10.4.2007 | 11:52
Skelfilegir páskar
Þetta voru skelfilegir páskar en oftast hefur mér liðið vel þessa fimm daga. Kann því vel að vera heima og gera ekki neitt. En núna lá ég þá alla og í morgun var ég bæði máttlaus og aum. Ætlaði ekki að komast í vinnu en eftir að blóðið komst aðeins á hreyfingu hef ég náð smá krafti. Má alls ekki við því að vera lasin í dag þar sem mikið er að gera í vinnunni.
Veit í raun ekki hvað hefur verið að gerast þessa dagana og það var ekki fyrr en á páskadag að ég frétti hver vann þetta leiðinlega X-Facktor. Eins og það sé það sem skiptir máli í lífinu! Hef sjaldnast horft á það nema með öðru auganu en ætlaði að fylgjast með þessum síðasta þætti. Var sofnuð enda hef ég meira eða minna sofið frá því á fimmtudag. Ekki furða að ég sé máttlaus!
2.4.2007 | 22:55
Legg hér með til að Birtíngur styrki mig til fatakaupa; ég mæti kl.08.30 og allir græði
Að vera feit og falleg; nokkuð til í því með konur á mínum aldri. Það væri líka hið besta mál ef ég stæði ekki fyrir framan fataskápana á morgnana korter eftir korter til að finna eitthvað sem hægt er að draga uppfyrir læri. Og ef með miklum tilfæringum það tækist er stóra vandamálið eftir; að hneppa um mig miðja.
Fínnt og ég fyllist mikilli gleði og held áfram við morgunverkin, svartur expressó, blöðin, hleypa hundunum út og gefa að borða. Og það stendur á endum; ég er um það bil að kafna... já þrátt fyrir að ég, hægt og rólega setjist við elhúsborðið án þess að braki í saumi.
Nei, það þýðir ekki; aftur fara nokkur kortér í að finna eitthvað annað sem sprettur örugglega ekki utan af mér þann daginn í vinnunni. Fyrir vikið er Reynir búin að hringja í tvígang og spyrja hvort ég sé ekki alveg að koma. "Jú, jú Reynir minn ég er rétt um það vil að ganga úr um dyrnar," svara ég og trúi því sjálf að innan tveggja mínútna verði ég kominn út í bíl.
En það bregst sjaldan; ég drattast inn úr dyrunum í vinnunni klukkustund of seint. En öðlingurinn Reynir er ljúfur að vanda. Hann verður svo glaður að ég skuli loks vera mætt að hann gleymir að skamma mig.
Spurning hvort Birtíngur mynd ekki græða með því að styrkja mig til fatakaupa núm er 42-44 og vinna það til að ég mæti á réttum tíma. Þessari hugmynd er hér með komið á framfæri.
Eða....mæta í kolaportið til Bryndísar Schram og finna passleg föt á fimm hundruð kall. Las það einvherstaðr í gær eða morgun. Það er margt vitlausara.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt 3.4.2007 kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.3.2007 | 00:56
Ein pínu feit - önnur pínu mjórri - tveir fataskápar og allir glaðir!
Síðustu misseri hef ég verið að bæta á mig nokkrum kílóum. Þau vefja sig utan um mig svo hægt og þétt að enginn verður þess var. Táknrænn venulegur morgun fer þannig fram að staðið er framn við einn skápinn góða stund. Loks er ein flíkin valin og áður en buxur, pils og peysur eru komnar almennilega yfir þar til gerða líkamsparta sem má sjá í hendi sinni að fara aldrei lengra en svo að stöðvast á tölum og rennilásum. Þeirri flíkinni er því snarlega kippt með átaki upp eða niður og hengd á sinn stað.
Næsti skápur tekin á 20 mínútum, öskrað og skellt aftur. Síðan er ætt inn í þvottahús, rifið út úr vélinni, hent inn í þurrkarann og beðið á nærunum við eldhúsið og blöðin lesin í tætlur. Og þegar allt er orðið þurrt þá er að finna fötin sem ég var í gær og þá loks kemst ég pirruð af stað í vinnuna.
