Fingraför Óskars Hrafns farin að sjást á visir.is

Frikki Indriða hringdi í mig í morgun og ég hafði mikla ánægju af að heyra frá honum þó samtal okkar hafi ekki verið langt. Hann er kominn á visir.is . Víst er að ef fólk er eins þenkjandi og ég og auk þess með fréttasýki, eigi heimsóknum á eftir að fjölga nokkuð inn á vefinn en mér segir svo hugur að þar megi lesa heitustu fréttirnar.

Og Þegar má sjá á vefnum að unnar eru sjálfstæðar fréttir og enginn pempíugangur í mönnum. Þó  er ekki gegnið svo langt að birta nöfn manna í viðkvæmum málum eins og sýnir sig á fréttinni um fangann sem svipti sig lífi. Veit af reynslu að ritstjórninni er kunnugt um hvað mann var að ræða.

Óskar Hrafn er hörku fréttamaður og þægilegur í samstarfi. Mjög gaman að vinna með honum og hann er með húmorinn í lagi. Hann hefur fengið til liðs við sig tvo fyrrum vinnufélaga mína á DV, þá Frikka og Andra Ólafs. Frikki er reynslubolti sem er ótrúlega afkastamikill. Aldrei neitt fum og fár á honum, heldur gengur svakalega undan honum; ekki bara suma daga heldur alla daga.

Andri er einn þessara ungu manna sem á framtíðina fyrir sér. Öflugur tabloidblaðamaður og með gott fréttanef. Auk þess sem hann er drengur góður. Enn það þarf aðeins að sníða af honum nokkra vankanta eins og títt er með unga menn sem vita ekki alveg hvað þeir ætla að verða þegar þeir eru orðnir stórir. Andri sómdi sér vel á DV, blaðinu sem Íslendingar þorðu ekki að gangast við að þeir læsu. Hef oft hugsað hvers vegna við skerum okkur frá hinum Norðurlandaþjóðunum og Bretum sem gangast við því án þess að blikna að þeir lesi til að mynda Extrablaðið eða SUN. Og hafi gaman af. Trúi því ekki að við séum orðin svona ameríkanseruð og skynhelg í hugsun eins og sýndi sig í DV málinu í fyrra. Þaðan verðum við að snúa okkur og fylgja Evrópu í ríkari mæli. Já ganga í Evrópusambandi, en nei, ég ætla ekki að ræða það hér og nú.

Ég vissi ekki fyrr en ég var hætt að vinna með Andra hverra manna hann er en fyrrum stjúpfaðir hans er góðvinur bróður míns og móðir hans hörkulögmaður. Ég sá hann því nokkru sinnum lítinn dreng. En mikið fjári er tíminn fljótur að líða.

Til lukku með byrjunina Óskar Hrafn og haltu áfram á sömu braut, ég mun fylgjast með!


Löggufóbía borgar sig

Á lífsleiðinni hef ég orðið þess vör að einstaka samferðarmanna minna eru haldnir löggufóbíu. Mega ekki sjá löggubíl án þess að fara á taugum. Ég hef túlkað það svo þegar ég finn þessa hræðslu hjá fólki að það hafi einhvertíma haft eitthvað á samviskunni eins og að aka undir áhrifum eða glannalega. Í því sitji óttinn af gömlum vana.

Sjálf fann ég aldrei þessa tilfinningu; lét lögguna ekki trufla mig og hélt áfram mína leið. Þar til nú síðasta árið eftir að ég flutti austur og umferðarpostularnir komu því í gegn að sektir yrðu hækkaðar og viðmiðunarmörkin lækkuð. Þrátt fyrir það hef ég á tæpa fjörutíu ára ökuferli alla jafna ekið á löglegum hraða - og geri enn. Það hefur þó einstaka sinnum komið fyrir að ég hafi verið tekin yfir mörkum á götum sem bjóða upp á ekið sé greitt en einhverra hluta vegna er hámarkshraði aðeins 40 - 50 kílómetrar á klukkustund. Ég veit því nú að menn þurfa ekki að hafa neitt á samviskunni þó löggufóbía hrjái þá.

Auðvitað tek ég því eins og hverju öðru hundsbiti og borga mína sekt. Á föstudagskvöldið var ég á leið heim frá Selfossi. Magnús beið með kvöldmatinn og um það bil sem ég kom útúr síðasta hringtorginu þaðan á beinu brautina hringdi hann og spurði hvað mér liði. Ég setti í fimmta og steig á bensíngjöfina. Uml eið sé ég löggubílinn sem setur upp bláu blikkljósin. "Fjárinn nú hafa þeir séð mig tala í símann," segi ég við sjálfa mig og blóta Magnúsi í hljóði.

Ábúðarmikinn löggumanninn sé ég í baksýnisspeglinum og spyr um leið og ég stíg út hvað ég hafi gert af mér. Jú, ég var vel yfir hraðamörkum sem aðeins eru 50 kílómetrar á klukkustund  fyrstu 200 metrana eftir að ekið er út ú hringnum; mældist á liðlega sextíu.

Það voru tuttugu metrar í Laugarvatnsafleggjarann þar sem hraðamörkin breytast í 70. En lögga Ólafs Helga plantar sér gjarnan þarna og nælir í dágóða summu í kassann.

Sjaldan verð ég eins pirruð og þegar ég þarf að punga út peningum fyrir ekki neitt. Ég er löghlýðin í umferðinni og í nær daglegum ferðum mínum á milli Hveragerðis og Reykjavíkur gæti ég þess sérstaklega að fara aldrei yfir 95. kílómetra hraða. Ég fer aldrei fram úr bíl nema þar sem tvöföld akbraut er og fer eftir umferðarlögum eins vel og ég kann þau. Á Suðurlandveginum eru jafnan tveir löggubílar og þeir gera sig oftar en ekki seka um að liggja þar sem þeir sjást ekki. Ég veit af reynslu að eins gott er að passa sig og geri það. Það breytir ekki því að ég myndi ekki aka hraðar enda tæplega hundrað kílómetra hraði ósköp þægilegur og afslappandi á þessari leið.

