Færsluflokkur: Fjölmiðlar og fólk

Fíkilinn verður að fá sinn skammt

Það eru víst allir mínir dyggu lesendur að hverfa af blogginu mínu og við engan að sakast nema sjálfa mig. Allt snýst þetta auðvitað um að vera iðinn við kolann og viðra skoðanir sínar reglulega, vitna í önnur blogg, skrifa smásögur eða rífa kjaft.

Ég hef ekki verið í formi til skrifta að undanförnu enda heima í veikindafríi. Það er erfitt að vera ekki í vinnu þar sem hún er svo stór hluti af lífi manns. Nánustu samstarfsmenn verður hluti þess og þau nánu tengsl sem maður myndar við vinnufélagana eru rétt eins og við fjölskylduna. Síðustu sex ár hef ég unnið mikið og vinnan hefur verið mitt líf. Hvergi hefur mér liðið betur en einmitt þar og helst sem lengst hvern dag. Ég hef heldur ekki látið mitt eftir liggja og eins mikill fíkill og ég er þá hefur langur vinnudagur, spennan og félagarnir verið mitt dóp.

Í mínu lífi er víst lítið um milliveg; það er annað hvort eða. Ég var að tala við einhvern í síma um daginn sem var að tala um að einhver honum tengdur væri að vinna svo mikið. Það var hjúkrunarfræðingur á skurðstofu sem var á aukavakt. Hafði mætt átta þann morgun og það var svo mikið að gera á skurðstofunni að hún reiknaði með að vera fram á nótt. Og trúi því hver sem vill; um mig fór sæluhrollur, ja svona rétt eins og ein allsherjar víma og fann fyrir öfund. Mikið ógeðslega átti hún gott.

"Það átti nú við hana Vindu" að vera í slíku ati þar sem allt var á fullu adrenalínið  og endorfínið á bullandi í heilanum. Ég kannaðist svo við tilfinninguna í fluginu forðum daga þegar mikið var að gera eins og pílagrímaflugi. Þá var aðeins tekin lögboðin hvíld og síðan farið aftur af stað. Samfelld víma í heilan mánuð eða tvo. Fyrstu árin á Fréttablaðinu voru ekki síðri þegar við unnum eins og þurftum; stundum fram að miðnætti eða lengur; heim að sofa nokkra tíma og mætt aftur eldsnemma um morgun.  

Á DV, skemmtilegasta vinnustað sem ég hef verið á voru ófáir dagarnir þeim líkir; allt á fullu þar sem staðið var yfir manni á meðan lögð var lokahönd á viðtal eða frétt. Rifið úr höndum manns og komið í lestur og umbrot. Eða þegar eitthvað mikið var að gerast í fréttum og legið í símanum til að ná því sem maður þurfti í forsíðufrétt. Það var æðislegt kikk þegar það tókst. Jess, þetta er komið! Hvílík fullnægja!

En að vera vinnualki hittir mann í bakið; það eru takmörk fyrir öllu. Maður getur gengið á varagasinu í einhver ár, en svo kemur skellurinn og álagið segir til sín. Og það er sannarlega hægara í að komast í en úr að fara. En það er engin hætta; þegar ég sný til baka mun ég láta til mín taka. Og að ætla mér að fara varlega og vinna eins og manneskja er ekki inn í myndinni; það er annað hvort eða; ekki vegna þess að það væri mér ekki fyrir bestu heldur þekki ég það allt i kringum mig og jafnvel af eigin raun að fíkilinn getur aldrei neytt dóps í hófi. Hann verður að bergja flöskuna  til botns og hugsar ekki eitt andartak um hvað er honum fyrir bestu; fíknin tekur völdin. Það er þó mitt lán, kannski í óláni að eiga sér vinnuna að fíkn.

Á meðan ræðst maður ekki á eitthvað sýnu verra eins og kókaín gras eða önnur þaðan af verri efni. Svo ég tali nú ekki um blessað helvítis brennivínið. Ef mér þætt víman sú eins góð, þyrfti ekki að spyrja hvað um mig hefði orðið. Vísast væri ég full alla daga. Og hjálpi mér þá; þá væri ekki mikið skrifað. Sætti mig því við af mörgu slæmu að vera bullandi vinnualki. Þannig held ég trúlega hinum öfgunum niðri.


Öruvísi mér áður brá - Björn Bjarnason með skemmtilegri mönnum

Forsíða Mallífs - BJörnÖðru vísi mér áður brá!  flaug í gegnum huga minn þegar mér var sagt frá ummælum Björns Bjarnasonar um mig á heimasíðu hans í vikunni. Tilefnið var viðtal sem ég tók við hann og birtist í splunkunýju Mannlífi sem kom út í gær.

