn dóm. Vissulega er ég hlutdræg þar sem um bróður minn er að ræða sem ég þekki ekki nema af neinu góðu og gott betur því aumingjabetri mann er vart hægt að hugsa sér.
En ég er líka blaðamaður og hef starfað í faginu frá 1985. Meðal þeirra ritstjóra sem ég var undir handleiðslu hjá voru Indriði G. Þorsteinsson. Hann var þá á sínu síðari ferli á Tímanum en auk hans voru margir reyndir blaðamenn sem ég nýgræðingurinn lærði af og drakk til mín visku frá.
Á Tímanum var manni kennt að fara ekki af stað með fréttir nema heimildir væru traustar. Oftar en ekki þá var leitast við að sannreyna að viðkomandi heimildarmaður væri að segja rétt frá. Á tímann var ekki hægt að hringja og bulla eitthvað um Jón Jónsson sem síðan var birt athugasemdarlaust sem hver önnur frétt. Og ég býst við að flestir fréttamenn hafi lært einmitt það sama; sumsé að ana ekki að neinu þegar vinna skal fréttir sem fjalla um nafngreinda einstaklinga.
Aðal heimildarmaður Jóns Trausta og Ingibjargar Daggar var maður sem þóttist eiga harma að hefna. Það eru að minnsta kosti þrjú eða fjögur ár síðan hann tók að hringja í tíma og ótíma á ritstjórn DV með sögur um hve skelfilegur maður Ásgeir Þor væri. Þegar á reyndi þá fundust aldrei nein haldbær rök fyrir frásögnum mannsins en af tali hans máttráða hvílíka heift og hatur þegar hann talaði um Ásgeir Þór. Það þurfti því enga sérstaka dómgreind til að sjá í gegnum um manninn; hvað vakti fyrir honum og það væri fyrst og síðast hefndarhugur sem lagi að baki.
Ég hef talað við fjölmiðlamenn af öðrum fjölmiðlum sem fengu svipaðar hringingar aftur og aftur frá hefndarmanninum sem eitt sinn var dyravörður hjá bróður mínum og þeir afgreiddu málið á sama hátt og við á DV. Ma'ðurinn gat ekki með nokkrum móti bent á að or hann væru sannleikanum samkvæm.
En til að selja Ísafold þurfti krassandi efni. Og Jón Trausti beit á agnið og hlustaði á þennan aumingja mann sem aðeins vildi nota fjölmiðla til að koma höggi á manninn sem hann hataði.
Fáir skilja eins vel og ég hve mikilvægt er að vera með efni sem selst og ég hef átt margar andvökunæturnar yfir hvernig ég gæti reddað forsíðu næsta blaðs. En aldrei hefur hvarflað að mér að skrifa greinar birtar á söguburði og illmælgi - jafnvel þó í örvæntingu væri og vissu um að bullið myndi seljast sem aldrei fyrr.
Jón Trausti lætur hafa eftir sér í Vísi eftir að dómur var uppkveðinn að málinu yrði áfrýjað enda séu þau Ingibjörg ósammála niðurstöðunni, Og takið eftir:" ...og teljum hana gera blaðamennsku á Íslandi mikinn óleik."
Fróðlegt væri að fá að vita hvað Jón Trausti á við með þessum orðum. Gerir það blaðamennsku á Íslandi óleik að skrifa grein eftir sögusögnum og hefndarþorsta manns sem leggur allt í sölurnar til að fá fullnægt þorsta sínum?
Ég er þeirrar skoðunar að þessi dómur hafi einmitt verið stéttinni til framdráttar. Að í framtíðinni skrifi blaðamenn greinar studdar rökum sannreyndum heimildum og staðreyndum en ekki sögusögnum og hefndarþorsta manns sem gerði í buxurnar sínar og var rekinn fyrir vikið.
Jón Trausti er sár yfir þeim fáu aurum sem eiga að renna til íþróttahreyfingarinnar ef bróðir minn vinnur málið í hæstarétti.