Míir nánustu taka alls ekki eftir neinu; tala bara um hve vel ég líti út - enda fellur fitan vel í hrukkurnar sem hafa verið að fjölga sér undanfarn ár.
Er þett þá ekki bara allt í fína lagi; allir glaðir? Nei, ekki fötin mín sem hanga inn í skáp og auðvitað ég sjálf sem öskra úr pirringi i hvert sinn sinn sem bestu buxurnar mínar virðast hafa skroppið saman um nokkur númer. Þær fá því að hanga í skápnum í friði nema örsjaldan á milli þess sem þeim er kippt út í bjartsýniskasti og mátaðar að nýju. Það bregst ekki að þær hafa minnkað enn meira síðan síðast.
Það er ekki eins og þetta séu einhverjar druslur sem með góðri samvisku væri hægt að kippa út og fara með niður á hjálpræðisher eða mæðrastyrksnefnd.
Nei, þetta eru dýru klassísku fötin mín sem ég hef í gegnum árin keypt og pungað rækilega út fyrir þeim.
Flestir morgnar fara í fataleit, þar sem mátað er og aftur mátað - síðan endað á þeim sem ég var í daginn áður eða hinn. Sem sagt; tvennar gallabuxur til skiptanna, bolir eða peysur, einn kjóll og punktur. Í skápunum hanga pils, peysu skyrtur, buxur og sitthvað feira skreytt verðmiðum. Það eru fötin sem ég kaupi í ódýru búðunum og nenni ekki að máta; nenni ekki heldur að skila þegar ég kemst að því að large eða 38-42 eru sniðnar á penari dömur en mig.
Ég hef lagt minn götótta heila í bleyti og farið í huganum yfir allar mínar vinkonur, frænkur systur og aðrar konur mér tengdum og spurt sjálfa mig; hefur engin þeirra léttst um 6-8 kíló á meðan ég hef þyngst? Einhver sem mátar og mátar og öll fínu fötin hanga utan á eins og tjöld frá Seglagerðinni?
Ef þú ert svipuð í laginu og ég, hefur lést um átta kíló og ert svona 77 kíló og 173-4 á hæð, getur því miður ekki notað neitt af þessu því þú hefur lést svona. Láttu mig þá vita og þú mátt koma í minn skáp.
Já, einhver svona svipuð mér í vextinum... ætli ég sé ekki um það bil 1,73 cm á hæð 72-74 kíló, háfætt, með sama bossann og áður en ef augum er rennt yfir mig miðja... þá gæti mönnum flogið í hug að amman sjálf ætti von á... nei ekki sjötta barnabarninu. Það eru dætur mínar sem sjá um að eiga börnin. Í besta falli fengi ég þá spurningu hvort það hafi nokkuð breyst. Í versta falli gætu menn bara verið hreinir og beinir og spurt: "Hvenær áttu von á þér, er ekki farið að styttast í þetta hjá þér? Og ég sem hélt að þú gætir ekki átt fleiri börn?
Gott og blessað, en þær sem vænta barna, léttast þegar þau eru fædd. Ég er ólétt og á ekki von á neinu barni; léttist því varla í bráð nema...? Já, ég veit ég verð að fara að ... eða borða hollara.... Nei, ég hef ekki gleymt því; koma mér út á hverjum degi með hundana mína og léttast um 5-7 kíló og endurhenta fötin mín sem hangið hafa mánuðum saman inn í skáp. Og kannski kemst ég líka í þessi með verðmiðunum á.
Áður en ég flutti í Hveragerði bjó ég í Hafnarfirði þar sem ég kunni afar vel við mig; þótti gott að búa í alvörubæ þar sem er höfn, miðbær, gamli bærinn og allt sem góðan bæ má prýða. Lengi vel skutlaðist ég þetta í vinnunna á morgnanna á 15-20 mínútum; allt eftir því hvernig færðin var og hve umferðin var þung. Ég var reyndar komin upp á lag með að vera á ferðinni fyrir eða eftir að flestir voru á leið í vinnu. Liðlega níu var rennifæri í Skaftahlíðina og ég tók Hafnarfjarðarveginn á um það bil tíu tólf mínútum.