Sjálfsagt er að sekta fyrir of hraðan akstur en það veit sá sem allt veit að einbeittur brotavilji var ekki fyrir hendi hjá mér í þetta sinn. Sektina greiði ég því fyrst og fremst fyrir hugsunarleysi.

En sýsli er snöggur þegar innheimta þarf sektirnar. Með póstinum í morgun barst 15 þúsund króna gíróseðill. Ég vildi að hann væri eins fljótur til verka þegar önnur verk sem honum ber að sinna eru annars vegar, eins og að afgreiða skýrslur til tryggingafélaganna. Það tekur embættið minnst viku að koma slíkri skýrslu frá sér nokkrar húsalengjur.


Vond amma eða gömul og lúin?

100_2212Þrjú minna fjögurra barnabarna eru í pössun hjá ömmu og afa.

Reyndar er eitt þeirra, hann Smári  svo að segja heimilisfastur hjá okkur og hefur verið meira eða minna síðan hann fæddist. En nú eru þær Eldey sjö ára og Ísey tveggja ára í pössun og hafa verið frá því eftir hádegi á laugardag.

Smári sjö ára á myndinni hér til hliðar ásamt bróðursyni mínum, syni Davíðs.

Og það veit sá sem allt veit að það eru mikil viðbrigði að vera með þrjú börn og þar af eitt bleiubarn. Ég hef varla sest niður alla helgina, taka upp þetta, ná í hitt, gefa að borða, þvo og skeina og koma í svefn. En það er ekki vinnan sem fylgir því að annast lítil börn sem þreytir kellur eins og mig. Það er áreitið; að vera með stöðugt með hugann við börnin og að þau fari sér ekki að voða. Já, og þau eldri gera miklar kröfur. Í raun er miklu léttara að haf litlu Ísey en hin tvö.

Annað hvort er ég vaxin uppúr því að þola svona áreiti eða ég er svona vond amma. Sjálf var ég komin með börn á minn smáa handlegg níu ára þegar Davíð bróðir minn fæddist. Mamma fór í frystihúsið að vinna fjóra tíma á dag og ég passaði ungbarnið rétt fjögurra mánaða gamalt. Reyndar hugsaði ég um Davíð fyrstu æviár hans að mestu því tveimur árum síðar fæddist Jakobína og það var nóg að gera hjá móður minni með sex börn, drykkjumann, fátækt og basl.

Mömmu leið vafalaust ekki mjög vel á meðan hún vann en ég veit að hún treysti mér enda var ég mjög ábyrgðarfullt barn, elst alsystkina og var vön því að taka á mig ábyrgð. Forvitnin var líka að drepa mig og ég heyrði oftar á tal þeirra en mér var hollt á þeim árum.

Þegar elsta dóttir mín, Erna fæddist fékk ég mikla hjálp hjá tengdamóður minni. Var að fljúga og oft í burtu svo dögum skipti á þeim árum. Erna átti því sitt annað heimili þar. Síðan eignaðist ég þær Ragnheiði og Silju með 18 mánaða millibili og ég er ekki búin að gleyma hve erfitt mér þótti að halda öllu í horfinu með tvö börn á erfiðum aldri. Það var nefnilega ekki þá eins og nú þegar feðurnir eiga börnin líka. Faðir minna barna hafði ekki miklar áhyggjur af því hvort þær væru svangar, þreyttar, blautar eða yfirhöfuð hvernig þeim reiddi af. Það var í helst að hann tæki þær og segði gúllla gúlla og kitlaði undir hökuna.

Hann leit svo á að umönnun barnanna væri mitt hlutverk - og það sem verra var; mér fannst það líka ég lét það yfir mig ganga: fannst ég ekki hafa rétt á að gera kröfur um að hann hugsaði um börnin til jafns á við mig. Var sjálf alin upp við að mamma hugsaði um okkur og pabbi hefði ekkert með okkur að gera fyrr en hann gat farið að halda uppi vitrænum samræðum við okkur En þannig var tíðarandinn þá; slíkt myndi ekki viðgangast nú enda sé ég ekki annað á heimilum dætra minna og jafnaldra þeirra að feðurnir séu ábyrgir til jafns á við konurnar þegar börnin eru annars vegar.

En svo mikið er víst að ég héldi ekki út að passa barnabörnin nema fyrir það hve Magnús, minn ekta maki tekur þátt í umönnun þeirra. Hann var vel taminn hjá sinni fyrrverandi konu, eða bara að réttlætiskenndin er svona sterk i honum. Hann er auk þess mjög barngóður. En bæði eigum við það sameiginlegt að það er yndislegt að fá börnin; bara ekki of lengi í einu.


Vilja mín í fóstur og söknuðurinn mikill - tárin fljóta og ég vakna ekki lengur við að lítið kríli vefur sig utan um hálsinn á mér og sleikir mig framúr.

vilja_009Ég tók þá örlagaríku ákvörðun að láta yndið mitt yngsta og besta, hana Vilju mína frá mér í fóstur. Ég hafði hugleitt það en gat ekki hugsað mér að sjá á eftir Það var því hrein og klár tilviljun að yndislegar mæðgur sem ég þekkti vel til og eru með stálpaðan son sem í mörg ár hafði dreymt um hund tóku hana til sín í fóstur. Þær fóstra hana og annast eins og þær eigi hana en tæpast á hún eftir að gleðja mig og bræða framar þó að ég eigi eftir að hitta hana þegar fram líða stundir og ég treysti mér til.

sleikir

 Vilja Jörð liðlega sjö mánaða. Það leynir sér ekki fagurt vaxtarlagið á þessari mynd þó að hún líti dálítið hátt þessi elska.