Þar að auki finnst mér afar óviðeigandi að Geiri á Goldfinger fái hærri skaðabætur en fórnarlamb í nauðgunarmáli," segir Jón Trausti.
Og ég spyr; hvað kemur það málinu við?
Og til að bíta höfuðið af skömminni segir þessi skynsami strákur sem ég þekki ekki nema að góðu einu, en hefur augljóslega orðið fyrir óæskilegum áhrifum eða treyst einhverjum sér reyndari:
"Ljóst er að samkvæmt fyrirliggjandi dómi er búið að kippa fótunum undan umræðu um mansal á Íslandi, sem fagaðilar staðfesta að sé til staðar. Dómurinn er aðför að málfrelsinu og móðgun við þá sem starfa við baráttuna gegn mansali, sem og fórnarlömb þess."
Hvernig Jón Trausti kemst að þeirri niðurstöðu að búið sé að kippa fótunum undan umræðu um mansal er mér gjörsamlega hulið.
Strax á morgun gæti ég eða hver annar blaðamaður sem kærði sig um fjallað um mansal á Íslandi.. En sú umfjöllun yrði að vera byggð á rökum, sannreyndum heimildum, staðreyndum og vandaðri blaðamennsku.
En ég endurtek ég er ekki hlutlaus þar sem mér er málið tengt. Ég hef þó verið að reyna að horfa á það með blaðamannsaugum og kemst að þeirri niðurstöðu að greinin hafi verið afar illa unnin og í henni hafi ekki verið neitt nýtt sem ekki hefur verið slúðrað um manna á milli.
Hvað segja aðrir blaðamenn um þennan dóm?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.7.2008 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2008 | 01:11
Barist hefur verið í áratug gegn hvolpaframleiðslu á Dalsmynni - og fréttamenn hafa lagt sitt að mörkum
Það er hinn mesti misskilningur að enginn hafi gert annað en tuða út í horni og æsa sig upp úr öllu valdi gegn Dalsmynni.
Ég skal með ánægju upplýsa að frá árinu 2000 skrifaði ég reglulega um Dalsmynni og í hvert sinn sem tilefni gafst til að segja fréttir sem tengdust staðnum kannaði ég vitaskuld málið og skrifaði fréttir ef þar var eitthvað sem átti erindi til fólks. ÉG veit ekki annað en kollegar mínir á örðum fjölmiðlum hafi margir hverjir sagt fréttir af því sem fréttnæmt var þaðan.
Um staðinn var fjallað þegar svo bar undir en því miður gagnrýnislaust; þ.e. Aldrei eyddu aðrir fréttamenn en Jóhanna Sigþórsdóttir sem þá var á DV púðri í að skoða mál og afla gagna. Jóhanna lét ekki mata sig eða var með sjálfskipaða ritstjóra út í bæ sem hringdu í hvert sinn og vildu að hún skrifaði um það sem þeim hentaði enda fagleg og góð blaðakona.
Ég reyndi að hafa svipaðan hátt á og lét ekki mata mig með því að opna túlann áður en skeiðinni var stundið upp í mig.
Ég fjallaði um staðreyndir og skrifaði til að mynda um alvarlegar sýkingar sem upp komu. leyfisveitingar, og sviptingar. Reglur sem settar voru og yfir höfuð allt sem ég taldi almenningi koma við - einkum hundaeigendum.
Ég lít svo að það sé skylda hvers fréttamann að komast að sannleikanum eða eins nálægt honum og nokkur kostur er. einnig Ég lagð mig fram við að skrifað um Dalsmynni og hunda og hundaeigendur almennt. Þá hafði ég það að leiðarljósi að komast að því sanna í málinu. Oft tókst það en oft tókst það ekki. En ég lagði mig fram; svo mikið veit ég.