Hvað sem okkar fyrri samskiptum líður, þótti  mér vænt um þau orð sem hann lét um mig falla á síðu sinni í gær. .En staðreyndin er sú að hvað sem allrir pólitík líður féll okkur Birni vel að tala saman. Ég vissi það fyrir, að þrátt fyrir allt er Björn með skemmtilegri mönnum þegar hann hefur kastaf af herðum sínum embættismannakuflinum og er bara hann sjálfur en hann hefur oftar en ekki komið mönnum fyrir sjónir sem þumbaralegur, húmorslaus og hreinlega leiðinlegur. Það er ekki furða að mönnum detti í hug að í honum leynist skemmtilegur húmor í lifandi manni með gamanyrði á vör.

Við Björn Bjarnason höfum ekki alltaf verið sammála og hann hefur heldur ekki skafið utan af því á síðu sinni þegar honum hefur mislíkað leiðaraskrif mín í DV. Björn hefur svarað þeim leiðurum á síðu sinni og var ekkert að spara háðið þegar hann benti fram á með rökum að ég hefði ekki alls kostar rétt fyrir mér í öllu. Mér var það ekkert nema mátulegt, að minnsta kosti þegar ég fór ekki rétt með staðreyndir í fljótfærni minni. Það kaupi ég hikstalaust, en eins og alvöru pólitíkus sæmir sneri hann út úr orðum mínum og var ekkert að upphefja mig fyrir það sem satt og rétt reyndist.

En Björn Bjarnason er alltaf málefnalegur í skrifum sínum og hann er ekki vanur að fara með rangt mál út í loftið í skrifum sínum á www.bjorn.is. Hann er ekki öllum sammála, en hann rökstyður sínar skoðanir og bendir á þekkingarleysi annarra í skrifum sínum. Ég kann alltaf að meta það þegar fólk segir hlutina hreint út og er ekki með neina tæpitungu.

En oflof er háð og það er um hálan ís að tipla ef maður ætlar ekki að falla í þá gryfju. Það er alls ekki mín meining; heldur aðeins að tæpa á hve Björn leynir á sér. Ég vissi það að vísu fyrir þegar ég hitti Björn skömmu fyrir páska, vegna viðtalsins í Mannlíf að mér myndi ekki leiðast. Mér var nefnilega í fersku minni viðtal sem ég tók við hann fyrir mörgum, mörgum árum; líklega 10-12 árum síðan þegar hann var ráðherra menntamála. Í löngu viðtali töluðum við nær eingöngu um menntamál og hvað betur mætti fara í þeim efnum. Og trúið mér, það var afskaplega gaman að spjalla við Björn um þau mál. Hann lék á alls oddi og kom mér gjörsamlega í opna skjöldu. Mig hefði aldrei grunað að hann gæti verið eins skemmtilegur og líflegur eins og hann var í samtalinu við mig þá. Og, já afslappaður í samræðum.

Björn var ekki síður afslappaður og skemmtilegur í viðtalinu við Mannlíf. Og öll samskipti við hann í kringum viðtalið voru sérlega þægilega og áreynslulaus. Aldrei neitt vesen eins og svo oft með viðmælendur í löngum viðtölum.

Ég vona bara að lesendum Mannlífs eigi eftir að falla vel þetta viðtal en þar sýnir Björn lesendum áður óþekktar hliðar; er hreinskilinn og ræðir mál sem hann hefur trúlega aldrei eða í það minnsta sjaldan komið inn á í blaðaviðtali. En sjón er sögu ríkari og hvet ég alla sem hafa áhuga að kynnast manneskjunni Birni og þeim hliðum sem snúa að eldamennskufærni hans og samvistunum við eigin börnin þegar þau voru lítil og uppeldinu í aristókratinu í Hliðunum þar sem sumir skólafélagar hans ólust við allt annað atlæti og bjuggu meira að segja sumir hverjir  í bröggum.

Og Björn talaði líka um veikindin sem hafa plagað hann og hvaða áhrif þau hafa haft. Og síðan og ekki síst viðhorf hans og virðingu sem hann bar fyrir föður sínum Bjarna heitnum og móður Sigríði sem hann missti langt fyrir aldur fram í hörmulegu slysi á Þingvöllum. Og svo auðvitað inn á milli er að finna slatta af pólitík og skoðunum hans á samfélaginu og því sem fram fer í kringum okkur eins á femínistum og fárinu vegna klámfólksins sem hér ætlaði að funda í mesta sakleysi.