Atburðarrásin var mjög hröð og mér gafst ekki tími til að hugsa um söknuð og óyndi ef ég léti hana. Kannski eins gott; eða slæmt, eftir því hvernig á það er litið. En það góða við að láta hana er að fleiri fá að njóta og ég hef það fyrir víst að hún er sannkallaður engill á heimilinu. Gefur langtum meira en hún tekur.

En svona eftirá að hyggja býst ég við að ef ákvörðunin hefði ekki verið tekin með hraði, hefði ég aldrei horft eftir henni. Ávörðunin varð að taka en í hjarta mínu vildi ég alls ekki láta hana. En oft verður að gera annað og meira en gott þykir. Og það get ég fullyrt að gleðin og ánægjan sem hún veitir fósturfólkinu sínu fær mig hér um bil til að gleyma táraflóði mínu. En tómið sem hún skilur eftir í mínu hjarta veit ég að verður aldrei fyllt. Og, Guð einn veit hvað ég sakna hennar og hvað ég skældi fyrstu dagana. Gat ekki einu sinni talaða við nýju mömmuna í tvo daga því hún heyrði ekki annað en kjökrið sem án alls fyrirvara varð háværu skæli. Það hjálpaði mér mikið að vita hve innilega velkomin hún var á heimilið, hvað lífið á þessu fámenna heimili hefur lifnað við og breyst síðan þessi litla prinsessa sem bræðir hvaða hjarta sem er, kom til þeirra. Hún er elskuð af öllum og elskar að liggja í kjöltu ömmunnar á heimilinu og láta mjúkar hendur strjúka sig. Þeir sem vilja lesa meira um Vilju og hinar tíkurnar geta klikkað a www.sifjar.is

hvolpar%20Berglj%F3t%202007%20072-thumb Vilja Jörð lengst til vinstri um það bil átta vikna gömul. Það er ekki spurning, hún er fallegust á þessari mynd

Mörgum sinnum á dag hugsa ég til hennar; fjörkálfsins sem elskaði að koma með mér út i göngu. Og hlýðna stillta stelpan mín vissi að þrátt fyrir kátínuna myndi ég ekki festa á hana ólina fyrr en hún stæði grafkyrr. Tók dálítinn tíma og reyndist minni konu oftar en ekki erfitt. En hún var fljót að skilja að það þýddi ekki annað en standa kyrr, þó að að erfitt væri. Hún vissi að annars myndi ég standa til eilífðarnóns og hún fengi ekki sína gönguferð. Hún er nefnilega svo mikill fjörkálfur; sannkallaður Cavalier með skottið á fleygiferð

Hún verður sýnd næst og kannski áfram ef vel gengur og auðvitað er hún mín, þó að hún sé hundurinn þeirra. En líklega vakna ég aldrei framar við að hún vefur sér um hálsinn á mér og sleikir mig í framan, eða sest niður, horfir á mig brúnu fallegu augunum sínum og hallar undir flatt með þessum dásamlega svip sem fær hjartað í mér til að slá hraðar. Þá stenst ég hana ekki og tek hana og knúsa hana sundur og saman. Og ég segi það satt, henni þykir það ekki slæmt.. .

 


Af sem áður var þegar skatturinn sendi manni feitan tékka 1. ágúst

Ég er afar lélegur skjalavörður; er með tvær möppur sem ég hendi annað kastið í plöggum sem ég þarf að eiga en þess á milli eru allskyns pappíara oní töskunum mínum, inn í dagbókinni minni í kössum eða hillum.

Og svo þegar ég þarf að fletta einhverju upp hefst æðisgengin leit og það bregst aldrei að ég finn það sem mig vanhagar um - bara ekki fyrr en í síðasta kassanum, pokanum  eða í neðstu eða efstu hillunum.

Þannig var það þegar ég var að tygja mig í háttinn í síðustu vikuað ég mundi allt í einu eftir að álagningarseðilinn frá skattinum var komin ná netið. Fór því af stað og sneri öllu við til að finna aðgangsorðið. Fann öll frá 2004 en bara ekki það nýjasta. En ég er svo fjári þrjósk að þegar ég byrja að leyta er ekki nokkur leið að stöðva mig.

Loks þegar ég var búin að fara í gegnum nær öll hugsanleg plögg fann ég lykilorðið en þá var klukkan líka orðin fjögur og gott betur.  En þrjóskan í mér varð til þess að augun á mér hanga og athyglisskyn mitt eins og hjá rollu að vori í nýgræðingi. 

En sumsé; ég fékk mínar vaxtabætur sem eru um það bil helmingur útgreiddra launa. Það skeikaði ekki nema nokkrum krónum á útreikningur skattmanns og minna þegar ég taldi fram.

En ég man að sú var tíðin; fyrir tuttugu árum eða svo þegar ég var með stelpurnar litlar, þá var það heil fúlga af aurum sem ég fékk í hvert sinn, fyrsta ágúst; og ekki bara ég einstað konan, heldur flestir vina minna, í hjónabandi. Og svo ekki sé tlaða um þá vina minna sem voru að byggja og skulduðu mikið í eignum sínum. Menn gátu lifað eins og greifar allan mánuðin, keypt þvottavélar, sófasett , sjónvörp og bíl eða Guð má vita hvað. Ég man að ég brá mér í Simens eitt árið og keypti mér þvottavél og uppþvottavél og borgaði inn á bíl.

Síðan hafa vaxtabætur verið skerptar svo um munar og lækka með hverju árnu, einmitt þegar húseigendur þurfa hvað helst á þessum peningum að halda þar sem lán eru hlutfallslega miklu hærri og vextir að sama skapi.