Ég kynnti mér vel hvað þar væri að gerast í heiminum um það sem hundaeigendur kalla Puppy mills en það eru skelfilegir staðir sem hvergi í hinum siðaða heimi er leyfð, heldur er rekið í felum og er alveg trakin neðanjarðarstarfsemii og hvarvetna bönnuð; nema a ÍSLANDI; já takið eftir á Íslandi er hundaframleiðsla og slæm meðferð gæludýra leyfð með lögum eða réttara sagt skort á lögum
Ég óskaði eftir opinberum gögnum til birtingar og ræddi oftar en ég hef tölu á við Gunnar Örn héraðsdýralækni og plagarafrúna í Dalsmynni auk dætranna.
Ég skrifaði opnugrein í Fréttablaðið á sínum tíma rökstudda með gögnum frá opinberum stofnunum, umælum embættismanna og þeirra sem barist höfðu hvað harðast fyrir að eitthvað yrði gert. Ég ræddi ég við Jónínu Bjartmarz þáverandi umhverfisráðherra.
Margar langar umræður hef ég átt við yfirdýralækni, skrifstofustjóra og aðra ráðmenn bæði í umhverfisráðuneytinu og landbúnaðarráðuneytinu . Þess utan hef ég sem hundaræktandi og dýrelsk manneskjarætt við þingmenn beint undir fjögur augu auk tölvubréfa sem hafa farið á milli.
Marga fleiri get nefnt eins og allir þeir sem ég hef talað við s.s. hjá Umhverfisstofnun og skrifað fréttir eftir ummælum þeirra.
Stóra spurningin er því; er rétt að málum staðið? Mín skoðun er nei. Það þarf að vinna markvist að þessu máli og gera það faglega. Og það þarf samstöðu og síðan og ekki síst heilindi til að vinna til sigurs.
Skilja má á athugasemd sem birtist á þessari síðu að engin gerði neitt annað en tala. Það er augljóslega skrifað af fákunnáttu og því skal ég nefna nokkur dæmi máli mínu til stuðning.
Ég hef rætt við formann Dýraverndarráðs Íslands, og aðra sem koma að þeim málum. Um allt þetta skrifaði ég fréttir á sínum tíma en ég hef verið í fríi frá fréttamennsku síðustu tvö ár og því heyrist ekki mikið frá mér.Ég reyni þó að láta ekki mitt eftir liggja og inn á heimsíðu mína sifjar.is hef ég skrifað fleiri en eina grein um Dalsmynnisníðingana.
Næsta verk hjá mér verður að tala við Þórunni Sveinbjarnardóttur núverandi umhverfisráðherra, annaðhvort persónulega og prívat eða í opnu bréfi í fjölmiðlum.
Á þetta bendi ég vegna þess að það eru svo margir nýir hundaeigendur sem ekki þekkja söguna vita ekki hve margir hafa lagt hönd á plóg við að uppræta þá dýraníðslu sem frúin og dæturnar stunda í skjóli lyga svika og pretta í Dalsmynni.
Einn ötulasti baráttumaðurinn fyrir því að eitthvað yrði gert til að stöðva ósóman hefur verið; Magnea Hilmarsdóttir með papillon ræktun sína og ekki síður Aðalheiður M. Karlsdóttir sem búsett er í Þýskalandi með Tópasar ræktun þar sem hún ræktar papillon hunda verið ein aðalsprautan í gagnrýninni á Dalsmynni enda reyndur ræktandi sem man tímana tvenna. Hún kostaði sjálf (að mestu að minnsta kosti, auk þess sem einhverjir lögðu fram frjáls framlög) og setti upp síðu; www.stopp þar sem upplýsingum um þetta skelfilega dýraalgeri, Dalsmynni ásamt Magneu og fleiri áhugasömum hundaræktendum og dýravinum sem vildu allt gera til að stöðva dýraníðsluna þar.
Það þarf því enginn að velkjast í vafa um að það hefur sannarlega verið unnið í málinu. En það er ýmislegt hægt að gera enn. Öll umfjöllun hvaðan sem hún kemur skilar sér. Ég myndi glöð gerast upplýsingafulltrúi félagskapar sem hefði það að markmiði að stöðva hvolpaframleiðslu ef einhver eða einhverjir nægilega miklir hugsjónamenn tækju sig til og stofnuðu slíkan þrýstihóp.