Birni þakka ég afar skemmtilegt samstarf og ánægjuleg kynni og óska honum velfarnaðar í þeirrri endurhæfingu sem hann á fyrir höndum.

es. 

Verð að upplýsa hve ótrúlega vel á sig kominn Björn er, en að kvöldi aðgerðardags þegar hann hafði legið í fjöggurra klukkustunda brjóstholsskurði þar sem lungu hans voru meðhöndluð, fékk ég tölvupóst frá honum. Morguninn eftir hringdi hann; kýr skýr í höfðinu og ekki að heyra að maðurinn hefði verið eins stórri aðgerð og raun bar vitni. Ótrúlegt hörkutól Björn. Sjálf hefði ég verið meðvitundarlaus á gjörgæslu með morfín í æð og haldið mig komna í himnariíi nokkrum klukkustundum eftir viðlíka aðgerð!


Kolla Bergþórs og sjálfmiðaðir blaðamenn

Kolla Bergþórs skrifar pistil í Blaðið sitt í fyrri viku og rifjar þar upp að Gunnar Smári hafi sett þá reglu á Fréttablaðinu á sínum tíma að blaðamenn fjölluðu ekki um afrek sín. Hárétt hjá Kollu; þessi regla var á Fréttablaðinu þegar það fór af stað og svo lengi sem ég var þar í einhver þrjú fjögur ár. Mig minnir að ekki hafi heldur verið vel séð að blaðamenn væru að tala við ættingja og vini. Átti það einkum við um fréttaskrif. En það er ekki rétt hjá Kollu að einhver hafi grátið þessar reglur; ekki minnist ég þess að blaðamenn hafi í tíma og ótíma verið að reyna að troða sjálfum sér á síður Fbl.

Og ekki nema eðlilegt, því hvernig á maður að fara að því að skrifa hlutlausar fréttir af systkinum eða foreldrum, þótt ég haldi því raunar fram að blaðamenn geti aldrei verið hlutlausir, hvað sem maður er að skrifa um. Blaðamenn eru ekki vélar frekar en annað fólk og mynda sér alltaf einskonar skoðun á því sem þeir skrifa um.

Annað er hvort skoðun manns endurspeglast í fréttinni en það held ég að allir alvöru, heiðarlegir blaðamenn reyni eftir bestu getu að koma í veg fyrir. En ugglaust tekst manni það ekki alltaf. Það hefur hent mig að draga taum þeirra sem ég meðvitað eða ómeðvitað tel að hafi réttinn sín meginn.

Í þessum pistli nefndi Kolla þetta í upphafi vegna þess að hún var að gagnrýna blaðamenn Birtíngs fyrir að nenna ekki að vinna vinnuna sína heldur leita í næsta bás eftir viðtalsefni. Sumsé blaðamenn á tímaritum Birtings tali við hvorn annan. Menn snúi sér við í hálfhring og leiti ekki út fyrir stassjónina.

En hvers vegna að ættu blaðamenn að vaða yfir lækinn og ná í vatnið handan hans? Hjá Birtinig i eru gefin út fjöldinn allur af tímaritum, hver með sjálfstæða ritstjórn. Ef einhver á næsta bás hefur eitthvað það fram að færa sem ekki fæst annarsstaðar, hvað er þá þá því til foráttu að ná í það þangað?

Ég man ekki betur en blaðamenn DV hafi í einhverjum tilfellum verið í viðtali í Fréttablaðinu og öfugt. Er ekki viss nema Kolla sjálf hafi jafnvel verið í viðtali í DV á meðan hún var handan þilsins hjá Fbl. Og þótti engum athugavert.

Við vorum öll í vinnu hjá 365 miðlum en sjálfstæðar ritstjórnir á hverjum miðli fyrir sig. Og svona til að minna Kollu mína á þá hef ég í nokkur skipti lesið viðtöl við kollega hennar í Hádegismóum í eigin fjölmiðlum. Nefni ég Arnar Eggert Thoroddsen sem tjáði sig um Bjarkartónleika í fréttum, Agnesi Braga sem tjáði sig um fréttaskýringu sem hún skrifði, Ólafur Stephensen aðstoðarritstjóri hefur einnig verið þar í viðtali og nokkrir fleiri ef ég man rétt.

Ég var lengi sömu skoðunar og Kolla en ekki lengur. Spurningin er hvort viðkomandi hefur eitthvað fram að færa sem lesendur hafa áhuga á. Mér finnst engu skipta hvaðan það kemur svo lengi sem umrætt efni er áhugavert. Eru fjölmiðlamenn ekki alltaf að tala við fjölmiðlamenn. Ég veit ekki betur en viðtöl við Loga Bergman eða Svanhildi, Ingu Huld og Elínu Hirst hafi birst í fjölmiðlum á liðnum misserum. Engum þykir það athugavert vegna þess að annars vegar er sjónvarp og hins vegar dagblað eða tímarit.