Þegar ég keypti mína fyrstu íbúð þá kostaði hún 1.600.000.-. Þetta var lítil tveggja herbergja íbúð í Breiðholtinu sem þá var að byggjast. Ég var tvítug og þáverandi maður minn aðeins eldri. Hann átti nýlegan bíl sem hann nota bene átti því þá tíðkaðist ekki að lána í bílum nema notuðum og aðeins hluta kaupverðs og samþykktum víxli.

Það var ekki mikið mál að fjármagna þessa íbúð. Bíllinn hans gerði sig 400 þús. Ég átti sparimerki að upphæð 117.000 sem ég mátti innleysa vegna íbúðakaupa eða þegar ég gifti mig.  Ég var að vinna í Landsbankanum og þar var sterkur lífeyrissjóður sem lánaði hærri upphæð til húsakaupa en flestir aðrir sjóðir. Í þennan tíma hafði ég ekki nægilega langan starfsaldur að baki í bankanum til að fá fullt lán en það gerði ekkert til. Tengdapabbi skrifaði upp á tvo víxla 250.þús hvor þar til ég fengi láninð einhverjum mánuðum eða ári síðar. Húsnæðislánið var 545.000 með hlægilegum vöxtum og óverðtryggt.

Það sem upp á vantaði voru liðlega 50 þús. sem við nurluðum saman en fjárinn að ég muni hvað ég var með í kaup í bankanum en mig minnir að það hafi verið í kringum 30. þús á mánuði.

Inn í þessa íbúð sem var svo að segja spáný fluttum við á brúðkaupsnóttina í febrúar 1973 og bjuggum í tvö ár. Þá festum við kaup á yfir hundrað fermetra íbúð á Holtsgötunni. Hún var í nýju húsi og mig minnir að hún hafi verið rúmlega fokheld þegar við fengum hana. Þori ekki alveg að segja hvað hún kostaði, en eitthvað á milli 3.5-4. millj. Í það minnsta seldum við hana nær fullkláraða á yfir sjö milljónir tæpu ári síðar því erfitt var að vera með lítil börn við Holtsgötuna. Strætó gekk bæði Holtsgata og Öldugötuna og niður og upp Framnesveg og ég var alltaf með lífið í lúkunum þegar elsta dóttir mín var úti að leika sér. Það varð úr að við seldum.

En þetta segi ég nú aðeins til gamans hér og gaman væri ef einhver nennti að reikna þessar upphæðir til núvirðis og bera saman hvernig kaupin gerðust á eyrinni upp úr 197-2. Þess má geta að sex árum eftir að við keyptum okkar fyrstu íbúð fengum við lóð í Skjólunum og byggðum okkur  280 fermetra einbýlishús á tveimur hæðum. Ég sá eitt slíkt auglýst ekki alls fyrir löngu á yfir 70 milljónir.

Já, mikið væri maður vel settur ef ég hefði valið rétt strax en ekki komist að því eftir að hafa alið þrjú börn með fyrri eiginmanni að hjónabandið myndi ekki ganga. Ég man að þegar við slitum hjónabandi okkar og seldum, þá hvíldu 600 eða 800 þúsund á húsinu. Það var 1985 og búið að taka tvö núll aftan að krónunni.

Ef ég ætti þetta hús enn og allt hefði gegnið eins og hjá venjulegu fólki þá væri það örugglega skuldlaust. Svona getur maður farið illa að ráði sínu en það tapa allir á að skilja, enginn græðir.

En ég er ekki að kvarta; þetta hefst bara upp úr því að velja ekki rétta makann strax. Ég segi því við ólofauð ungmenni; veljið rétt í upphafi, vandið valið og hugsið ekki bara um hvað þið eruð ástfangin í dag. Hugsið fram í tímann reynið að sjá fyrir ykkur stöðuna eftir fimm eða tíu ár. Verið viss um að gallar tilvonandi maka sem þið ætlið að eyða ævinni með séu ekki alvarlegir en svo að hann geti sniðið þá af en komi ekki niður á fjölskyldunni og leggi líf allra í rúst með skapgerðarbrestum.

 Og númer eitt tvö og þrjú er að velja maka sem eru reiðubúnir að verða góðir foreldrar, menn og konur með stórt hjarta, heiðarlegt og ábyrgar manneskjur og umfram allt skemmtilega maka. Húmor er lífsnauðsynlegur í hverju hjónabandi.

Já, húmorinn er mikilvægara en allt annað; að geta hlegið saman, verið í krampa inn í sér og pissað niður úr öllu. Já, jafnvel í fyllt skóna ogvolgnað um fætur og látið sér fátt um finnast; haldið bara áfram að hlægja þangað til maður finnur allt í einu hvernig hlýr vökvinn rennur alla leið oní skó, Skítt með eina skó fyrir slíkt endórfínkikk. Og það er meira að segja þess virði að upplifa það kikk hvar sem er. Í kokteilboðum, barnaafmæli hjá tengdafjölskyldunni eða bara í bílnum á leið heim úr Rúmfatalagernum.Ég tala af reynslu; hláturinn og samstilltur húmor getur látið  hjónaband sem ætla mætti í byrjun að héldi ekki lengi lukkast eins hjá konungsbornum.  Hláturinn og gleði eykur endorfín og dópamín í heilanum; efnunum sem stjórna gleðinni og ánægjunni. En leiðinlegur maki; þó fullkominn sé að öðru leyti sér til þess að hjónabandið verður ekkert annað en leiðinlegt og óspennandi

Trúið mér, ég veit hvað ég er að segja. Davíð faðir minn sem lést fyrirbráðum fjörutíuu árum, alltof ungur hann var allra allra manna skemmtilegast; helst að bróðir minn, Ásgeir komist næst honum hvað varðar húmorrinnog ljúft skapið.