Sjálf hef ég fylgst með þessu síðan ég eignaðist minn fyrsta hund árið 1999 og þekki þetta mál mjög vel því sem blaðamaður kynnti ég mér það vel og barðist harðri baráttu inn á ritstjórn Fréttablaðsins á sínum tíma til að fá að skrifa um þessi mál; þau þóttu bara svo mjúk og þáverandi fréttastjóri taldi dýrafréttir vera kellingamál.
Á DV hafði ég hins vegar frjálsar hendur og skrifaði þar vikulega um dýr. Ég lét einskis ófreistað ef tilefni gafst til að nefna dýraplageríið á Dalsmynni.
Og ég hef ekki sagt mitt síðasta orð. Því get ég lofað.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt 18.7.2008 kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Á þessari síðu : hundagallerí.is, sem er aðeins nokkra vikna gömul, segir kona farir sínar ekki sléttar af viðskiptum sinum við Dalsmynnisliðið sem framleiðir hunda og veltir ekki fyrir sér dýravernd á nokkurn hátt. Þar eru hundarnir geymdir í búrum og fara aldrei út undir bert loft nema í afgirt gerði. Tíkur eru notaðar aftur og aftur og það er ekki hægt að treysta því að viðskiptavinir kaupi ekki köttinn í sekknum því hundarnir geta allt eins verið blandaðir.
Ég var fyrir nokkrum dögum hjá dýralækninum mínum og kom þá inn kona með lítinn sætan hund. Ég spurði hvaða tegund hann væri því ég þekkti ekki tegundina. Hún sagði hann vera Tjúa sem dóttir sín hefði fengið í Dalsmynni. "Einmitt, þá skil ég hvers vegna það liggur ekki í augum uppi hverrar tegundar hann er. Hann er augljóslega blandaður Pappilon enda líkist hann meira þeirri tegund en Tjúa. Bæði feldurinn og eyrun eru frá Papillon komin," benti ég konunni á og hún svaraði að henni hafi dottið í hug í hvert sinn sem hún sæi hreinræktaðan Tjúa að það væri ekki eðlilegt hve ólíkir þeir væru.
Hundurinn var yndislegur; það er ekki málið en þegar fólk borgar fyrir hreinræktaðan hund þá á það að fá hreinræktaðan hund með réttri ættbók. En dýraníðingurinn; frúin sjálf í Dalsmynni og dætur hennar sem virðast hafa erft viðhof móðurinnar til hundaræktunar en það er langur vegur á milli hundaframleiðslu og hundaræktunar. En þær velta því ekki fyrir sér í Dalsmynni mæðgur þrjár; græða og græða en eru fjandans sama hvar hvolpar þeirra lenda.Velta því ekki fyrir sér. Þær búa til ættbækurnar sjálfar og fáfróðir kaupendur trúa þeim enda eru þær yfirmáta almennilegar og dollaramerkin blika í augum þeirra þegar þær sjá að þær geta selt.
En aftur að konunni sem bjó til heimasíðuna til að vara fólk við að kaupa hunda frá Dalsmynni. Hún keypti frá því í fyrrahaust þrjá hunda sem allir hafa verið nær dauða en lífi af sjúkdómum síðan. Tveir eru dánir en einn lifir en. Mér finnst ástæða til að vekja athygli hundaeigenda á þessari síðu svo þeir geti kynnt sér málin og falli ekki í þá gryfju að kaupa hunda frá Dalsmynni aðeins vegna þess að fólki liggur svo á að það má ekki vera að bíða eftir hundi frá góðum ræktanda. Lengi hefur hún stundað að selja fárveika hvolpa. Þegar kvartað er við hana þá er ekki sama blíðan í málrómnum og meðan hún er að selja. Og alltaf er hvolpum að fjölga sem deyja innan nokkurra daga eða mánaða vegna sýkinga, sjúkdóma og meðfæddra galla.