Og svona í lokin er vert að minna Kollu á að Smári sjálfur var oftsinnis í fréttaviðtali við eigið blað um uppgang þess og og áætlanir.

Víst veit ég að fjölmiðlamenn eru sjálfmiðaðir og halda að allt sem snertir fagið eða þá sjálfa hljóti öðrum að þykja fengur í að vita. En við megum heldur ekki verið svo föst í einhverjum reglum sem engin rök eru fyrir, að við sjáum ekki skóginn fyrir trjám.

 


Legg hér með til að Birtíngur styrki mig til fatakaupa; ég mæti kl.08.30 og allir græði

Að vera feit og falleg; nokkuð til í því með konur á mínum aldri. Það væri líka hið besta mál ef ég stæði ekki fyrir framan fataskápana á morgnana korter eftir korter til að finna eitthvað sem hægt er að draga uppfyrir læri. Og ef með miklum tilfæringum það tækist er stóra vandamálið eftir; að hneppa um mig miðja.

Fínnt og ég fyllist mikilli gleði og held áfram við morgunverkin, svartur expressó, blöðin, hleypa hundunum út og gefa að borða. Og það stendur á endum; ég er um það bil að kafna... já þrátt fyrir að ég, hægt og rólega setjist við elhúsborðið án þess að braki í saumi.

Nei, það þýðir ekki; aftur fara nokkur kortér í að finna eitthvað annað sem sprettur örugglega ekki utan af mér þann daginn í vinnunni. Fyrir vikið er Reynir búin að hringja í tvígang og spyrja hvort ég sé ekki alveg að koma. "Jú, jú  Reynir minn ég er rétt um það vil að ganga úr um dyrnar," svara ég og trúi því sjálf að innan tveggja mínútna verði ég kominn út í bíl.

En það bregst sjaldan; ég drattast inn úr dyrunum í vinnunni klukkustund of seint. En öðlingurinn Reynir er ljúfur að vanda. Hann verður svo glaður að ég skuli loks vera mætt að hann gleymir að skamma mig.

Spurning hvort Birtíngur mynd ekki græða með því að styrkja mig til fatakaupa núm er 42-44 og vinna það til að ég mæti á réttum tíma. Þessari hugmynd er hér með komið á framfæri.

Eða....mæta í kolaportið til Bryndísar Schram og finna passleg föt á fimm hundruð kall. Las það einvherstaðr í gær eða morgun. Það er margt vitlausara.


Ein pínu feit - önnur pínu mjórri - tveir fataskápar og allir glaðir!

 

Síðustu misseri hef ég verið að bæta á mig nokkrum kílóum. Þau vefja sig utan um mig svo hægt og þétt að enginn verður þess var. Táknrænn venulegur morgun fer þannig fram að staðið er framn við einn skápinn góða stund. Loks er ein flíkin valin og áður en buxur, pils og peysur eru komnar almennilega yfir þar til gerða líkamsparta sem má sjá í hendi sinni að fara aldrei lengra en svo að  stöðvast á tölum og rennilásum. Þeirri flíkinni er því snarlega kippt með átaki upp eða niður og hengd á sinn stað.

Næsti skápur tekin á 20 mínútum, öskrað og skellt aftur. Síðan er ætt inn í þvottahús, rifið út úr vélinni, hent inn í þurrkarann og beðið á nærunum við eldhúsið og blöðin lesin í tætlur. Og þegar allt er orðið þurrt þá er að finna fötin sem ég var í gær og þá loks kemst ég pirruð af stað í vinnuna.

Míir nánustu taka alls ekki eftir neinu; tala bara um hve vel ég líti út - enda fellur fitan vel í hrukkurnar sem hafa verið að fjölga sér undanfarn ár.

Er þett þá ekki bara allt í fína lagi; allir glaðir? Nei, ekki fötin mín sem hanga inn í skáp og auðvitað ég sjálf sem öskra úr pirringi i hvert sinn sinn sem bestu buxurnar mínar virðast hafa skroppið saman um nokkur númer. Þær fá því að hanga í skápnum í friði nema örsjaldan á milli þess sem þeim er kippt út í bjartsýniskasti og mátaðar að nýju. Það bregst ekki að þær hafa minnkað enn meira síðan síðast.

Það er ekki eins og þetta séu einhverjar druslur sem með góðri samvisku væri hægt að kippa út og fara með niður á hjálpræðisher eða mæðrastyrksnefnd.

Nei, þetta eru dýru klassísku fötin mín sem ég hef í gegnum árin keypt og pungað rækilega út fyrir þeim.

Flestir morgnar fara í fataleit, þar sem mátað er og aftur mátað - síðan endað á þeim sem ég var í daginn áður eða hinn. Sem sagt; tvennar gallabuxur til skiptanna, bolir eða peysur, einn kjóll og punktur. Í skápunum hanga pils, peysu skyrtur, buxur og sitthvað feira skreytt verðmiðum. Það eru fötin sem ég kaupi í ódýru búðunum og nenni ekki að máta; nenni ekki heldur að skila þegar ég kemst að því að large eða 38-42 eru sniðnar á penari dömur en mig.

Ég hef lagt minn götótta heila í bleyti og farið í huganum yfir allar mínar vinkonur, frænkur systur og aðrar konur mér tengdum og spurt sjálfa mig; hefur engin þeirra léttst um 6-8 kíló á meðan ég hef þyngst? Einhver sem mátar og mátar og öll fínu fötin hanga utan á eins og tjöld frá Seglagerðinni?

Ef þú ert svipuð í laginu og ég, hefur lést um átta kíló og ert svona 77 kíló og 173-4 á hæð, getur því miður ekki notað neitt af þessu því þú hefur lést svona. Láttu mig þá vita og þú mátt koma í minn skáp.

Já, einhver svona svipuð mér í vextinum... ætli ég sé ekki um það bil 1,73 cm á hæð 72-74 kíló, háfætt, með sama bossann og áður en ef augum er rennt yfir mig miðja... þá gæti mönnum flogið í hug að amman sjálf ætti von á... nei ekki sjötta barnabarninu. Það eru dætur mínar sem sjá um að eiga börnin. Í besta falli fengi ég þá spurningu hvort það hafi nokkuð breyst. Í versta falli gætu menn bara verið hreinir og beinir og spurt: "Hvenær áttu von á þér, er ekki farið að styttast í þetta hjá þér? Og ég sem hélt að þú gætir ekki átt fleiri börn?

Gott og blessað, en þær sem vænta barna, léttast þegar þau eru fædd. Ég er ólétt og á ekki von á neinu barni; léttist því varla í bráð nema...? Já, ég veit ég verð að fara að ... eða borða hollara.... Nei, ég hef ekki gleymt því; koma mér út á hverjum degi með hundana mína og léttast um 5-7 kíló og endurhenta fötin mín sem hangið hafa mánuðum saman inn í skáp. Og kannski kemst ég líka í þessi með verðmiðunum á.


Þeir bestu í faginu gengnir Birtíngi á hönd

Það eru ekki aðeins mínir fyrrum ritsjórar Illugi og Mikki, auk Eiríks Jónssonar, Jóns Óskars, Tinna og fleiri góðra manna og kvenna og þar með er talin Brynja Björk súperkona sem gengið hafa Birtíngi á hönd. Brynja var fyrst okkar til að taka pokann sinn neðan úr Skaftahlíð en nokkru síðar gekk holdskeflan yfir í kjölfar þess að Mikki tók við aðalritsjórn fyrirtækisins. Síðstu vikur hafa Reynir Traustason sjálfur og hans lið, þar á meðal synirnir Róbert og Jón Trausti verið að koma sér fyrir með blað sitt Ísafold. Og síðan og ekki síst höfum við fengið í hópinn, vin minn og félaga Tóta sjálfan sem vann með okkur flestum á Fréttablaðinu fyrstu misserin þar.

Það er ekki lítill fengur í að fá Tóta með sér á ritstjórn Mannlífs enda eðalblaðamaður og ekki síðri félagi og vinur. Ég hef ekki talið saman allan mannskapinn sem hér starfar nú og ég vann með áður hjá 365 en það er að verða nokkuð stór hópur. Nú síðast bættist Mýrdalurinn sjálfur í þennan eðalhóp sem fyrir var og gerir það væntanlega gott á Séð og heyrt ef ég þekki hann rétt. Og fyrir fáeinum dögum meistaraumbrotsmaðurinn Tryggvi sem var allan tímann með okkur á DV , því skemmtilega og umdleilda blaði

Ég kann þessu afskaplega vel því það er gott að fá fólk sem maður þekkir og veit hvar styrkur þess liggur. Þannig myndast góð ritsjórn sem vinnur vel saman og engar efasemdir eða stress. Annars er það merkilegt með fólk í blaðamannastétt; þeir sem þekkjast vel og hafa unnið saman sækjast eftir áframhaldandi samstarfi. Það er ekki aðeins ritsjórar og fréttastjórar sem skipta um blað sem draga að sér gamla vinnufélaga, heldur gildir það sama um blaðamenn sem fylgja hver öðrum gjarnan eftir.

Og ekki ætla ég að gera minna úr þeim sem hér eru fyrir; þessir i sterku loyal starfsmenn Fróða, sem var og hét sem ekki létur breytingar og erfiðleika hafa áhrif á sig. Auðvitað er það rjómi þeirra sem fyrir var hjá fyrirtækinu sem hélt áfram og urðu í kjölfarið Birtíngar. Ég spái því að fyrr en varir þá verði stærri hluti allra þeirra sem hér vinna fyrrverandi starfsmenn 365. Mér finnst notalegt að hugsa til þess, því þegar upp er staðið erum við einn stór vani og viljum hafa hlutina í föstum skorðum.

.


Kaupmaðurinn sem selur lifandi hamstur fyrir frosk að gæða sér á, kominn á hausinn!

images hamsturSvo segir hann í Fréttablaðinu í dag og kvartar hann heil ósköp yfir framkvæmdum á vegum borgarinnar fyrir utan dyrnar hjá honum sem komið hafi í veg fyrir eðlileg viðskipti. Já, ég segi ekki annað að en menn uppskera eins og þeir sá. Ekki vorkenndi ég mannræflinum í það minnsta. Hefnist honum bara ekki?

En hann er vísast ekki eini dýrakapmaðurinn sem iðkar þessa andstyggilegu sölumennsku á lifandi dýrum eftir því sem ég kem næst. Og svo má spyrja hvaðan koma þessir stóru froskar; er leyfilegt að flytja þá inn eða er þeim smyglað eins og slöngunum?

Ég kalla eftir svörum frá dýralæknum; hvað finnst þeim um svona óþverrahátt. Varpaði þeirri spurningu líka í gær til forstjóra UST, Ellýjar Þorsteinsdóttur, eða er Davíð þar enn við völd? Hvort sem er, heyrir það undir stofnunina að sjá til með að farið sé með dýr á mannúðlegan hátt. Já og hvar er frú Sigríður Ásgeirs; finnst henni þetta í besta lagi eða hefur hún ekki heyrt neitt af þessu?

Gaman væri að fá viðbrögð frá lesendum en hvorki fleiri en færri en tæpleg sex hundruð manns hafa ratað hingað inn síðasta sólahring. Eru menn alveg skoðanalausir eða yppa þeir bara öxlum og finnst allt í lagið að fara svona að. Varla erum við aðeins innan við fimm sem fyllumst óhuggnaði og reiði, eða er ég bara svona móðursjúk og yfirmáta viðkvæm? Nei þaðþarf ekki að segja mér það.

 sem

Mogginn og hundablaðið þeirra einhæft

Finnur Hugi og hvolparÍ síðustu viku fylgdi Morgunglaðinu sérstakt hundablað. Og enginn fjórblöðungur það, heldur yfir tuttugu síður. Ljóst er að þar á bæ eru menn að gera sér grein fyrir hve gífurleg aukning hefur orðið á hundaeign Íslendinga undanfarin ár og áhugi á þeim "dýrðarinnar dásemdum" hefur aukist. Mogginn ætlar sannarlega að vera í takt við mannlífið og þjóna stórum hópi lesenda sinna með efni sem þessu.

Sjálf leyfi ég mér að fullyrða að vikuleg síða um dýr í DV sem hóf göngu sína fyrir þremur árum undir nafninu; Begga og dýrin hafi heilmikið með það gera hve aðrir fjölmiðlar hafa tekið við sér og fjalla æ oftar um dýr. Einkum hunda sem fjölgað hefur gífurlega á undanförnum árum. Ætla því að gerast svo djörf að fullyrða að ég eigi þar hlut að máli. Og svo ekki sé talað um framsýni Mikaels Torfasonar sem átti hugmyndina að þessari vikulegu síðu minni því ekki flögraði að mér að ég fengi frjálsar hendur með efni um dýr vikulega. Þess utan var mér alltaf tekið vel ef ég var með fréttir sem tengdust dýrum.

 Sybbinn

Fyrri reynsla mín undir stjórn annarra ritstjóra og fréttastjóra gaf ekki tilefni til annars en ég yrði gerð brottræk með allar fréttir sem tengdust dýrum; það var ekki nógu töff og taldist til mýkri mála sem ekki eiga alltaf upp á pallborðið hjá þröngsýnum fréttastjórum á fjölmiðlum.

En Morgunblaðið fær marga plúsa hjá mér fyrir fylgiblaðið um hunda. Get þó ekki annað en tæpt aðeins á hvað skorti og hverju var ofaukið. Vonandi eru það bara byrjunarörðugleikar.´

Í fyrsta lagi undraðist ég mjög hve mikla áherslu ritsjórnin lagði á stærri hunda þegar veruleikinn er sá að smáhundar eru langtum fjölmennari og sækja stöðugt á. Þeim fjölgar hratt og á undanförnum fimm árum hafa þeir stigð langt fram úr þeim stóru. Cavalierinn er einn þeirra hunda sem er að sprengja öll met og er nú vinsælasta hundategund landsins ásamt íslenskum fjárhundi og líklega Chihuahua. Þrátt fyrir það var ekki svo mikið ein almennileg mynd af þessum vinsælasta hundi landsins í moggablaðinu.

Ekki það, við ræktendur þurfum ekki á auglýsingu að halda því eftirspurnin er svo mikil að það eru stundum allt að tíu til tuttugu manns um hvern hvolp sem fæðist. En einmitt þess vegna finnst mér furðulegt að ekki skuli hafa verið fjallað um Cavaler ef markmiðið var að þjóna lesendum. Um áhuga lesenda var ekki spurt því þá hefði vinsælustu hundunum verið gerð betri skil. En vonandi er hægt að flokka þetta undir þekkingarskort.

En það sem var öllu alvarlega, var auglýsingin á forsíðu blaðisns frá HUNDAFRAMLEIÐSLUNNI DALSMYNNI. Einkar ógeðfeld auglýsing sem enginn fjölmiðill með vott af sjálsvirðingu annarstaðar í Evrópu myndi birta. Fyrir þá sem ekki vita hvað um ræðir ættu að googla orðið "puppy mills" og komast þá væntanleg að því að um er að ræða ólöglega starfsemi sem fégráðugir óprúttnir aðilar reka; oftast í felum. Þar eru hvolpar framleiddir í massavís og tíkur gjörnýttar og síðan lógað. Hundar á puppy mills lifa í búrum og sjá aldrei dagsbirtu. Þeim er haldið á lífi ef líf skildi kalla til þess eins framleiða hvolpa. Hér á landi hafa dýraunnendur barist hatrammri baráttu fyrir því að framleiðslunni í Dalsmynni verði lokað en dýraverndarlög á Íslandi eru svo úrelt og úr sér gengin að ekki hafa menn haft erindi sem erfiði enn.

Vonandi taka menn á Morgunblaðinu þessari ábendingu vel og íhuga vandlega hvað þeir eru að fá greitt fyrir áður en næsta hundablað kemur út hjá þeim.


Að ávinna sér trúverðugleika með gjörðum sínum og athöfnum

Ég held að það hafi ekki farið a mili mála í fyrri færslu um Byrgisstúlkuna og meinta ást hennar á forstöðumanninum, að skýrt var tekið fram að ást hennar á manninum hafi akkúrat ekkert með framkomu hans í hennar garð að gera Fjarri lagi var að ég tæki upp hanskann fyrir hann eða réttlætti gjörðir Guðmundar í Byrginu fyrir að notfæra sér ástand stúlkunar. 

Ég fordæmi misnotkun á stúlkunni í hvaða ástandi sem hún var í og mér finnst það fyrir neðan allar hellur að yfirmenn á meðferðarstöðvum skuli svo mikið sem voga sér að mynda náið samband við skjólstæðinga sína. 

En hinu getum við heldur ekki horft fram hjá að trúverðuleiki stúlkunnar er ekki sá sami og ætla mætti væri hún edrú og hefði ekki sjálf beitt ofbeldi um það leyti sem hún sagði sögu sína í fjölmiðlum og kom fram sem fórnarlamb. Það er staðreynd hvort sem mönnum líkar betur eða verr að stúlkan er í bullandi neyslu og hefur verið það lengi; Það rýrir trúverðugleika hennar og við því er ekkert að gera annða en taka orðum þeirra senm þannnig er ástt fyrir, með fyrirvara.

En að það réttlæti meinta misnotkun Guðmundar á Ólöfu eða öðrum stúlkum, er af og frá. Hnykki á þessu hér vegna þeirra athugasemda sem ég hef fengið um fyrri pistil.


Breiðavík - Breiðuvík - sumir sluppu fyrir horn og urðu nýtir þjóðfélagþegnar

Fjölmiðlamenn sem fjalla um Breiðuvíkurmálið virðast ekki vera með það á hreinu hvað staðurinn heitir því ekki ósjaldan tala sumir þeirra um Breiðavík. Það er náttúrulega lágmarkskrafa að þeir sem um þetta mál fjalla nefni staðinn sínu rétta nafni. Breiðuvík heitir staðurinn og vísar til víkurinnar sem hann stendur við.