Pabbi heitinngerði það af gamni sínu og hreinni stríðnu að koma okkur systrum til að hlægja. Við matarborðið eða yfir kaffibolla í stofunni heima fyrir daga sjónvarps. Oftar en ekki enduðum við undir borði við að þurrka upp eftir okkur um leið og við létum lítið bera á  þegar við skriðum undan borðstofuborðinu eða læddumst inn í herbergi til að nálgast hreint nærhald fyrir það blauta.

Já, Ásgeir Þór bróðir minn )Geiri í Goldfinger erfði frá pabba húmorinnog ekki síst frásagnarlistina. Það kemur enn fyrir að það falli nokkrir dropar í buxurnar þegar hann er upp á sitt besta að segja sögurnar. Vísast er helmingur þeirra frásagna staðfærð í búninginn en helgar sannarlega meðalið og ekki alltaf á vísan að róa með hvað er satt, hvað er logið eða vel skreytt. Það gerir bara ekkert til; það er alltaf jafn gaman að vera í nálægð hans og hlægja frá sér allt vit.

Og Gleymið ekki að velja þann skemmtilegasta á ballinu; en ALLS EKKI Þá SÆTUSTU, SVO EKKI SÉ TALAÐ UM ÞANN SÆÆÆSTA!!

Það eru leiðinlegu og montnu gæjarnir sem vita af sér og halda að þeir geti farið út fimmtán mínútur fyrir þrjú með sætustu stelpuna. Og ætli sér jafnvel nokk meira en hún; án þess að nefna það. Þessir sætu halda nefnilega að allar stelpur bráðni og verði eins og vax í höndunum á þeim. Þeir ætla að ráða ferðinni.

Munið að nördarnir og þessir sem ekki ber mikið á, eru mannsefnin; þessir sem maður tekur kannsi ekki eftir í fyrstu en eftir því sem maður hittir þá oftar breytist það og leynir sér ekki að þessi sem mani fannst nú lítið til koma er meira en sjarmeradi langt umfram súkkulaðieyjana.

Þeir eru bara til að daðra við og leika sér dálítið með. En góðan gæja er alltaf hægt að sjæna dálítið til og gera flottan. Og það eru einmitt þeir sem eldast svo vel og verða allra karla myndarlegastir um fertugteða fimmtugt. Og þá mega konurnar vara sig og passa þá fyrir hinum sem gáfust upp súkkulaðidrengjunum


Brúðkaup að heiðnum sið í fjöruborðinu í Haukdal

Um helgina fer fram í Haukadal í Dýrafirði brúðkaup að heiðnum sið. Það er Vestfjarðargoðinn sem ég held að sé Eyvindur Eiríksson, faðir Erps Eyvindarsonar sem gefur þar saman Elvar Loga Hannesson leikara og konu hans en gott ef ekki er annar goð líka við athöfnina.

Mikið verður um dýrðir en brúðkaupið fer fram í fjöruborðinu þaðan sem útsýn inn dalinn er fegurst. Hefur fjölda gesta verið boðið að samgleðjast þeim hjónum af tilefni dagsins.

Það eru hæg heimatökin fyrir Elvar Loga sem býr á Ísafirði er ættaður frá Bíldudal en á heilt samkomuhús í Haukadal. Hann keypti það fyrir tveimur eða þremur árum og var það í góðu ásigkomulagi en hann hefur verið að dytta að því ásamt stórfjölskyldunni og meðal annars er komið rafmagn inn í húsið. Víst er að það verður fjör í dalnum sem fyllist af fólki þessa helgina en mikið var rætt um brúðkaupið í dalnum en það er líklega í fyrsta sinn sem fer fram heiðið brúðkaup síðan á tímum Gísla Súrssonar sem þar bjó til forna.

Ég er komin heim og fjarri góðu gamni en þeim hjónum árna ég heilla og óska gifturíkrar framtíðar.


Hvílík dýrð - hvílík dásemd í yndislegu veðri vestur á fjörðum

Ég er í sumarfríi vestur á fjörðum; okkar Magnúsar unaðsreitum þaðan sem við bæði eigum rætur okkar og vorum borin í þennan heim. Magnús á Ísafirði og þar áttu foreldrar hans sumarbústað í Tungudal. Hann dvaldi þar öll sumur sem krakki með fjölskyldunni en "Skógarbúar" fluttu jafnan á sumrin inn í skóg. Mæðurnar voru þar með börnin sem ekki þurfti að reka út að leika enda sáust þau varla fyrr en sól var sest nema rétt til að næra sig. Þau höfðu meira en nóg fyrir stafni daginn langan. Feðurnir sem voru heima í bæ komu síðan eftir vinnu eða um helgar. Það var síðan ekki fyrr en í enda sumars sem mæðurnar fluttu aftur inn í bæ krakkana. 

Magnús á yndislegar minningar frá þessum árum í gamla bústaðnum en þau systkinin og makar keyptu nýjan bústað fyrir nokkrum árum sem fjölskyldan skiptist á að dvelja í. Við höfum verið hér síðan fyrir helgi og veðrið er ótrúlega gott en það hefur varla fallið dropi úr lofti síðan í byrjun júní hér vestra. Hitinn á pallinum á milli hárra trjánna við bústaðinn er slíkur að maður helst helst ekki við.

Í gær sóttum við minn unaðsstað í Dýrafirðinum. Í Haukadalnum þar sem ég fæddist er aðeins búið á einum bæ en flestir hinir eru í eigu afkomenda sem byggt hafa upp gömlu bæina eða byggt sér nýjan bústað á sínum reitum.

Í gamla skólanum á staðnum, þar sem afi minn var skólastjóri og kenndi börnunum í sveitinni í sinni tíð er nú fallegt athvarf frænku minnar en faðir hennar og móðurbróðir min, Bjarni heitinn Helgason skipherra keypti skólann fyrir margt löngu. Frændfólk mitt hefur verið meira en ljúft að eftirláta okkur Magnúsi tíma í skólanum sínum í Haukadal á hverju sumri síðustu tuttugu ár.  Haukadalur er Paradís á jörðu en þar bjó Gísli Súrsson forðum og má finna menjar eftir þá búsetu enn í dag.