Alvarlegast af öllu er að þessir hundar frá dýraníðingnum í Dalsmynni sem fólk kaupir í góðri trú bera með sér alvarlega smitsjúkdóma sem þeir geta smitað heilbrigða hunda af frá góðum ræktendum.
Allt er fast í kerfinu út af þessari dýraníðslu þarna svo ekki sé meira sagt. Það hefur enginn þingmaður áhuga á að vinna að frumvarpi um breytingu á lögum um dýravernd. Þau eru svo gölluð að hvorki ráðuneytið né Umhverfisstofnun geta sett reglur um að bannað sé að reka hundaframleiðslu eins og hin Norðurlöndin og önnur siðmenntuð lönd í Evrópu hafa löngu gert. Í þeim löndum getur enginn rekið framleiðslu eins og í Dalsmynni nema í undirheimum því dýralögreglan í viðkomandi löndum væri ekki lengi að loka og ákæra viðkomandi sem síðan yrði dæmdur til fangavistar eða guð má vita hvað.
En svo mikið er víst að það er tekið hart á mönnum sem fara illa með dýr í öllum siðmenntuðum löndum, en ekki á Íslandi þar sem við státum okkur af að vera bestir í þessu eða hinu. En lokum svo báðum augum og gerum ekki neitt meðan þessi alræmda hundaframleiðsla heldur áfram að selja undir borðið hvolp eftir hvolp; greiðir enga skatta enda Dalsmynni gjaldþrota. Þá var bara skipt um nafn á nýrri kennitölu og haldið áfram að framleiða hunda sem annaðhvort eru fársjúkir, með skapgerðargalla eða eitthvað enn verra. .
Konan sem keypti hundana hafði verið vöruð við en hlustaði ekki. Hún stendur uppi með mörg hundruð þúsund í dýralæknakostnað eftir þessi flumbrukaup sín. En það er ekki hægt að ásaka hana; hún trúði ekki og vissi ekki.
Því hvet ég alla sem vilja eignast hund að láta sér ekki detta í hug að falla fyrir smjaðrinu í Dalsmynnisplögurunum, heldur bíða í rólegheitum og vanda valið. Góðir ræktendur eiga ekki hvolpa á lager og það kostar bið sem er mjög gott fyrir viðkomandi sem getur undirbúið sig vel áður en nýr heimilismeðlimur kemur inn í fjölskylduna.
Eftir krufningu hvolpanna kom í ljós að þeir voru ekki einu sinni sýktir af einum sjúkdómi heldur voru þeir fullir af óværu eins og niðurstaðan sýnir:
Bráð lifrarbólga með innlyksum
Jákvæð ónæmislitun fyrir smitandi lifrarbólgu(HCC) Blóðskortur Bráð lungnabólga Æðabólga Bandormasýking Bandormar fundust í mjógörn Einnig var fleira tekið fram s.s. mjög fölar slímhimnur, hjartað var fölt, samfallin svæði í lungum og meira til.
Meðal annars segir að hundurinn hafi verið með Bandorma. Ekki veit ég hvort um hin alræmda sull er að ræða en það er þá stórfrétt ef ástandið er orðið þannig að þar eru að brjótast út sjúkdómur sem ekki hefur orðið vart við í fjölda ára. Eins og sjá með stendur bandormasýking en það eru til þrjár teg. bandorma.
Það sem er að, er að lög um dýravernd er orðin mjög gömul og ekki er hægt að setja reglugerðir á grundvelli þeirra né setja reglur sem fara á eftir af viðkomandi stofnun því þær standast ekki lög. Ég vildi gjarnan vita hvað stjórnvöld ætla að trassa lengi að endurskoða dýraverndunarlög þannig að hægt sé að vinna eftir þeim. Hve margir hundar eigi að kveljast til bana áður en eitthvað verður afhafst og hve margir litlir krakkar gráta úr sér augun þegar hundurinn sem þau hafa hlakkað svo mikið til að fá deyr fyrir augum þeirra
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.7.2008 kl. 02:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)