Í mogga í morgun er fylgst með mæðgum sem ferðast úr Áslandinu á morgnanna; önnur í Versló og hin á Suðurlandsbrautina. Það tekur þær fjörutíu mínútur á góðum degi. Þær eiga þess ekki kost að fara þessa leið utan mestu umferðar vegna þess að allir skólar höfuðborgarinnar hefjast á sama tíma.
Og það er einmitt mergurinn málsins. Hvers vegna hefja allir skólar höfuðborgarsvæðisins kennslu á nákvæmlega sama tíma. Hvers vegna geta þeir ekki tekið sig saman og skipst á, á tímabilinu 07:30 -09:30. Eina viku í senn gæti Versló hafið kennslu klukknan 07:30 og síðan hinir með hálftíma millibili til 09:30. Sumsé fært kennsklu fram eða aftur eftir því sem við á og lokið kennslu í samræmi við það?
Ég er ekki í vafa um að það myndi miklu breyta. Foreldrar sem aka börnunum í skólann eru neydd til að vera á ferðinni á sama tíma eins og nú er háttað en hafa sjálfir sveigjanlegan vinnutíma sem þeir geta ekki nýtt sér vegna barnna.
Á merðan gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins er ekki betur í stakk búið til að taka við allri þessari umferð myndi það hafa afgerandi áhrif á hve greiðari væri að komast í og úr vinnu.
Ég veit það sjálf hve umferð bíla úr Hafnarfirði til Reykjavíkur jókst á skömmum tíma. Fyrir fimm árum var þetta ekki mikið mál en var orðið óþolandi tveimur árum síðar með tilkomu Vallarhverfis og Áslandsins, svo ekki sé talað um þá viðbót manna sem sótti vinnu til Reykjavíkur af Suðurnesjum eftir að Keflavíkurvegur tvöfaldaðist.
Nú bý ég í Hveragerði en frá hringtorginu við Norðlingaholt er 34 kílómetra akstur austur. Ég fer það á um það bil 20 mínútum. Ég er því fljótari í vinnu úr Hveragerði en ég var þegar ég bjó í Hafnarfirði. Þetta er ekki nokkur hemja að ekki skuli vera hægt að skipuleggja tíma skólanna betur. Og það er ekki spurning, lykilinn að því að breyta þessu eru skólarnir sjálfir. Það sýnir sig eftir að próf hefjast og í jólafríum. Þá rennur umferðin árennslulaust eftir götunum og bílum fækkar um helming.
Þetta er svipað og þegar ekki var komið inn í bankaútibú fyrstu dagana eftir útborgun launa sem miðaðist og gerir enn við fyrsta hvers mánaðar. Tölvuvæðingin kom viðskiptavinum bankanna til hjálpar og gjörbreytti atganginum um hver mánaðarmót; sem reyndar varð úr sögunni því menn sitja einfaldlega við sitt skriforð og sinna sínum bankaviðskiptum í gegnum tölvuna.
En það datt aldrei neinum í hug að gera alvöru úr því að breyta útborgunardögum. Það hefði ekki þurft annað en að ríkið færði daginn aðeins fram eða aftur til að losa tappann sem myndaðist alltaf fyrstu dagana í hverjum mánuði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.3.2007 | 19:20
Þeir bestu í faginu gengnir Birtíngi á hönd
Það eru ekki aðeins mínir fyrrum ritsjórar Illugi og Mikki, auk Eiríks Jónssonar, Jóns Óskars, Tinna og fleiri góðra manna og kvenna og þar með er talin Brynja Björk súperkona sem gengið hafa Birtíngi á hönd. Brynja var fyrst okkar til að taka pokann sinn neðan úr Skaftahlíð en nokkru síðar gekk holdskeflan yfir í kjölfar þess að Mikki tók við aðalritsjórn fyrirtækisins. Síðstu vikur hafa Reynir Traustason sjálfur og hans lið, þar á meðal synirnir Róbert og Jón Trausti verið að koma sér fyrir með blað sitt Ísafold. Og síðan og ekki síst höfum við fengið í hópinn, vin minn og félaga Tóta sjálfan sem vann með okkur flestum á Fréttablaðinu fyrstu misserin þar.
Það er ekki lítill fengur í að fá Tóta með sér á ritstjórn Mannlífs enda eðalblaðamaður og ekki síðri félagi og vinur. Ég hef ekki talið saman allan mannskapinn sem hér starfar nú og ég vann með áður hjá 365 en það er að verða nokkuð stór hópur. Nú síðast bættist Mýrdalurinn sjálfur í þennan eðalhóp sem fyrir var og gerir það væntanlega gott á Séð og heyrt ef ég þekki hann rétt. Og fyrir fáeinum dögum meistaraumbrotsmaðurinn Tryggvi sem var allan tímann með okkur á DV , því skemmtilega og umdleilda blaði
Ég kann þessu afskaplega vel því það er gott að fá fólk sem maður þekkir og veit hvar styrkur þess liggur. Þannig myndast góð ritsjórn sem vinnur vel saman og engar efasemdir eða stress. Annars er það merkilegt með fólk í blaðamannastétt; þeir sem þekkjast vel og hafa unnið saman sækjast eftir áframhaldandi samstarfi. Það er ekki aðeins ritsjórar og fréttastjórar sem skipta um blað sem draga að sér gamla vinnufélaga, heldur gildir það sama um blaðamenn sem fylgja hver öðrum gjarnan eftir.
Og ekki ætla ég að gera minna úr þeim sem hér eru fyrir; þessir i sterku loyal starfsmenn Fróða, sem var og hét sem ekki létur breytingar og erfiðleika hafa áhrif á sig. Auðvitað er það rjómi þeirra sem fyrir var hjá fyrirtækinu sem hélt áfram og urðu í kjölfarið Birtíngar. Ég spái því að fyrr en varir þá verði stærri hluti allra þeirra sem hér vinna fyrrverandi starfsmenn 365. Mér finnst notalegt að hugsa til þess, því þegar upp er staðið erum við einn stór vani og viljum hafa hlutina í föstum skorðum.
.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt 14.3.2007 kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.3.2007 | 00:45
Kaupmaðurinn sem selur lifandi hamstur fyrir frosk að gæða sér á, kominn á hausinn!
Svo segir hann í Fréttablaðinu í dag og kvartar hann heil ósköp yfir framkvæmdum á vegum borgarinnar fyrir utan dyrnar hjá honum sem komið hafi í veg fyrir eðlileg viðskipti. Já, ég segi ekki annað að en menn uppskera eins og þeir sá. Ekki vorkenndi ég mannræflinum í það minnsta. Hefnist honum bara ekki?
En hann er vísast ekki eini dýrakapmaðurinn sem iðkar þessa andstyggilegu sölumennsku á lifandi dýrum eftir því sem ég kem næst. Og svo má spyrja hvaðan koma þessir stóru froskar; er leyfilegt að flytja þá inn eða er þeim smyglað eins og slöngunum?
Ég kalla eftir svörum frá dýralæknum; hvað finnst þeim um svona óþverrahátt. Varpaði þeirri spurningu líka í gær til forstjóra UST, Ellýjar Þorsteinsdóttur, eða er Davíð þar enn við völd? Hvort sem er, heyrir það undir stofnunina að sjá til með að farið sé með dýr á mannúðlegan hátt. Já og hvar er frú Sigríður Ásgeirs; finnst henni þetta í besta lagi eða hefur hún ekki heyrt neitt af þessu?
Gaman væri að fá viðbrögð frá lesendum en hvorki fleiri en færri en tæpleg sex hundruð manns hafa ratað hingað inn síðasta sólahring. Eru menn alveg skoðanalausir eða yppa þeir bara öxlum og finnst allt í lagið að fara svona að. Varla erum við aðeins innan við fimm sem fyllumst óhuggnaði og reiði, eða er ég bara svona móðursjúk og yfirmáta viðkvæm? Nei þaðþarf ekki að segja mér það.
semFjölmiðlar og fólk | Breytt 13.3.2007 kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.3.2007 | 01:42
Mig vantar hunda-aupair - má tala hvaða tungumál sem er!
Ég hef verið að svipast um eftir aupair; hundaaupair réttara sagt. Hef verið spyrjast fyrir um hvað sé greitt á viku eða mánuði og með fargjöld fyrir venjulegar auperur.
Hér í eina tíð var ég með aupair nokkru sinnum; tvær danskar og eina hollneska. Það var þvílíkur lúxus að geta farið í vinnu áhyggjulaus á hverjum degi og þurfa ekki að rjúka upp úr stólnum í miðri frétt fimm mínútum fyrir fimm og æða á leikskólann og sækja þreyttar stelpurnar sem stundum þurftu að koma með mér til baka í vinnuna og bíða á meðan ég kláraði.
Christina Folke AX var hjá mér í ár og auk þess að koma stelpunum í skólann, þá setti hún í þvottavél og gekk frá eftir okkur í eldhúsinu. Hún hafði reglu á hlutunum; tók efri hæðina í einu stökki og þá neðri í öðru stökki annan dag. En hún þvoði á hverjum degi. Eftir árið áttuðum við Magnús okkur á því að við höfðum gegnið í tvennum nærbuxum til skiptis allan tímann. Þær óhreinu að morgni voru nefnilega alltaf komnar efst í skúffuna að kvöldi.
Við kölluðum hana Stínu og hún var undurfljót að læra íslenskuna. Og ekki bara tungumálið heldur fékk hún ást á landinu. Síðan hefur hún verið í sambandi við okkur og margsinnis komið og dvalið um tíma á meðan hún hefur unnið að rannsóknum hér á Þjóðarbókhlöðu. Hún er nú doktor frá Oxford í sagnfræði og hennar doktorsritgerð fjallaði um Ísland á átjándu öld. Mig minnir að fyrsta ritgerðin; þ.e. BA hafi verið um innréttingarnar og Skúla Magnússon en man ekki hvað nákvæmlega doktorsritgerðin fjallaði. Gott ef Christina er bara ekki einn helsti sérfræðingur í íslenskri sögu í Höfn
En ég þarf ekki neina Stínu núna; bara góða stúlku sem hugsar um hundana fyrir mig og skellir í eina og eina vél og þó... jú kannski að gott væri að hún sæi bara um mitt tveggja manna heimili á daginn, annars myndi henni leiðast svo því hundarnir sofa og nenna ekki að láta klappa sér út í eitt.
Ef einhver lesenda minna þekkir hundvæna stúlku sem vill vera aupair með þrjá hunda á Íslandi; endilega látið mig vita. Og segið mér líka hvað er greitt að meðaltali fyrir aupair á mánuði?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.3.2007 | 21:20
Meða hálfa flensu eða heila og geta ekki reist höfuð frá kodda?
Það er spurning hvort er betra að fá hálfa flensu eins og mér er gjarnt að fá eða heila og vita ekki af sér í viku. Svei mér þá...er ekki almennilega flensa skárri. Hef haft hálfa flensu núna síðan á sunnudag með tilheyrandi óþægindum og slappleika. Hitavellu; heitt og kalt til skiptis, svitakóf, nefrennsli og máttleysi.
Líðanin hefur verið ömurleg fyrst og fremst vegna þess að ég hef ekkert getað gert og svo vitaskuld vegna þess að samviskubitið hefur verið að drepa mig að vera ekki í vinnu; ekki meira veik en svo að ég gæti skrölt um og vafrað um húsið í sloppnum. Reyndi í morgun að koma mér í vinnu en ég var svo máttlaus og aumingjaleg að þegar ég loks var búin að klæða mig í vinnufötin var ég orðin svo gegnumblaut af svita að ekki var um annað að ræða en fara aftur í sturtu og skipta um föt. Deginum ljósara að ég að ég yrði til lítils gagns í vinnunni.
Tók mig því til og fór í nokkra göngutúra í dag í góða veðrinu hundunum mínum til mikillar gleði til að freista þess að byggja upp smá þrek. Og viti menn þegar líða tók að daginn fann ég hvernig smá kraftur byggðist upp; svo mikill að ég gat sest við tölvuna og skrifað færslu. Kraftur eða reiði, skiptir ekki máli en ég varð svo reið þegar ég heyrði söguna af froskinum og hamstrinum að ég rauk í tölvuna.
Nú er ég orðin svo hress að ég hlakka til að vakna í fyrramálið og mæta í mína vinnu á réttum tíma.
7.3.2007 | 17:27
Að mata froska á lifandi hamstri!
Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að dýrabúðir selji börnum lifandi hamstur on´í gapandi gin annarra dýra. Rök þessarra þokkakaupmanna eru að svona sé náttúran!! En það á ekkert skylt við náttúruna að setja lítinn hamstur til átu ofan í búr frosks. Út í náttúrunni eiga dýrin alltaf séns. Þar er háð barátta upp á líf og dauða. Ljónin fá ekki dádýrin borin að kjafti þeirra. Þau þurfa á hlaupa þau uppi og dádýrin eiga alltaf tækifæri til að forða sér. Froskurinn þarf líka að hafa fyrir því að ná í músarungann úti í náttúrunni; honum er ekki færður hann lifandi á fati.
Það er þess vegna sem þetta er svo viðbjóðsleg meðferð; að setja lítið dýr nær dauða en lífi af hræðslu fyrir gin frosksins er villimennska mannsins og kemur ekki náttúrunni á nokkurn hátt við.
Þetta er andstyggileg kaupmennska í meira lagi. Það er svívirðilegt að vita til þess að á meðan einu barni er seldur hamstur til að eiga og elska, skuli öðru seldur sá við hliðina til að bera lifandi fyrir fros að gæða fsér á. Eru foreldrar virkilega að kaupa lifandi dýr fyrir börn sín í þessu skyni?
Svo mikið er víst að einhverjir gera þetta og ég spyr hvað er verið að kenna börnum með þessu?
Sex ára dóttursonur minn eignaðist lófastóran frosk sem faðir hans gaf honum og á heimili hjá pabbanum. Þegar dóttir mín kom til hans um helgina þá var pabbinn búinn að kaupa lítinn hamstur sem átti að bera fyrir frosinn. Dóttir mín fylltist viðbjóði og var fljót að forða hamstrinum sem var nær dauða en lífi úr hræðslu úr búri frosksins sem var líklega vel saddur og hafði ekki lyst. Hún tók hamsturinn með heim og keypti búr fyrir hann þar sem hann unir sér nú vel. Drengurinn var miður sín og grætur nú hver örlög litla hamstursins hefu orðið ef mamma hans hefði ekki komið í tæka tíð.
Hvað er eiginlega að fólki? Hvar er Umhverfisstofnun og héraðsdýralæknar sem eiga að sjá til þess að mannúðlega sé farið með dýr. Veist þú af þessu, nýráðin forstjóri UST?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.3.2007 | 01:23
Mogginn og hundablaðið þeirra einhæft
Í síðustu viku fylgdi Morgunglaðinu sérstakt hundablað. Og enginn fjórblöðungur það, heldur yfir tuttugu síður. Ljóst er að þar á bæ eru menn að gera sér grein fyrir hve gífurleg aukning hefur orðið á hundaeign Íslendinga undanfarin ár og áhugi á þeim "dýrðarinnar dásemdum" hefur aukist. Mogginn ætlar sannarlega að vera í takt við mannlífið og þjóna stórum hópi lesenda sinna með efni sem þessu.
Sjálf leyfi ég mér að fullyrða að vikuleg síða um dýr í DV sem hóf göngu sína fyrir þremur árum undir nafninu; Begga og dýrin hafi heilmikið með það gera hve aðrir fjölmiðlar hafa tekið við sér og fjalla æ oftar um dýr. Einkum hunda sem fjölgað hefur gífurlega á undanförnum árum. Ætla því að gerast svo djörf að fullyrða að ég eigi þar hlut að máli. Og svo ekki sé talað um framsýni Mikaels Torfasonar sem átti hugmyndina að þessari vikulegu síðu minni því ekki flögraði að mér að ég fengi frjálsar hendur með efni um dýr vikulega. Þess utan var mér alltaf tekið vel ef ég var með fréttir sem tengdust dýrum.
Fyrri reynsla mín undir stjórn annarra ritstjóra og fréttastjóra gaf ekki tilefni til annars en ég yrði gerð brottræk með allar fréttir sem tengdust dýrum; það var ekki nógu töff og taldist til mýkri mála sem ekki eiga alltaf upp á pallborðið hjá þröngsýnum fréttastjórum á fjölmiðlum.
En Morgunblaðið fær marga plúsa hjá mér fyrir fylgiblaðið um hunda. Get þó ekki annað en tæpt aðeins á hvað skorti og hverju var ofaukið. Vonandi eru það bara byrjunarörðugleikar.´
Í fyrsta lagi undraðist ég mjög hve mikla áherslu ritsjórnin lagði á stærri hunda þegar veruleikinn er sá að smáhundar eru langtum fjölmennari og sækja stöðugt á. Þeim fjölgar hratt og á undanförnum fimm árum hafa þeir stigð langt fram úr þeim stóru. Cavalierinn er einn þeirra hunda sem er að sprengja öll met og er nú vinsælasta hundategund landsins ásamt íslenskum fjárhundi og líklega Chihuahua. Þrátt fyrir það var ekki svo mikið ein almennileg mynd af þessum vinsælasta hundi landsins í moggablaðinu.
Ekki það, við ræktendur þurfum ekki á auglýsingu að halda því eftirspurnin er svo mikil að það eru stundum allt að tíu til tuttugu manns um hvern hvolp sem fæðist. En einmitt þess vegna finnst mér furðulegt að ekki skuli hafa verið fjallað um Cavaler ef markmiðið var að þjóna lesendum. Um áhuga lesenda var ekki spurt því þá hefði vinsælustu hundunum verið gerð betri skil. En vonandi er hægt að flokka þetta undir þekkingarskort.
En það sem var öllu alvarlega, var auglýsingin á forsíðu blaðisns frá HUNDAFRAMLEIÐSLUNNI DALSMYNNI. Einkar ógeðfeld auglýsing sem enginn fjölmiðill með vott af sjálsvirðingu annarstaðar í Evrópu myndi birta. Fyrir þá sem ekki vita hvað um ræðir ættu að googla orðið "puppy mills" og komast þá væntanleg að því að um er að ræða ólöglega starfsemi sem fégráðugir óprúttnir aðilar reka; oftast í felum. Þar eru hvolpar framleiddir í massavís og tíkur gjörnýttar og síðan lógað. Hundar á puppy mills lifa í búrum og sjá aldrei dagsbirtu. Þeim er haldið á lífi ef líf skildi kalla til þess eins framleiða hvolpa. Hér á landi hafa dýraunnendur barist hatrammri baráttu fyrir því að framleiðslunni í Dalsmynni verði lokað en dýraverndarlög á Íslandi eru svo úrelt og úr sér gengin að ekki hafa menn haft erindi sem erfiði enn.
Vonandi taka menn á Morgunblaðinu þessari ábendingu vel og íhuga vandlega hvað þeir eru að fá greitt fyrir áður en næsta hundablað kemur út hjá þeim.
Fjölmiðlar og fólk | Breytt s.d. kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)