Dalurinn skartaði sínu fegursta í gær en í enda hans trónaði Kaldbakur, hæsta fjall hér fjórðungsins. Í hlíðum hans kvaddi Einar Oddur deginum áður Á meðan við dáðumst af fegurð hans reikaði hugur okkar til Einars heitins og fjölskyldu sem við vottum samúð okkar. En okkur var líka hugsað til þess að ef einhverstaðar eru forréttindi að fá að kveðja þetta mannlíf, þá er það í hlíðum þessa fallega fjalls í heiðríkjunni daginn þann. 

Í Húsatúni, eina byggða bænum í dalnum hjá Unni, ekkju Valdimars frænda míns var gestkvæmt að vanda. Hún stóð við eldavélina og bakaði pönnukökur ofan í alla gestina sem alla jafnan sækja hana heim. Hemmi Gunn. var brúnn eins og svertingi eftir nokkurra vikna dvöl. Hann þurfti suður í dag og var ekki sérlega spenntur að þurfa að yfirgefa þennan unaðsreit sinn. 

Litlu tíkurnar mínar. þær Fura og Vilja voru í essinu sínu og nutu þess að fá að hlaupa um tún og engi frjálsar eins og fuglinn. En þær gættu þess vel að fara ekki lengra en svo að við værum í augsýn.

Spáin framundan er góð og eftir því sem sólin og hitinn bræðir mann, því latari verður maður. En það er enginn hætta; hér er hreint ekki hægt að láta eftir sér letina. Ísafjörður þessi fallegi bær iðar af mannlífi og í kaffihúsum og veitingahúsum bæjarins er fullt út úr dyrum og hvarvetna setið utandyra langt fram eftir kvöldi í logninu sem einkennir bæinn. 

 


Ekki er allt sem sýnist - sannleikurinn um hvers vegna ungi píanósnillingurinn brast í grát

 

Í færslu fyrr í vikunni sagði ég frá brúðkaupi sem ég sat í boði bróður míns, Ásgeirs, kenndum við Goldfinger. Þar var margt um manninn og hæfileikaríkir gestir stigu á svið og skemmtu gestum. Þeirra á meðal var lítill píanósnilliningur sem kom sá og sigraði enda einstaklega fær á hljómborðið og lék erfiðustu verk sem kröfðust einstakrar tækni og fingrafimi á nótnaborðinu, með glæsibrag.

Nokkrir fjölmiðlar hafa tekið upp þessa frásögn og vitnað í síðu mína af því tilefni og umsjónarmenn Íslands í dag sáu auk þess ástæðu til að spjalla við þær mæðgur. Það gerði Sölvikollegi minn með miklum sóma. Hann sýndi viðtalið nánast ókippt sem er nánast einsdæmi. Mér fannst það raunar orka tvímælis, einkum og sér í lagi fyrir þær sakir að  femínistakórinn myndi reka upp rammakvein og segja: "Sjáið bara, er þetta ekki einmitt það sem við erum alltaf að tala um!  Við höfum alltaf sagt að þessar stúlkur dansi hér nauðbeygðar og þyki svo skelfilegt að þurfa að gera það að þær gráta með ekkasogum þegar minnst er á þennan viðbjóðslega dans? Svo ekki sé talað um blessað barnið  sem skammast sín svo mikið fyrir starf móðurinnar að hún getur ekki talað um það án þess að bresta í grát?"

Þetta var nú vatn á millu harmakveinakór femínistana. Jú mikið víst, litla stúlkan brast í grát í miðju viðtali þegar talið barst að móður hennar sem er læknir og starfaði í Úkraníu og ber úr býtum innan við tvöhundruðdollara á mánuði. Obbi femínistakórsins og vafalaust fleiri skoðanasystur og bræður áyktuðu sem svo að ekki væri vafi á að rekja mætti grátinn til þess að móðirin dansar á næturklúbbi á Íslandi fussum svei! Hvað annað? 

En margur heldur mig sig mátulega dyggann....; Og, jú, hvað annað; auðvitað grét hún vegna þeirrar staðreyndar að móðir hennar er nauðbeygð til að starfa við þá skelfilegu iðju að dansa á næsturklúbbi. Það passaði svo undur vel við málflutning femínistakórsins að annað gat hreint ekki verið!!!

Eða hvað? Það er hreint ekki allt sem sýnist. Þeir sem hugsa skammt hafa nefnilega hvorki getu né visku til að hugsa hlutina nema út frá sjálfum sér. Sjóndeildarhringurinn nær ekki lengra en svo og fyrst að femínistakórinn grætur og heldur fram að allar stúlkur sem hingað komi og dansi, séu annað hvort vændiskonur eða þær séu undir hælnum á mansalsbófum sem selji þær til Íslands til að dansa. Eða jafnvel eitthvað enn verra; líklega hreinar gærur eða jafnvel saklausar ungar stúlkur sem seldar hafa verið mansali

En þeir sem hugsa aðeins lengra vita að  dæmið er svo er ekki svona einfalt. Það vill svo til að ég veit upp á hár, frá fyrstu hendi hvers vegna litla slúlkan grét. Og það var ekki af skömm, svo mikið er víst. Mergurinn málsins er nefnlega sá að stúlkan brást í grát þegar Sölvi minntist á það við móðurina að hún legði allt í sölurnar til að geta kostað nám dótturinnar og þyrfti að vera langdvölum fjarri barni sínu og ættingum til að sá draumur geti ræst.