Annað sem fram hefur komið og byggir á nokkrum rangfærslum er að allir þeir drengir sem vistaðir voru vestra, hafi komi frá brotnum heimilum og verið vandræðagemlingar sem áttu enga von um að verða að mætum mönnum þar sem þeir hafi þegar hafi komist í kast við lögin og ekki hafi legið annað fyrir en þeir væru á hraðri leið inn á glæpabrautina.

Það er bara alls ekki rétt. Í Breiðuvík voru einnig sendir drengir frá fínustu heimilum sem áttu ekki að baki glæpaferil, heldur fyrirferðamiklir ungir drengir sem lutu illa aga. Af umfjöllun má einnig ráða að undantekningarlaust hafi drengirnir farið beina leið inn á glæpabrautina eftir dvölina vestra.

Mér er málið kunnugt og veit að það var alls ekki í öllum tilfellum þannig, eins og Hallgrímur Sveinsson fyrrverandi forstöðumaður á Breiðuvík staðhæfði í Kastljósþætti í gær.

Það vill nefnilega þannig til að bróðir minn er einn þessara drengja en hann ólst upp við mjög gott atlæti og reglufestu hjá ömmu minni og afa sem veittu honum mikla ástúð og umhyggju. Þau máttu ekki vamm sitt vita. En þau dekruðu hann hins vegar meira en góðu hófu gegndi og því var stráksi baldinn krakki. Þau óttuðust því að hann stefndi í mikinn vanda og þegar þau urðu þess áskynja að guttinn var farin að fikta við reykingar ellefu ára gamall og hnupla úr sjoppu, þá leituðu þau ráða og fóru með hann til sálfræðings. Það var Andri Ísaksson sem þau ræddu við og niðurstaða hans varð sú að hann taldi að drengurinn hefði gott af því að fara vestur til dvalar. Hans mat var að þaðan kæmi hann betri maður og fengi þann aga sem hann á þyrfti að halda til að verða að manni.

Blessuð gömlu hjónin treystu sérfræðingnum og bróðir minn var á Breiðuvík í tvö ár. Þegar hann kom til baka trúði enginn sögum hans af því helvíti sem hann upplifði þar. Það var ekki fyrr en bróðir minn var orðin fullorðinn maður að ömmu varð ljóst að hann færi ekki með neina skreytni og trúði honum. Síðan leið blessuð gamla konan fyrir að hafa sent hann á þennan hryllilega stað það sem hún átti ólifað.

Söguna sagði bróðir minn mér fyrir nokkrum árum, en við sátum saman í þrjár klukkustundir á meðan hann opnaði sig fyrir mér. Ég gleymi aldrei hve mér leið illa eftir þá frásögn. Og ekki aðeins þá, heldur lengi á eftir ef ég hugsaði til þess hvað hann mátti upplifa.

Það var því ekki aðeins Þóra í Kastljósinu sem hefur verið að vinna í þessu máli þegar DV opnaði það. Fleiri hafa verið með þetta mál í gangi. Ég hef til að mynda unnið talsvert lengi að því að afla mér gagna varðandi Breiðuvíkurmálið til að fjalla um það. DV reið hins vegar á vaðið og opnaði þetta mál. Mér fannst hins vegar umfjöllun blaðsins hvorki fugl né fiskur og við lesturinn vöknuðu fleiri spurningar en svör fengust við, við þá umfjöllun. Tek þó fram að ég er alls ekki að gagnrýna Val, minn fyrri vinnufélaga fyrir það.

Ég held því að þeir fjölmiðlamenn sem unnið hafa mánuðum saman að þessu máli hafi ætlað sér að vanda til verka, en svona er lífið. Fyrstur kemur fyrstur fær. Kastljósumfjöllunin hefur verið mjög góð og ég fagna því að að þeir sem þar starfa skuli hafa tekið málið upp og fylgt því eftir eins og raun ber vitni.  

Um bóður minn er það að segja að hann var lánsamur; lagðist ekki út í afbrot og glæpi og hefur staðið sig afskaplega vel í lífinu. Það er ekki annað hægt en vera stoltur af honum fyir að hafa komist áfallalaust út úr þessum hörmungum sem hefðu getað lagt líf hans í rúst. En það leynist eigi að síður ekki okkur sem þekkjum hann best að dvölin á Breiðuvík hefur haft varanleg áhrif á sálarlíf hans.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband