Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
11.12.2006 | 07:06
Blaðið hennar Siggu Daggar
Mér finnst menn vilja misskilja Siggu Dögg þegar vitnað er til þess sem hún segir um nýja blaðið þeirra Valda sem þau eru með í burðarliðunum. Menn sem hér á blogginu hafa lagt út af þessum orðum vita alveg hvað hún er að fara þegar hún segir:
Í anda Pulitzer, verður stefna þessa nýja vikurits að eiga ekki neina vini. Auk þess mun blaðið aðeins hafa eina skoðun - að vera alltaf á móti.
Auðvitað er hún að tala um að blaðið eigi að vera gagnrýnið og ekki handbendill neinna afla. Þannig ættu allir fjölmiðlar að vera og ég get ekki annað en fagnað tilkomu þessa blaðs. Sigga Dögg er klár, metnaðarfull og kraftmikil ung kona sem ég trúi að eigi eftir að ná langt á þessu sviði. Það er snjall leikur hjá henni að fá Örnu sér við hlið því fáir eru betur tengdir inn í pólitíkina en Arna.
Arna er líka eldklár og metnaðarfull en hefur alls ekki notið sín á Mogganum. Ég veit að í henni býr langtum meira en hún hefur haft svigrúm til að sýna þar. Ég hef þekkt Örnu lengi og veit hvaða kostum hún er búin. Það verður meira en gaman að fylgjast með þessu blaði, einkum og sér í lagi þar sem konur verða í meirihluta á ritstjórninni.
Ég óska Siggu Dögg, Valda og væntanlegri ritstjórn til hamingju með þetta framtak og hlakka til að fylgjast með.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.12.2006 | 00:54
"Minningagreinar" Páls Ásgeirs um látna fjölmiðla
Páll Ásgeir Ásgeirsson skrifar enn eina "minningargreinina" um fallna fjölmiðla í nýjasta hefti Ísafoldar. Páll Ásgeir er að mörgu leyti skemmtilegur penni og kann að orða hlutina. En þar með eru gæði þessara greina upptalin, því rangfærslurnar eru svo margar að ég furða mig á því hvernig hann gat látið þetta frá sér.
Ég get sagt þetta því það vill svo til að ég hef unnið á tveimur þeirra fjölmiðla sem hann skrifar um og þekki prýðilega til eins til viðbótar. Hann skrifaði grein í Mannlíf, á meðan Reynir ritstýrði því, um fall DV og vitnaði þar í nokkra fyrrverandi og þáverandi starfsmenn sem sumir að minnsta kosti, báru að ekki væri rétt eftir þeim haft, heldur bætt í og tekið út. Ég var í mitt í hringiðunni allan tímann sem DV kom út sem dagblað og veit giska vel hvað fram fór á ritstjórninni. Ég kannaðist ekki við helming þeirra fullyrðinga sem fram kom í þeirri grein.
Í Ísafold nú, er Fróði til umfjöllunar allt frá upphafi fram að eigendaskiptum og jafnvel eftir að Birtingur varð til. Ég get ekki tjáð mig um fyrri ár, því um þau veit ég lítið, en svo mikið veit ég að Páll Ásgeir veður í villu og svima í síðari hluta greinarinnar. Það stendur ekki steinn yfir steini í þeim hluta sem mér ætti að vera vel kunnugur og spurning hvort verra er allt sem hann lætur ósagt eða sagt.
Hann vitnar ekki í nokkurn mann og gaman væri að vita við hvern hann hefur talað við vinnslu þessarar greinar. Eða hlustaði hann bara á orðið á götunni og skrifaði síðan grein?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.12.2006 | 23:33
Kostar blóð, svita og tár að finna gjafir sem enda inn í skáp
Ég lofaði sjálfri mér því að taka ekki þátt í öllu kaupæðinu fyrir jólin og mér hefur tekist það nokkuð vel að vera í rólegheitum og smitast ekki af því brjálæði sem hvarvetna blasir viði þegar maður nálgast verslunarkjarna eða miðbæinn. Hvað mér býður kaupæðinu og brjálæðinu í þjóðfélaginu þessa dagana!
Ég get eigi að síður ekki breytt því að ég þarf að kaupa jólagjafir fyrir mitt fólk. Gjafir sem kannski enda inn í skáp eða í einhverju rusli eins og hjá mér. Í sumar þegar ég flutti þá pakkaði ég niður úr heilum skáp ósnertum jólagjöfum frá fyrri árum. Glösum í kössum, innpökkuðum bollum, sleifum, kertastjökum og hinu og þessu sem fólkið mitt hafði af gæsku sinni valið til að gefa mér.
Ég efast ekki um að það hefur kostað margan blóð, svita og tár að finna réttu gjöfina fyrir mig sem síðan endaði inn í skáp. Ég efast heldur ekki um að í skápum fólksins míns er að finna það sem ég snerist í hringi yfir í fyrra og árið þar áður við að velja handa því í jólagjöf. Kannski ekki hjá öllum en klárlega mörgum.
En staðreyndin en er nú samt sú að hvorki mínu fólki né mér sjálfri er ekki nokkur greiði gerður með öllum þessum gjöfum. Væri ekki nær að þeir sem þyrftu á að halda fengju andvirði þeirra? En þá er spurningin hverjir og hvernig ætti ég að koma því við?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.12.2006 kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.12.2006 | 08:11
Rússnesk rúlletta að búa í Hveragerði!
Ég hef alltaf verið svag fyrir að búa í útjaðri byggðar þar sem stutt er út í náttúruna. Tók því þá ákvörðun í sumar að flytja í Hveragerði. Þorði þó ekki að taka skrefið til fulls og kaupa mér hús þar, heldur leigði mitt í Hafnarfirði og fékk lánað annað eystra með það í huga að ganga alla leið ef mér vel líkaði. Það sem eftir lifði sumars var ég sæl og ánægð og fannst ekki mikið mál að skreppa þetta á milli.
En eftir að vetur fór að herja á og myrkur að hellast yfir hafa runnið á mig tvær grímur; það er nefnilega ekkert grín að aka Suðurlandsveg í myrkri, hálku, hríðarmuggu eða bara yfirhöfuð við bestu skilyrði. Það er rússnesk rúlletta eins og sýndi sig um helgina þegar helgarfaðir með börnin sín ók í mesta sakleysi þessa leið með hörmulegum afleiðingum.
Ég þarf ekki að taka það fram hve innilega ég samhryggist því blessaða fólki sem nú á um sárt að binda. En það breytir ekki því að mig hryllir við að allt eins hefði það getað verið minn maður, mín börn eða einfaldlega ég sjálf sem lægjum á líkbörum eða örkumluð nú. En í þetta sinn var það mitt lán; hver veit hvort það verður á morgun eða í næstu viku?
Þrátt fyrir stór orð þegar við á, að mannslíf séu ekki metin til fjár, þá er Suðurlandsvegur talandi dæmi um að mannlíf eru einmitt metin til fjár. Það fé nota þeir sem stjórna bara í annað, eins og tryggja sjálfum sér himinhárra eftirlauna eða í eitthvað síður huggulegt.
Ég á útgönguleið og þarf ekki að búa áfram í Hveragerði. Ég þarf því ekki að vera með lífið í lúkunum eins og nú í hvert sinn sem ég fer um veginn eða veit af mínu fólki á ferðinni. En það er hart fyrir þá sem vilja búa í jafn ágætum bæ og Hveragerði að lifa við stöðugan ótta. Við getum ekki réttlætt það lengur að gera ekkert í þessum málum. Við eigum valið og getum haft áhrif á hverjir halda um stjórnartaumana að vori. Gleymum ekki og notum þann rétt okkar.
---------------------------- ----------------------------
Bæti því við hér að gefnu tilefni að Hellisheiðin er sannarlega ekki erfiðasti tálminn á leið austur; það er Svínahraunið og niður fyrir Bláfjallaafleggjara sem erfiðast er að aka. Þar er vegurinn þröngur og 2+1 kaflar þar aðeins einn á suðurleið og tveir á austurleið. Ég hef það fyrir vana að fara aldrei framúr, heldur bíð þess að koma á 2+1 kafla og nota þá tækifærið. Þegar vegurinn er blautur og stirnir á hann í myrkri og umferðarþungi mikill er vonlaust að nota háu ljósin. Það þarf ekki mikið út af að bera né hraðinn að vera mikill til að maður missi tökin því vegurinn er svo þröngur að ljósin á móti blinda auðveldlega enda engin lýsing til að draga úr áhrifunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.11.2006 | 22:48
Gummi Steingríms veit hvað hann syngur
Gummi Steingríms kemst greinilega að sömu niðurstöðu og ég, eftir að hafa hlustað á klapp Framsóknarmanna á miðstjórnarfundi þeirra þegar Jón talaði um Íraksstríðið að gjörðir Halldórs hafi verið misstök. Ég er þá ekki ein um að spyrja spurninga á þennan veg, þó engin fái ég viðbrögðin við spurningum mínum frá þeim sem geta svarað.
28.11.2006 | 00:10
Taumlaus foringjadýrkun í Framsókn
Þeir lesa augljóslega ekki bloggið mitt þeir Pétur og Denni, nema þeim finnist spurning mín svo arfa vitlaus að hún sé ekki svara verð. Ótrúlegt þykir mér að ég hafi orðað spurninguna svo illa að þeir hafi ekki áttað sig á hvað ég var að fara. Það var augljóst og ég hefði þess vegna getað spurt hreint út: Er það taumlaus foringjadýrkunin í Framsókn sem hefur komið veg fyrir að þingmenn og flokksmenn hafa setið með stein í hjarta allan þennan tíma og ekki sagt múkk vegna þessa máls.
Ég gat ekki skilið Hjálmar Árnason öðruvísi í Kastljósi í kvöld. "Maður stendur með formanni sínum," sagði hann. Í mínum huga er það ekki annað en flokkseinræði og ég spyr: Hvernig er að vinna innan flokks þar sem ekki má segja múkk og menn þurfa að bíða eftir línunni frá formanninum áður en þeir tjá sig um mál? Svo mikið veit ég, að ekki færi ég vel í þeim flokki. Það er kannski þess vegna sem ég hef aldrei starfað innan stjórnmálaflokks þrátt fyrir að hafa átt þess kost nokkrum sinnum í gegnum tíðina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2006 | 09:10
Skiptu Framsóknarmenn um skoðun í gær eða skrökvuðu þeir alltaf?
Ræða Jóns Sigurðssonar á miðstjórnarfundi flokksins var merkileg fyrir margra hluta sakir. Fer nokkuð furðulega leið af stað í kosningabaráttuna við að heilla kjósendur, en án efa árangursríka. En það sem vakti mína eftirtekt var klapp fundarmanna, nánast áður en Jón náði að ljúka játningunni um Íraksstríðið.
Því spyr ég fyrrverandi vinnufélaga mína, Denna og vin minn Pétur Gunnarsson sem báðir eru innstu koppar í búrum í flokknum; hvers vegna flokksmenn hafa haldið fast í þá skoðun að rétt hafi verið að taka þessa ákvörðun á sínum tíma. Hví hafa þingmenn flokksins varið þessa gjörð hægri vinstri frá því þessi hörmungarsamþykkt var gerð? Hvers vegna hefur enginn þorað að taka af skarið og sagt: "Þetta voru skelfilega mistök?". Já, ég veit vel að Kristinn Gunnarsson var aldrei sammála ykkur, tók afstöðu með þjóðinni og hefur sannarlega verið látin gjalda fyrir það.
Augljóst var að heyra á fundarmönnum að þeim var mjög létt og tóku þessum orðum Jóns með mikilli gleði; það sannaði klappið. Því spyr ég ykkur kæru fyrrverandi vinnufélagar: Er ekkert flokkslýðræði til innan Framsóknarflokksins? Voru allir þeir sem klöppuðu alltaf fullvissir um að Halldór og Davíð hafi gert rétt, eða skiptu þeir um skoðun í gær?
Nú getið þið alveg afgreitt þetta með því að segja að ég hafi ekkert vit á pólitík. Þannig sé það nú bara að í flokkum að menn verði að vera sammála um stefnuna. En þetta mál er bara alls ekki þess eðlis. Þetta er líka tilfinningamál og það hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með, að meirihluti þjóðarinnar var og hefur verið þessu andvígur. Ég er heldur ekki svo vitlaus að ég viti ekki að í flokkum eru til stefnuskrár sem flokksmenn eru samþykkir í megindráttum. Með stefnuskránni grundvallast það hverjir fylgja flokknum.
Og já, já. Ég hef ekki meira en rétt meðalvit á pólitík. Og kannski minna en það. Hef sett mig inn í einstaka mál starfs míns vegna, en verið fljót að gleyma aftur þegar eitthvað annað kemst í umræðuna. Stundum gleypi ég meira að segja hráar skoðanir annarra. Læt jafnvel snúa mér 90° í einstaka málum, en aldrei án raka sem ég kaupi.
En er ekki orðið eitthvað meira en lítið furðulegt við þetta allt saman, ef þeir sem skipt hafa um skoðun eða voru aldrei sammála, hafa þurft að ljúga upp í opið geðið á okkur öllum með því að halda fast við réttmæti aðgerðanna? Er ekki einmitt það sem blasir við? Nefni í því sambandi viðsnúning Guðfinnu Bjarnadóttur í Sjálfstæðisflokki þegar hún vildi breyta svari sínu um réttmæti ákvörðunar um stuðning í Fréttablaðinu fyrir skömmu.
Hafa ekki allir þingmenn Framsóknarflokksins sagt hvar og hvenær sem þeir hafa verið spurðir að þeir séu sannfærðir um ákvörðunin hafi verið rétt á sínum tíma? Þess vegna er ég að spyrja að þessu.
Bæti hér við eftir að ég skrifaði þessa færslu að ég er greinilega ekki ein um skilja ekki hvers vegna Framsóknarmenn hafa þagð þunnu hljóði, ekki sagt satt eða eru bara hreinar og klárar rolur sem ekki þora öðru en halda sig við flokkslínuna. Þetta las ég í morgun inn á Silfri Egils.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.11.2006 | 01:30
Þegar Davíð pakkaði Össuri
Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las þessa færslu um fimi Össurs í ræðustól hvernig fór fyrir honum fyrir margt löngu í viðureign við Davíð. Það er svo langt síðan að ég man ekki einu sinni hve langt, en Össur var þá ritsjóri Þjóðviljans og bauð sig fram fyrir Alþýðubandalagið í borgarstjórn.
Við andstæðingar Davíðs bundum miklar vonir við hann og töldum að ef einhver gæti staðið upp í hárinu á Davíð væri það Össur. Það var með nokkurri eftirvæntingu sem beðið var eftir umræðuþætti í sjónvarpi þar sem þeir tækjust á. Það fór á annan veg. Davíð pakkaði Össuri svo illa saman að meira að segja við, harðir andstæðingar Davíðs máttum viðurkenna ósigurinn. Það fór líka svo að Sjálfstæðisflokkurinn bar sigur úr býtum í kosningunum þetta vor og Davíð varð borgarstjóri. Ætli þetta hafi ekki verið 1982.
Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið og Össur kallinn lætur engann eiga neitt inni hjá sér lengur, svo ekki sé meira sagt. Hann þarf ekki lengur að óttast að tapa fyrir neinum í orðsins list - ekki einu sinni Davíð Oddssyni. Það sýndi hann oftar en ég man á meðan báðir voru á þingi.
19.10.2006 | 18:53
Að murka lífið úr sjálfum sér
Ýkjulaust, þá er ég að murka hægfara úr sjálfri mér lífið með reykingum. Er farin að finna verulega fyrir fylgikvillum þessara djöfullegu reykinga. Hefur ekkert að segja, kveiki bara í annarri og hugsa allan tímann hve illa hún fari með mig. Segi við sjálfa mig um leið og ég drep í að nú sé nóg komið, á morgun hætti ég!
Og morgundagurinn rennur upp. Eins og alla aðra daga geng ég blindandi að kaffikönnunni og kveiki á henni. Klára nauðsynleg morgunverk, klæði mig, laga einn rótsterkan og bráðhollan expressó, smyr eina brauðsneið, drattast fram að dyrum og tíni upp blöðin, sest við eldhúsborðið, neyði ofan í mig brauðsneiðina og með sömu þrælslundinni og alla morgna frá nítján hundurð og sextíu og eitthvað - kveiki ég í sigarettunni.
Hef aldrei náð að hætta lengur en þrjá daga. Þá var ég á spítala og gat ekki reist höfuð frá kodda. Sigarettupúkinn var mættur á öxlina á mér um leið og ég skrölti á fætur og hvíslaði í eyrað á mér að kveikja nú í. Svo fann ég hvernig hann kættist og fitnaði. Þrælinn var ekki sloppinn!
Og Winston kallinn í Ameríku verður alltaf ríkari og ríkari. Ég aumari og aumari enda dyggur þræll hans. Markmiðið er auðvitað að halda mér reykjandi þar til að hann kemur mér í gröfina. Kannski að sigarettunum hans takist að kippa undan mér löppunum áður. Huggulegt að rúlla sér áfram í hjólastól með sígarettuna í kjaftinum og kútinn á öxlinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.10.2006 kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)