Stúlkan féll ekki í grát vegna þess að hún skammst sín fyrir starf móðurinnar. Þvert á móti. Gráturinn spratt fram þegar Sölvi sneri sér að þeirri litlu og spurði hvort ekki væri erfitt að vera svona lengi í burtu frá mömmu. Hve langur tími liði á milli þess sem þær mæðgur hittust. Og þá beygði hún af blessunin. Hún er háð móður sinni og líður fyrir að vera heima hjá ætingjum þegar mamma hennar fer burtu til að afla peninga til menntunnar hennar. Þetta hef ég fengið staðfest og sannreynt eftir að hafa rætt við þær mæðgur og Sölva fréttamann á Stöð 2.

Allt lagðist á eitt fyriri þetta viðtal sem kom þeim allfarið í opna skjöldu. Um hádegi óskaði Sölvi eftir viðtali við mæðgurnar en þær fengu ekki nema nokkurra mínútna umhugsunarfrest því innan klukkustundar þurftu þær á vera mættar í upptöku í Skaftahlíð. Þær voru bæði mjög spenntar og feimnar og voru tregar til að mæta með svo skömmum fyrirvara. Fyrir þrábeiðni gáfu þær eftir en þær voru báðar yfirstressaðar í upptökunni og þegar barnið fór að tala um langar fjarvistir frá móðurinni, hve mikið hún legði á sig fyrir tónlistarnám hennar og þá staðreyn að hún væri loksins komin til hennar á Íslandi bognaði sú stutta. Og því segi ég og skrifa; hún grét af taupaspennu, þakklæti til móðurinnar sem er tilbúin að leggja land undir fót og dasa víða á næturklúbbum til að kosta nám dótturinna. En grátur hennar kom skömm ekkert við eins og látið er að liggja í einu dagblaðana í gær.

Oft sjást þær ekki nema nokkra daga á fleiri mánaða fresti en stúlkan er aðalega í skóla í heimalandinu auk þess sem hún fer og tekur þátt í keppnum ungra píanóleikara víða um lönd enda talain mjög efnileg og hefur í að minnsta kosti þrígang verið í eftu þremur sætunum.

Hún sagði eftir að hafa jafnað sig og var komin heim að hana hafi einmitt langað mest að segja hve stolt hún væri að móður sinni að leggja fyrir sig dansinn. Það væru sko ekki allar mömmur sem hefðu bein, vilja og kjark til að dansa á næturklúbbi í þágu afkvæma sinna. Líklega var hægur vandi að misskilja grát hennar og það kaus stór hluti þjóðarinnar að gera. Það hentar betur og þá er hægt að benda og segja: ...sagði ég ekki, þetta erum við alltaf að berjast fyrir; hugsa sér þær gráta vegna vinnu móðurinnar; skefilegt að heyra....

Nú eru þær mæðgur sameinaðar á ný, Geiri bauð pínósnillingnum unga til landsins en það hefur tekið fleiri mánuði að fá það í gegn. Hér stundar hún nám í píanóleik og það kostar ekki fáa aura að borga einkatímana sem hún fer í. Mig minnir að þær hafi upplýst að þriggja klukkustunda tími hjá kennara hennar kosti í kringum 25. þúsund krónur í hvert sinn.

Hvernig á læknir frá Úkraníu með innan við 12 þúsund íslenskar. á mánuði að geta fjármagnað nám dótturinnar auk þess að kosta hana hingað og þangað um Evrópu í keppni. Hennar eini kostur var að flytja til Vesturlanda og verða sér út um vel borgaða vinnu. Hún segir enda að hún líti ekki á starf sitt öðruvísi en hverja aðra vinnu.

Hún hefur gaman af að dansa en karlmenn, hve mikið sem þá langar, geta ekki undir nokkrum kringumstæðum fengið hana til að leggja lag sitt við þá utan vinnutíma. Hún er nefnilega bara venjuleg kona sem eldar heima, horfir á sjónvarp, fer á skíði, bíó, heimsóknir til kvenna eða út að hlaupa. Nú eða bara að vera með elskulegri dóttur sinni frítímanaum, slaka á heima með handavinnu í höndunum eða horfir á sjónvarp. Þessi úkraníska kona er nefnilega ósköp venjuleg móðir, rétt eins og við flestar.

Og svona rétt í lokin; á hinum ýmsu spjallsíðum og bloggfærslum tjáðu áhagendur femínistakórsins sig um þetta mál og þeim fannst út í hött að konur þyrftu að dansa súludans til að geta kostað tómstundir barna sinna. Og svo fussuðu þær og sveiuðu. En þið kæru manneskjur sem fussuðu sem mest, Sjáið þið aðra leið fyrir þessa konu til að mennta barnið sitt eins draumin sem hún elur í brjósti sér? Endilega látið mig þá vita, ég skal koma því til hennar hvar hún geti fengið laun sem hafa eitthvað að segja í núverandi laun á Goldfinger,. Eða leigja sér íbúð, kaupa bíl og allt sem hver Íslendingur þarf að eignast svo hann komist af...? Endilega látið þig mig vita.

Og til upplýsinga, þá vinnur bróðir minn hörðum höndum að því að fá dvalarleyfi fyrir litlu stúlkuna hér áfram svo hún geti búið hjá mömmu sinni hér á landi á meðan og stundað sitt nám. En það er ekki tekið út með sældinni að standa í Útlendingastofnun og kerfinu sem við höfum byggt upp í kringum okkur.

 

 


Snemma beygist krókurinn...

Fyrir nokkrum misserum skrifaði ég nærmynd af Magnúsi Ármann og vini hans Sigurði Bollasyni fyrir DV. Ég falaðist eftir upplýsingum um þá félaga hjá mörgum sem þekktu þá vel og sumir höfðu verið samhliða þeim allt frá barnæsku.

Mér er minnistætt hvernig félagar Magnúsar lýstu honum en allir voru þeir sammála um að viðskiptaeðlið væri honum í blóði borið og hefði vaknað snemma. Smágutti í Breiðholtinu var hann komin í hörkubissnes og hugmyndaflug hans var ótakmarkað. Margir þeirra sem tjáðu sig um Magnús sögðu að ekki hefði farið á milli mála að hann ætti eftir að spjara sig, sem síðan hefur komið á daginn. Sögurnar af Magnúsi flögruðu upp í huga minn fyrir helgina þegar dóttursonur minn sem er rétt sjö ára kom heim með box fullt af smámynt. Um hann miðjan hékk taska hálf full af grjóti. "Hvar fékkstu alla þessa peninga?" spurði ammanáhyggjufull og sá stutti svaraði sannleikanum samkvæmt að hann ætti þá. "Fólkið borgaði mér fyrir steinana mína," svaraði hann og vísaði í grjót sem hann hafði fundið hér og þar og safnað inn á pallinn á bak við hús. Í ljós kom að hann hafði farið af stað með vini sínum,gengið í húsin í hverfinu og boðið fólki grjót til sölu fyrir 30 krónur stykkið.

Afraksturinn, um það bil 2000 krónur voru í boxinu sem hann rétti afa sínum og sagði: "Afi, bankinn á að fá þessa peninga líka. Hvað á ég þá mikið inn í bankanum?"

Drengurinn er óþrjótandi safnari. Heim ber hann allskonar drasl sem hann hefur hinar mestu mætur á. En að honum dytti í hug að fara af stað og selja grjót á 30 kall stykkið fannst mér með ólíkindum. Ég spurði hvort hann hefði ekki gefið til baka þegar fólk borgaði með gullpening. Nei aldeilis ekki, hann vildi sko ekki gefa peningana aftur sem hann var búinn að selja fyrir og safna. Peningavitið nær ekki lengra en það að hann áttar sig ekki einu sinni á verðgildi þeirra. En peningarnir eru vel geymdir hjá afanum sem á eftir að gera sér ferð í bankann með þá auk þeirra aura sem barnið fékk í afmælisgjöf en allir peningar sem honum áskotnast fara beint í sparnað og hefur svo verið allt frá því hann fæddist. Svo er bara spurningin hvort þeir fuðra upp og verða að engu eins og peningar móður hans gerðu frá því hún var á svipuðum aldri. 

Dansar á Goldfinger til að fjármagna tónlistarnám dóttur sinnar, sem er ellefu ára píanósnillingur

Ég var eins og fjórðungur þjóðarinnar í búðkaupi í gær. Bróðursonur minn Helgi Bersi Ásgeirsson gekk í hjónaband en Ásgeir Þór bróðir minn hélt Helga Bersa og eiginkonu hans veglega veislu eftir athöfn í Kópavogskirkju sem fram fór kl. 13.00. Nokkuð óvenjulegur tími en það var 7. júní og eftir því sé ég best veit voru í kirkjunni gefin hjón saman á klukkustundar fresti allan daginn.

Eins og Geira er vandi var boðið af rausn en það var dálítið einkennilegt að sitja undir borðum svo snemma dags og njóta þriggja rétta máltíðar með tilheyrandi drykkjum. Meðal skemmtikrafta var Geir Ólafs sem kom og söng tvö lög en Geir sagði mikið að gera en hann átti fyrir höndum áð syngja í sex brúðkaupum þennan dag.

Brúðkaupsgestir voru í kringum hundrað, stórfjölskyldan, vinir og aðrir sem að Geira standa. Erpur Eyvindarson er meðal vina Geira og hann heldur ekki svo boð að rapparinn sé ekki meðal gesta. Í þetta sinn fór Erpur á kostum og rappaði til brúðhjónanna og fjölskyldunnar auk þess að taka tvo skemmtilega bragi um spillinguna í kringum Árna Johnsen. 

En mest á óvart kom ellefu ára stúlka frá Úkraníu sem lék sónötu eftir Chopin á píanó og annað verk sem ég ekki þekkti sem krafðist mikillar tækni og fingraæfinga. Það var ótrúlegt að sjá og heyra til þessara ungu stúlku sem hefur þegar unnið til verðlauna erlendis.

En það sem mér fannst enn merkilegra við hana er að hún er dóttir eins dansara á súlustað Geira, Goldfinger. Já, einnar þeirra kvenna sem Geiri hefur verið ásakaður um að selja og beita ofbeldi með því að loka inni. Móðirin sú var einnig í veislunni, bráðmyndarleg en hún dansar til að fjármagna tónlistarnám dótturinnar. Þær búa báðar hér eins og hverjar aðrar mæðgur, mamman fer í vinnu nokkur kvöld í viku og dóttirin stundar nám.

Ekki var á þessum mæðgum að sjá að þær væru mansalsfórnarlömb. Einkar viðkunnalegar og dóttirin litla hafði yfir sér yfirbragð sem ég man ekki til að hafa séð meðal íslenskra jafnaldra hennar. Eitthvað sem ekki er hægt að skilgreina en það voru fjaðurmagnaðar hreyfingar og reisn sem einkennir aðeins snillinga enda efast ég ekki um að það eigi eftir að heyrast frá þessum unga píanósnillingi í framtíðinni. Hún var hreint ótrúleg og brúðkaupsgestir urðu gjörsamlega hvumsa þegar hún hóf að leika á píanóið. Fingur hennar renndu yfir hljómborðið eins og þeir kæmu ekki við það og hendurnar gegnu í kross á meðan. Þeir sem til þekkja vita að sónötur Chopin eru sumar erfiðar og ekki fyrir aukvisa að leika.

Það hvarflaði að mér að femínistar þessa lands sem heyrist hvað hæst í þegar forsjárhyggja þeirra brýst fram ættu að hitta móðurina og fá á hreint hjá henni hvernig henni líður hér með dóttur sinni sem hún leggur allt í sölurnar fyrir en víst er að hún gæti ekki einbeitt sér að því að styðja dóttur sína í tónlistarnáminu nema fyrir það sakir að hún dansar súludans á Íslandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband